Hvenær öðlast þjóð sjálfstæði?

Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður skrifar:

Það er ávallt efni til íhugunar að fjalla um frelsi og sjálfstæði. Lengi var annað hugtak umhugsunarefni og það var hlutleysi.

Um hlutleysi er vart fjallað nú, enda þótt hlutleysið hafi ráðið því að Ísland hafi ekki verið meðal þeirra þjóða sem stóðu að stofnun Sameinuðu þjóðanna í lok seinna stríðs. Til þess að gerast stofnaðili að hinum Sameinuðu þjóðum varð stofnaðili að lýsa yfir stríði gegn öxulveldunum.

Í öllum hugmyndum um sjálfstæði var aldrei horft til þess hvernig bæri að rækta fjárhagslegt sjálfstæði!

Hlutleysið náði aðeins að stríðsyfirlýsingu, en ekki að því hvort kona eða kommúnisti yrði höfundur þjóðsöngs hins nýstofnaða lýðveldis. Hvorugt gat gengið.

Konan orti:

Hver á sér fegra föðurland,

með fjöll og dal og bláan sand,

með norðurljósa bjarmaband

og björk og lind í hlíð?

Með friðsæl býli, ljós og ljóð,

svo langt frá heimsins vígaslóð.

Geym, drottinn, okkar dýra land

er duna jarðarstríð.

Sennilega hefur hrifning dómnefndarinnar stafað af því að Ísland var »Með friðsæl býli, ljós og ljóð,/ svo langt frá heimsins vígaslóð. Í miðju heimsstríði!

Síðar í ljóðinu segir skáldið:

Hver dagur liti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í

svo verði Íslands ástkær byggð

ei öðrum þjóðum háð

Svo aldrei framar Íslands byggð

sé öðrum þjóðum háð.

Með lokaorðunum virðist óskin sú að með hlutleysinu, sem var verndað af fjarlægðinni, fylgdi einnig einangrun.

Ef til vill var síðasta hlutleysisbrotið framið á Íslandi þegar Leonard Kelly Barnes flugsveitarforingi nauðlenti á flugbát sínum við Raufarhöfn 1939 en náði að gera flugbátinn flughæfan á ný og flaug á braut!

Stjórnarskrá, sambandslagasáttmáli og lögskilnaður

Danakonungur »gaf« íslensku þjóðinni stjórnarskrá á þjóðhátíðinni 1874. En það gleymdist að koma henni til skila því stjórnarskráin frá 1874 barst ekki til Íslands fyrr en 2004. Sambandslagasáttmálinn frá 1918 komst ekki í opinbera vörslu fyrr en 1984. Ekki verður séð að þessi „óreiða“ í skjalavistun hafi haft áhrif á stjórnarfar. Stjórnarskráin og sambandslögin komust á einhvern hátt í prentun. Ekkert í stjórnarskrá eða sambandslögum kom í veg fyrir að landsbankastjóri í umboði fjármálaráðherra veðsetti skatttekjur og tolltekjur þjóðarinnar í Hambros-banka. Bankastjórinn samdi við Hambro en ráðherrann beið frammi á gangi.

Og skáldin ortu „svo verði Íslands ástkær byggð / ei öðrum þjóðum háð.“

Fjárhagslegt sjálfstæði! Hvað með það?

Það voru tveir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn sambandslögunum. Þeir töldu alls ekki nógu langt gengið! Annar þeirra, Benedikt Sveinsson, gleymdi engu en las sjaldan Alþýðublaðið. Hann geymdi eintak frá 23. september 1943 með ávarpi lögskilnaðarmanna! Þeir voru svikarar við málstað sjálfstæðissinna!

Hraðskilnaður!

Það er undarlegt að rifja upp atburði sem gerðust fyrir 80 árum og engir eru til frásagnar um. Þó eru til minnisblöð af fundum. Einu samtali náði ég við mann í atburðunum. Ég spurði Lúðvík Jósefsson hví sósíalistar hafi ekki greitt Sveini Björnssyni atkvæði sitt í forsetakosningum á þingfundi 17. júní 1944. Þingmaðurinn fyrrverandi sagði ástæðuna þá, að Sveinn hafi viljað fresta lýðveldisstofnun fram yfir lok styrjaldarinnar.

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn virðast hafa viljað stofna lýðveldi þegar Danakonungur gat ekki rækt skyldur sínar eftir hernám Þjóðverja í Danmörku.

