Bjart yfir nýsköpun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Stóra verk­efni Íslands á næstu árum verður að skapa nægi­lega mik­il verðmæti til að vega upp efna­hags­áfallið sem við stönd­um frammi fyr­ir. Vand­inn blas­ir m.a. við okk­ur í spá um þriggja ára sam­felld­an halla­rekst­ur hins op­in­bera, sem muni valda því að árið 2022 verði skuld­ir hins op­in­bera orðnar rúm­lega tvisvar sinn­um hærra hlut­fall lands­fram­leiðslu en áður var stefnt að, eða 64% í stað 29% sam­kvæmt end­ur­skoðaðri fjár­mála­áætl­un. Þetta er áskor­un sem við skatt­leggj­um okk­ur ekki út úr. Eina ráðið sem dug­ar er auk­in verðmæta­sköp­un.

Lík­leg­ustu upp­sprett­ur þess­ar­ar verðmæta­sköp­un­ar eru ferðaþjón­usta og ný­sköp­un. Frétt­ir af mögu­legu bólu­efni auka bjart­sýni um að ferðaþjón­ust­an kom­ist fyrr af stað en verstu sviðsmynd­ir voru farn­ar að gera ráð fyr­ir. Um leið ber­ast reglu­lega já­kvæðar frétt­ir af vett­vangi ný­sköp­un­ar. Sam­an skapa þær frétt­ir mjög áhuga­verða heild­ar­mynd sem full ástæða er til að halda til haga.

17 millj­arða fjár­fest­ing­ar í ís­lenskri ný­sköp­un 2020

Ég lét ný­lega taka sam­an töl­ur um um­fang fjár­fest­inga í ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um. Í ljós kem­ur að það sem af er þessu ári hef­ur verið fjár­fest í ís­lensk­um ný­sköp­un­ar- og tæknifyr­ir­tækj­um fyr­ir um 17 millj­arða króna. Það er meira en allt árið 2019.

Um­fang fjár­fest­inga frá er­lend­um aðilum er um 12 millj­arðar eða 74% af heild­ar­upp­hæðinni. Það sýn­ir til­trú alþjóðlegra fjár­festa á ís­lensku hug­viti, ís­lensk­um frum­kvöðlum og ís­lensku ný­sköp­un­ar­um­hverfi.

Fjár­fest­ing­arn­ar eru færri í ár en í fyrra, þó að heild­ar­upp­hæðin sé hærri. Það er já­kvætt í ákveðnum skiln­ingi; það að færri fyr­ir­tæki séu að sækja sér stærri fjár­fest­ing­ar bend­ir al­mennt til þess að þau séu kom­in yfir fyrstu stig­in í vaxt­ar­ferli sínu og nær því að taka næstu stóru skref. Þetta er þroska­merki fyr­ir ný­sköp­un­ar­um­hverfið á Íslandi.

Nokk­ur dæmi

Íslensk ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki hafa sem sagt verið að ná góðum ár­angri að und­an­förnu þrátt fyr­ir breytt­ar aðstæður í heims­far­aldri. Hér eru nokk­ur dæmi:

Si­dekick Health, sem ger­ir lækn­um kleift að beita sta­f­rænni meðferð við lífs­stíl­stengd­um sjúk­dóm­um, lauk ný­lega fjár­mögn­un upp á tæp­lega þrjá millj­arða króna frá er­lend­um fjár­fest­um í kjöl­far samn­inga við stór lyfja­fyr­ir­tæki á borð við Pfizer.

Control­ant, sem býr til búnað og hug­búnað til að fylgj­ast með viðkvæm­um vör­um í flutn­ingi, lauk ný­lega fjár­mögn­un upp á um tvo millj­arða króna. Lausn­in er m.a. notuð til að fylgj­ast með flutn­ingi á Covid-skimun­ar­búnaði.

Dohop, sem smíðar hug­búnað fyr­ir flug­fé­lög, hef­ur lokið stórri fjár­mögn­un fyr­ir yfir millj­arð króna frá er­lend­um sjóði og hyggst nýta fjár­magnið til að byggja upp starf­sem­ina og fjölga starfs­mönn­um á Íslandi.

CCP Games gaf ný­lega út tölvu­leik í Kína með góðum ár­angri.

