Að skapa nýtt í atómstöð hugans

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Öll átök eru á milli tveggja grund­vall­ar­atriða, víg­völl­ur­inn ligg­ur eft­ir öll­um lönd­um og álf­um, öll­um sjó, öllu lofti, en einkum þó gegn­um miðja vit­und okk­ar sjálfra. Þannig er heim­ur­inn atóm­stöð. Í um­broti atóma verða til ný frum­efni en úr­gang­ur­inn end­ar í því að verða blý, sem til lít­ils er nýtt.

Þessi atóm­stöð er ávallt að kljúfa upp staðnaðar ein­ing­ar, sum­ar ein­ing­ar hverfa í duftið en aðrar verða lif­andi verk­smiðjur sem fram­leiða lífs­gæði.

Atóm­stöð manns­and­ans og stöðnun

Atóm­stöð manns­and­ans er miðstöð sköp­un­ar og þró­un­ar.

Sam­tök sauðfjár­bænda og Alþýðusam­band Íslands virðast telja það hlut­verk sitt að vernda blý og stöðnun. Sauðkind­in verður ekki upp­spretta fram­fara og bættra lífs­kjara. Það koma und­ar­leg­ar „álykt­an­ir“ frá Alþýðusam­bandi Íslands, sem bera með sér sterk­an vilja til að viðhalda óbreyttu ástandi í at­vinnu­lífi.

Van­geta og snilld­ar­andi

Í átök­um milli grund­vall­ar­atriða eru átök­in einkum milli van­get­unn­ar og snilld­ar­and­ans. Van­get­an hef­ur nokk­urt út­hald en að lok­um læt­ur hún und­an. Ástandið í Aust­ur-Evr­ópu eft­ir­stríðsár­anna er dæmi­gerð van­geta. Á milli Aust­ur- og Vest­ur-Evr­ópu var járntjald. Um járntjaldið var háð kalt stríð í vit­und stjórn­mála­manna. Ef til vill var það stríð for­orð friðar. Járntjaldið féll vegna gjaldþrots, vegna þess að van­get­an lét und­an snilld­ar­and­an­um.

Hagþróun

Hag­vöxt­ur á Íslandi hefst með þilskipa­út­gerð, sem held­ur áfram með vél­væðingu báta­flot­ans og tog­ur­um. Senni­lega hef­ur sauðkind­in aldrei verið sam­keppn­is­hæf við sjáv­ar­út­veg.

Á mín­um fyrstu árum á vinnu­markaði voru 25 tog­ar­ar gerðir út frá Reykja­vík. Nú eru þeir sex og lítið at­vinnu­leysi. Vill ein­hver bera sam­an lífs­kjör og lífs­gæði núna og um 1960? Öll er þessi þróun vegna ný­sköp­un­ar.

Þá var talað um dýr­mæt­an gjald­eyri, af því gengi krón­unn­ar var rang­lega skráð með handafli. Gjald­eyr­ir er ávallt jafn dýr­mæt­ur og heima­gjald­miðill ef gengi gjald­miðla er ekki hand­stýrt.

Fram­leiðslu­hag­kerfi Reykja­vík­ur varð þjón­ustu­hag­kerfi. Van­geta Bæj­ar­út­gerðar­inn­ar í þrjú ár kostaði eitt Ráðhús í Reykja­vík.

„Nýja hag­kerfið“

Eitt sinn var lausn­ar­orðið „nýja hag­kerfið“. Það var ekk­ert nýtt í nýju hag­kerfi. Aðeins er beitt nýj­um aðferðum við fram­leiðslu. Nýj­ar afurðir og ný þjón­usta urðu eft­ir­sókn­ar­verðar. Frá 1990 hef­ur kaup­mátt­ur launa auk­ist um 2,1% á ári og lífs­kjör batnað eft­ir því. Ekki varð það vegna auk­inna aðfanga!

1990 er merki­legt ár til viðmiðunar. Það er árið sem járntjaldið féll. Það er árið eft­ir að múr­inn milli aust­urs og vest­urs féll. Þá var Ísland á þrösk­uldi þess að ger­ast aðili að „Evr­ópsku efna­hags­svæði“, EES, sem leitt hef­ur efna­hagsþróun á Íslandi á liðnum þrem­ur ára­tug­um.

Hvar á Ísland mögu­leika?

Það er rangt að spyrja þess­ar­ar spurn­ing­ar. Landið á ekki mögu­leik­ana. Það er fólkið sem bygg­ir landið sem á þá. Það eru tvö aug­ljós heim­ilis­tæki sem eru merki fram­fara og nýj­unga: Sjón­vörp og tölv­ur. Sjón­vörp kostuðu aug­un úr fólki fyr­ir nokkr­um árum. Sjón­vörp nú­tím­ans hefðu kostað hús­verð fyr­ir 30 árum. Tölv­ur með af­kasta­getu far­tölvu hefðu tekið und­ir sig heilt hús fyr­ir 50 árum.

