Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Árið 2020 minnti okkur á hve viðkvæmt samfélag mannanna er. Til lengri tíma getur þetta erfiða ár fært heim sanninn á ný um hvernig gjörvallt mannkyn aðlagast aðstæðum. Það er viðeigandi að nú þegar dag tekur að lengja á ný sé farið að bólusetja heimsbyggðina fyrir kórónuvírusnum útbreidda. Það eru mikil kaflaskil. Það er einmitt í mestu áföllunum sem stærstu sigrarnir verða. Stökkið í lyfjavísindunum er stórt og mun það lifa lengi. Sumir spá því að þriðji áratugurinn muni ríma við nafna sinn á síðustu öld.
Fyrir hundrað árum var mannkynið að koma út úr spænsku veikinni. Áratugurinn eftir það mikla áfall einkenndist af tækniframförum, bjartsýni og ferðalögum. Ný bók um ör Appolos eftir Christakis rifjar upp hvað gerðist í plágum og ekki síður hvað gerðist eftir plágur. Þótt sagan endurtaki sig ekki bókstaflega er líklegt að hún rími. Það er ýmislegt sem styður það. Tæknin sem var tekin í notkun á árinu var ekki bara á lyfjasviðinu. Fjarvinna, sjálfvirknivæðing og fjarnám tók risastökk. Það stökk mun nýtast í að auka framleiðni á mörgum sviðum. En það gerist ekki af sjálfu sér.
Nýtum tækifærin
Hér á landi getum við nýtt okkur tæknina mun betur. Borgin getur hagrætt mikið með því að nýta sér 21. aldar tækni. Ekki bara minnkað skrifræðið; ekki síður að innleiða tæknina í samgöngum. Borgin á að undirbúa samgöngukerfið fyrir sjálfkeyrandi bíla sem munu ryðja sér til rúms. Fjölmargar borgir eru að undirbúa þetta stóra stökk og Reykjavík á að vera í hópi nútímaborga hvað þetta varðar. Fara líka óhikað í orkuskiptin. Við eigum að nýta okkur tækifærin í námi og starfi. Þannig nýtum við þessa krísu til framfara. Það eru ljós fram undan. Öllum óska ég gleðilegrar jólahátíðar og að árið 2021 verði okkur gæfuríkt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. desember 2020.