Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur skipast í sveit með fótgönguliðum sem falla flatir á sverðið fyrir borgarstjóra. Í skoðanapistli á mánudag lýsti hann sérstöku dálæti á skuldasöfnun borgarsjóðs og taldi sveitarfélagið í engum sérstökum fjárhagsvanda. Öðruvísi mér áður brá.
Skuldahlutföll nágrannasveitarfélaga lækka
Samkvæmt opinberum tölum frá sambandi íslenskra sveitarfélaga er áhugavert að rýna þróun skuldahlutfalls sveitafélaga höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Af tölfræðinni má sjá að skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar hefur lækkað um 103 prósentustig frá árinu 2009 til ársins 2019. Skuldahlutfall Kópavogsbæjar hefur lækkað um 110 prósentustig yfir sama tímabil. Þá hefur skuldahlutfall Mosfellsbæjar lækkað um 54 prósentustig og skuldahlutfall Garðabæjar um 19 prósentustig á tímabilinu.
Yfir tíu ára tímabil - allt frá síðasta efnahagshruni - hafa nágrannasveitarfélögin unnið að verulegri lækkun skuldahlutfalls. Hið sama má segja um fjölmörg sveitarfélög á landsbyggðinni. Öðru máli gegnir um Reykjavíkurborg sem hefur hækkað skuldahlutfall A-hluta úr 57% í 91% á þessu tíu ára tímabili. Sé öll samstæðan tekin með í reikninginn mun skuldaviðmið borgarinnar verða 170% næstu áramót, sem er vel ríflega yfir lögleyfðu hámarki.
Píratar líti sér nær
Á vordögum sendi fjármálasvið borgarinnar neyðarkall á ríkissjóð þar sem rekstur borgarsjóðs var sagður ósjálfbær til margra ára. Ekki yrði hægt að standa undir lögbundinni grunnþjónustu án ríflegs stuðnings ríkissjóðs. Þingmanninum hefur greinilega ekki borist neyðarkallið enda virðist Píratinn telja fjárhag borgarinnar bæði vænan og grænan.
Það er engum blöðum um það að fletta – síðasti ársreikningur Reykjavíkurborgar bar fjárhagnum ekki fagurt vitni. Þrátt fyrir tekjuaukningu ársins 2019 jókst skuldsetning borgarinnar um 21 milljarð. Launakostnaður hækkaði samhliða fjölgun stöðugilda og rekstrarkostnaður jókst um 9%. Báknið stækkaði í tekjugóðæri og tækifæri til skuldaniðurgreiðslu voru vannýtt.
Píratar hafa nú setið í meirihluta borgarstjórnar yfir nærri sjö ára tímabil. Þeir bera sína ábyrgð á ósjálfbærum rekstri borgarsjóðs - ábyrgð sem þeir vilja alls ekki axla - sem er kannski þekkt stærð þegar sjóræningjar eiga í hlut.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2021.