At­vinnu­stefna ís­lenskra stjórn­valda fyr­ir 50 árum kallaðist byggðastefna eða skipu­lags­hyggja. Hún fólst í skut­tog­ara­væðingu og hraðfrysti­húsa­áætl­un og efl­ingu á at­vinnu fyr­ir ófag­lærða og upp­bygg­ingu fram­halds­skóla víða um land. Hvað áttu fram­halds­skóla­nem­ar eft­ir út­skrift úr há­skóla að gera í sinni gömlu heima­byggð?

Breytt­ur sjáv­ar­út­veg­ur

Svo breytt­ust aðstæður í sjáv­ar­út­vegi. Kaup­end­ur sjáv­ar­af­urða vildu fersk­ar sjáv­ar­af­urðir. Vinnsla upp­sjáv­ar­fisk­teg­unda fer fram án þess að manns­hönd­in komi nærri. Í gömlu frysti­húsi í Nes­kaupstað unnu 200 manns. Í nýju frysti­húsi í Nes­kaupstað vinna 75. Vél­in sér beinið bet­ur en mannsaugað og sker bet­ur en manns­hönd­in.

Af­köst­in eru senni­lega fimm­föld í því nýja. Mest­ur hluti starfs­mann­anna í nýja frysti­hús­inu er sér­hæft véla­fólk og tölvu­fólk.

Auk­inn sjáv­ar­afli mun ekki bæta lífs­kjör á Íslandi. Það kann að vera að líf­efnaiðnaður á Íslandi bæti lífs­kjör. Það verður hug­vitið sem bæt­ir lífs­kjör. Hlut­verk stjórn­valda er að skapa starfs­skil­yrðin en hug­kvæmni ein­stak­linga mun ráða för.

Heil­brigðismál, vanda­mál?

Heil­brigðismál eru ekki alltaf vanda­mál. Grunnþætt­ir heil­brigðismála varða ein­stak­ling­inn sjálf­an, lifnaðar­hætti og for­varn­ir. En mál­in geta vand­ast. Þá kem­ur til sig­ur­för skurðlækn­inga, sýk­inga­varna og ónæm­is­varna.

Þegar Bis­marck ákvað 70 ára líf­eyris­ald­ur urðu fáir 70 ára. Síðan eru liðin 150 ár. Nú er meðalævi­lengd Íslend­inga kom­in yfir 80 ár.

Mín kyn­slóð er senni­lega sú fyrsta sem fékk fulla meðferð við háþrýsti­sjúk­dóm­um. Mín kyn­slóð fékk strax að vita skaðsemi reyk­inga.

Lækn­ing­a­rann­sókn­ir eru til þess að auka lífs­gæði. Þar eiga ís­lensk­ir vís­inda­menn góða mögu­leika á því að verða að gagni með ný­sköp­un.

Heil­brigðismál verða sam­bland heil­brigðrar skyn­semi og há­tækni. Það kann að vera að ís­lensk heil­brigðisþjón­usta geti orðið út­flutn­ings­grein. Þar eru mögu­leik­ar.

Þá verða yf­ir­völd heil­brigðismála að hverfa frá þeirri hugs­un að heil­brigðismál snú­ist um það sem í aðgerðarann­sókn­um er kallað biðraðavanda­mál. Biðraðir í mánuði og ár, þegar um heilsu og kval­ir er að ræða, eru aldrei ásætt­an­leg­ar.

Biðraðir í bönk­um hættu að vera vanda­mál þegar út­lána­vext­ir urðu já­kvæðir raun­vext­ir í stað gjaf­vaxta. Þá jókst fram­boð láns­fjár og lán urðu lán en ekki „lána­fyr­ir­greiðsla“ til hinna út­völdu.

Rann­sókn­ir og ný­sköp­un

Ný­sköp­un verður aldrei morg­un­verk. Um­hverfi ný­sköp­un­ar vex út úr um­hverfi rann­sókna. Það er álita­mál hvort rann­sókn­um í þágu at­vinnu­vega, til grunn­rann­sókna sem kunna að leiða til ný­sköp­un­ar, hef­ur verið nægj­an­lega sinnt. Þol­in­mæði til ár­ang­urs er ekki mik­il. Íslenskt viðskipta­líf hef­ur frem­ur lagt stund á eft­ir­prent­un, stund­um með ör­litl­um lag­fær­ing­um. Það er ekki ný­sköp­un.

Hvar eiga ís­lensk fyr­ir­tæki mögu­leika? Hvar kunna ís­lensk fyr­ir­tæki að ná sam­keppn­is­for­skoti? Dæmi eru um að sterk­ur heima­markaður hafi lagt grunn að frek­ari vexti. Þá er hægt að tala um rann­sókn­ir í þróun og ný­sköp­un.

En eins og skáldið sagði: Feg­urst auðlegð manns á Íslandi eru ský­in sem drag­ast sam­an í flóka og leys­ast í sund­ur.

Sá tími er liðinn að aðeins sé hægt að hugsa um kaffi og kvæði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2021.