Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur:
Hvað eiga Tryggingastofnun ríkisins, Íslandsbanki, Landsréttur, Hafrannsóknastofnun, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og Icelandair sameiginlegt? Jú, þessar stofnanir og fyrirtæki hafa valið sér aðalstarfsstöð utan Reykjavíkur á allra síðustu árum. Farið úr borginni. Fleiri aðilar, svo sem Tækniskólinn, eru að hugsa sér til hreyfings. Ástæðan er einföld. Það vantar hagstæðar og hentugar atvinnulóðir.
Stefna borgarinnar hefur verið að skipuleggja ákveðna atvinnustarfssemi á Esjumelum fyrir starfsemi. Fáir kostir eru fyrir stórar stofnanir og fyrirtæki sem vilja vera miðsvæðis með skrifstofur og starfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Þá liggur fyrir að verulegur skipulagshalli hefur aukist þar sem umferðin fer vestur og í miðbæinn á morgnana, en í austur og til Kópavogs síðdegis. Loks skortir staðarval fyrir nýjan spítala, en langan tíma tekur að undirbúa slíka starfsemi eins og dæmin sanna.
Besta staðsetning fyrir nýja starfsemi væri austarlega til að stytta vegalengdir og minnka umferð á álagstímum. Keldur. Íbúabyggð, óskert ströndin við Grafarvog og atvinnulóðir undir framsækna starfsemi á Keldum er skynsamlegasta svarið. En í stað þess að skipuleggja Keldur eins og lagt er upp með bæði í lífskjarasamningum og samgöngusáttmálanum gerir borgarstjórnin ráð fyrir engri uppbyggingu á Keldum næsta áratuginn. Forfeður okkar bændurnir hefðu vitað það betur. Störfin eru undirstaða tekna íbúanna. Þau eru líka undirstaða tekna borgarinnar. Skuldir hafa hækkað mikið hjá borginni og því einboðið að borgin þarf að bjóða stofnunum og fyrirtækjum góða valkosti. Sú er ekki raunin. Sá sem hrekur frá sér mjólkurkýrnar situr eftir mjólkurlaus.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2021.