Avo, sem smíðar hug­búnað fyr­ir gagna­öfl­un og gagna­vernd, varð fyrsta ís­lenska fyr­ir­tækið til að vera valið til þátt­töku í Y Comb­inator, sem þykir besti viðskipta­hraðall heims. Fyr­ir­tæki sem hafa áður notið góðs af hon­um eru m.a. Airbnb, fjár­tækn­iris­inn Stripe, sam­fé­lags­miðill­inn Reddit og skýþjón­ust­an Drop­box. Í kjöl­farið sótti Avo sér fjár­mögn­un upp á um 400 millj­ón­ir króna frá sér­hæfðum fjár­fest­um í Kís­il­dal.

Vísi­sjóðir í sókn

Á Íslandi eru starf­rækt­ir nokkr­ir vísi­sjóðir sem sér­hæfa sig í að fjár­festa í sprota­fyr­ir­tækj­um. Á bak við þá eru Brunn­ur Vent­ur­es, Crow­berry Capital, Eyr­ir Vent­ur­es og Frum­tak Vent­ur­es (sem rek­ur tvo sjóði), auk Ný­sköp­un­ar­sjóðs at­vinnu­lífs­ins. Flest­ir þess­ir aðilar og raun­ar fleiri eru nú að vinna að fjár­mögn­un nýrra sjóða. Því er út­lit fyr­ir að nýtt skeið fjár­fest­inga í sprota­fyr­ir­tækj­um sé að hefjast. Það eru góð tíðindi. Stofn­un Kríu, hvata­sjóðs vísifjár­fest­inga með op­in­beru fjár­magni, mun styðja við þá þróun.

Vel­gengni er­lend­is

All­mörg ís­lensk ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki fengu evr­ópska þró­un­ar­styrki í fyrra. Styrk­irn­ir námu alls um 1,5 millj­örðum króna. Hér hafa ís­lensk fyr­ir­tæki sótt í sig veðrið á und­an­förn­um miss­er­um og sýnt og sannað að verk­efni þeirra stand­ast kröf­ur sem gerðar eru til styrk­veit­inga á alþjóðleg­um vett­vangi. Þau sem fengu evr­ópska styrki í fyrra voru lyfja­fyr­ir­tækið EpiEnda, marg­miðlun­ar­fyr­ir­tækið Oz, heilsu­fyr­ir­tækið Saga Natura, lækn­inga­vöru­fyr­ir­tækið Kerec­is og mat­ar­tæknify­irr­tækið Curio.

Á þessu ári hafa a.m.k. þrír stór­ir evr­ópsk­ir styrk­ir verið veitt­ir til ís­lenskra verk­efna: 2,5 millj­arðar króna til rann­sókn­ar­verk­efn­is­ins Svefn­bylt­ing­in, um 400 millj­ón­ir til Orf líf­tækni og um 300 millj­ón­ir króna til Green­volt vegna þró­un­ar á raf­hlöðum með nanó­tækni.

Það er auk­in verðmæta­sköp­un í far­vatn­inu

Í all­mörg ár hafa ræður um ís­lenska ný­sköp­un oft­ast vísað til þriggja fyr­ir­tækja: Öss­ur­ar, Mar­el og CCP. Öll eru þau glæsi­leg­ir full­trú­ar ís­lenskr­ar ný­sköp­un­ar. Dæm­in hér að fram­an – og raun­ar fleiri dæmi – benda til að þeim full­trú­um fari ört fjölg­andi. Ég er sann­færð um að verið sé að byggja upp fyr­ir­tæki sem stilla sér upp við hlið hinna þriggja hvað varðar ár­ang­ur, um­svif og styrk.

Stjórn­völd hafa sett fram skýra sýn og tekið stór­ar ákv­arðanir til að styrkja þetta um­hverfi og af því er ég stolt, en stærst­an heiður eiga auðvitað frum­kvöðlarn­ir sjálf­ir fyr­ir þraut­seigju sína og hug­vit.

Rétti­lega er oft bent á að ný­sköp­un taki tíma. En við vor­um ekki að byrja á henni í gær og erum nú þegar byrjuð að upp­skera. Sautján millj­arða fjár­fest­ing það sem af er þessu ári er skýr vís­bend­ing um að það er bjart yfir ný­sköp­un á Íslandi og veru­leg verðmæta­sköp­un í far­vatn­inu.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 29. nóvember 2020.