Leigjendum Félagsbústaða verði gert kleift að eignist íbúðir

„Stórt félagslegt kerfi er ekki endilega mælikvarði á gott ástand. Þvert á móti er það einkenni þess að vandinn fari vaxandi. Það að fleiri séu að sækjast eftir félagslegu húsnæði er frekar einkenni um að húsnæðismarkaðurinn sé ekki í jafnvægi,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi við síðari umræðu um fjárhagsætlunar fyrir árið 2021 í morgun.

„Verð hefur snarhækkað og hagkvæmt húsnæði skortir. Fólk kemst ekki út úr félagslega kerfinu en eingöngu 1% þeirra á ári fara inn á almennan markað. 80% þeirra sem leigja vilja eignast húsnæði. Við leggjum því til að eitt hundrað félagslegar íbúðir verði seldar á ári til þeirra sem búa í þeim,“ bætti hann við.

Þetta er ein af þeim tuttugu tillögum sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mun leggja fram á fundi borgarstjórnar í dag.

Meðal annarra tillagna sem lagðar verða fram eru rekstrarúboð sorphirðu í borginni og að Gagnaveita Reykjavíkur og Malbikunarstöðin Höfði, sem eru fyrirtæki á samkeppnismarkaði, verði seld og skuldir lækkaðar til samræmis. Þá er lagt til að hagrætt verði í miðlægri stjórnsýslu og að fallið verði frá fjárfestingu í Grófarhúsinu sem ráðgert er að kosti á fimmta milljarð króna, auk fjölda annarra tillagna.

Eyþór Arnalds bendir á að nauðsynlegt sé að borgin létti byrðum af borgarbúum og fyrirtækjum á þessum erfiðu tímum.

„Tillögur Sjálfstæðismanna miða að því að beina fjárfestingum í réttan farveg og minnka báknið með það fyrir augum að minnka álögur á fólk og fyrirtæki í Reykjavík á þessum erfiðu tímum.“ sagði Eyþór og bætir við: „Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir stórfelldri skuldsetningu að óbreyttu. Við viljum vinda ofan af þeirri þróun með því selja fyrirtæki borgarinnar sem eru í samkeppnisrekstri eins og Malbikunarstöðina Höfða og Gagnaveituna en þar liggja tugir milljarða. Stórhækkað vaxtaálag á borgina sýnir að núverandi plan gengur ekki upp til lengdar.“