Formaður Sjálfstæðisflokksins gerir upp sögulegt ár
'}}

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra var sérstakur jólagestur Guðfinns Sigurvinssonar í Pólitíkinni en nálgast má þáttinn á hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins. Þetta er jafnframt síðasti þáttur ársins og því litu þeir félagar um öxl og gerðu upp pólitíska árið.

Rétt er taka fram að viðtalið var tekið skömmu áður en aurskriðurnar féllu á Seyðisfirði í desember 2020.

Þáttinn má nálgast hér, en einnig hér að neðan á YouTube og á Spotify.

Bjarni fer um víðan völl í viðtalinu og ræðir um Covid19 og ljósið við enda ganganna sem er bóluefnið. Hann ræðir líka leiðina út úr efnahagserfiðleikunum í kjölfarið. Bjarni ræðir stöðu ríkisstjórnarinnar, komandi Alþingiskosningar en hann býst við flókinni stjórnarmyndun að þeim loknum.

Í mars má segja að öllu hafi verið snúið á hvolf þegar Covid19 hóf innreið sína í íslenskt samfélag og takmarkanir á frelsi borgaranna, truflun á atvinnulífi og fleira sköpuðu mikinn og margþættan vanda. Ríkissjóður var vel í stakk búinn til að mæta aðsteðjandi ógn og ráðist var í umfangsmestu efnahagsaðgerðir sögunnar til varnar fólki og fyrirtækjum. „Ég lagði til í mínum fyrstu ræðum á þingi um þetta mál að við þyrftum að vera reiðubúin að gera meira en minna. Skaðinn af því að gera of lítið gæti orðið miklu meiri heldur viðbótarkostnaðurinn sem hlýst af því að gera aðeins of mikið,” segir Bjarni. Hann segir að eftir því sem leið á faraldurinn hafi ríkisstjórnin um leið verið óhrædd við að endurskoða og endurmeta björgunaraðgerðirnar í ljósi reynslunnar. „Það er mikill stuðningur við aðgerðirnar sem við höfum farið í og það er mikill skilningur á því að við getum ekki leyst hvers manns vanda. En það sem við getum gert er að beita styrk ríkisfjármálanna til að lina þjáningarnar og draga úr högginu. Það finnst mér okkur hafa tekist vel að gera,” segir fjármálaráðherra.

Ríkisstjórnin er nú á síðasta starfsári kjörtímabilsins en aldrei áður hefur þriggja flokka stjórn setið heilt kjörtímabil. Snúin mál bíða afgreiðslu þingsins eftir áramót en Bjarni er afar bjartsýnn á að ríkisstjórnin lifi út kjörtímabilið og setji þar með nýtt fordæmi. „ Já, ég trúi því. Ég sé málin framundan sem eru snúin en við höfum verið að fást við alls konar aðstæður á þessu kjörtímabili og höfum einmitt sýnt styrkinn sem býr í svona breiðri ríkisstjórn eins og þessari. Skemmst er að minnast lífskjarasamninganna og óróans sem var á vinnumarkaði. Það má svo sem hafa ólíkar skoðanir á því hversu mikið ríkisstjórnir eigi að stíga inn í slíka mynd. Við vorum reiðubúin að láta reyna á það hvort við hefðum eitthvað í okkar verkfærakistu sem gæti hjálpað til við að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Held að það sé í öllu falli mikils metið að það hefur þó verið efnahagslegur stöðugleiki, við erum með lægstu vexti sem við höfum séð og þar með lægstu húsnæðisvexti sem við höfum séð,” segir Bjarni sem bendir á að margir hafi nýtt tækifærið og endurfjármagnað löng húsnæðislán á hagfelldari kjörum.

Bjarni rakti nokkrar góðar fréttir úr þjóðlífinu á þessu ári, líka úr sínu einkalífi. „Ég varð nú afi á árinu og ég náði þessum stórkostlega áfanga að verða fimmtugur. Það voru stórkostleg tíðindi þegar það kom lítil afadrengur í heiminn þann 2. apríl síðastliðinn. Það var gleðifréttin í okkar fjölskyldu,” segir Bjarni að lokum.