Hvers virði var sjálfstæði þjóðar, sjálfstæði sem enginn önnur þjóð viðurkenndi? Sama hvað skáldin ortu!

Umskipti við hervernd

Það virðast verða umskipti í umræðu og hugsun um sjálfstæði við lýðveldisstofnun. En stutt í einangrunarhyggju millistríðsára!

Þingmenn komu sér saman um að undirbúa lýðveldisstofnun með því að stofna embætti ríkisstjóra til að fara með konungsvald, vegna hersetu Þjóðverja í Danmörku. Ekki gátu þingmenn komið sér saman því ríkisstjóri fékk einungis 37 atkvæði, sex atkvæði voru auð og Jónas Jónsson fékk eitt atkvæði. Hann sór af sér að hafa greitt sér atkvæði! Málamiðlun milli lögskilnaðar og hraðskilnaðar! En Sveinn Björnsson var ekki óumdeildur! Þó taldi ríkisstjóri sig bera að virða vilja og ákvarðanir Alþingis.

Íslenskir lögfræðingar töldu að hægt væri að segja Sambandslagasáttmálanum einhliða upp ef ekki væri hægt að rækja hann. Svo virðist sem allir alþingismenn hafi verið fylgjandi því að stofna lýðveldi eftir fyrri kosningarnar 1942.

Með herverndarsamningi 1941 fylgdi sendiherra Bandaríkjanna. Fyrsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Lincoln MacVeagh, var sérstakur sendimaður Bandaríkjaforseta í ýmsum verkefnum. Það virðist sem bandarískum sendimönnum og herforingjum hafi verið kunnugt efni sambandslagasáttmálans. Gildistími sáttmálans var til 1. desember 1943.

Sendimaður Bandaríkjaforseta

Í lok júlí átti sérstakur sendimaður Bandaríkjaforseta, Henry Hopkins leið til Íslands. Það virðist sem yfirmaður herliðs Bandaríkjamanna á Íslandi og sendifulltrúi í fjarveru sendiherra hafi sagt sendimanninum hvað hann ætti að segja íslenskum ráðamönnum. Í minnisblöðum ríkisstjórans segir:

  • „Talaði hann við mig einslega. Kvaðst eiga að bera mér kveðju frá Roosevelt Bandaríkjaforseta og þau skilaboð að hann og stjórn Bandaríkjanna teldi mjög ískyggilegt, ef sambandsslit og lýðveldisstofnun yrði samþykkt af Alþingi nú; fylgdu því ýmis rök, sem ég sumpart reyndi að hrekja. En að öðru leyti sagði ég honum að um þetta væri að tala við ráðuneytið en ekki mig. Forsætisráðherra Ólafur Thors, var staddur á sama stað, og beindi Harry Hopkins síðan málinu til hans. Mun viðræðum þeirra hafa lokið svo, að forsætisráðherra mundi berast skrifleg tilmæli um þetta frá Washington innan fárra daga. Bárust þau tilmæli til forsætisráðherra frá sendiráði Bandaríkjanna hér 31. s.m.“

 

En skáldið kvað „Svo aldrei framar Íslands byggð/ sé öðrum þjóðum háð.“

 

Þessi tilmæli virðast hafa haft sitt að segja, því lýðveldisstofnun var frestað fram yfir gildistíma sambandslagasáttmálans. Lýðveldi var stofnað milli sauðburðar og sláttar þann 17. júní 1944. Sá dagur hentaði vel sem þjóðhátíðardagur fyrir bændur, enda að því stefnt allar götur frá 1911.

Svo virðist sem sendimenn Bandaríkjanna hafi náð að tryggja stuðning annarra þjóða við lýðveldisstofnun 1944. Með lýðveldisstofnun var jafnframt tryggt að Ísland gæti orðið aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum og Alþjóðaflugmálastofnuninni við stofnun þessara samtaka árið 1944.

 

Hvað sagði Hulda?

Heill, feginsdagur, heill frelsishagur!

Heill, íslenzka ættargrund.

Heill, norræn tunga með tignarþunga,

hér töluð frá landnámsstund.

Heill, öldin forna með höfðingja horfna

og heilir, þér góðu menn,

er harmaldir báruð, sem svanir í sárum

og sunguð, svo hljómar enn.

 

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 18. desember 2020.