Gleymum ekki drengjunum

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Haustið 2015 gerðist Reykjavíkurborg aðili að Þjóðarsáttmála um læsi. Markmiðið var að öll börn gætu lesið sér til gagns, en að lokinni grunnskólagöngu geta 30 prósent drengja ekki lesið sér til gagns. Ekki hefur orðið marktækur árangur á fyrstu árum skólagöngunnar. Þvert á móti. Á síðasta ári voru tæp 40 prósent barna í 2. bekk í Reykjavík sem gátu ekki lesið sér til gagns eins og það er skilgreint. Þegar borgin gerðist aðili að Þjóðarsáttmála um læsi var þetta hlutfall 35 prósent. Engin mæling er gerð á þessu ári. Þessar tölur eru vísbending um að enn sé sitthvað í ólestri. Þegar tölurnar eru rýndar kemur í ljós að öll árin frá 2002 hafa drengir verið með lakari útkomu en stúlkur. Það er ekki í lagi. Kynbundinn munur eykst á grunnskólastigi og er áberandi hvað drengir standa höllum fæti við lok grunnskólagöngu. Menntamálaráðherra benti nýverið á stöðu nemenda í Háskóla Íslands, en aðeins 27 prósent þeirra sem stunda nám á framhaldsstigi eru karlar. Það er því eins og kynbundinn munur í námi aukist þegar á líður. Leggja þarf aukna áherslu á fyrstu skólastigin og hafa námsefni sem höfðar til beggja kynja.

Gerum betur

Í dag liggur fyrir borgarstjórn tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gera úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í leik- og grunnskóla. Vonandi næst samstaða um það. Áfram þarf að styrkja lestrarnám allra, en sinna þarf sérstaklega viðkvæmum hópum. Við viljum flagga því að hér er verk að vinna og fleiri úrræði þurfi til að ná tökum á lakri stöðu drengja í lestri. Íslenskan á undir högg að sækja þegar samfélagsmiðlar og sjónvarpsefni er að mestu leyti á ensku. Lestur bóka og blaða fer minnkandi. Meirihluti útgjalda borgarinnar fer í skólamál. Við eigum að vera vakandi þegar svona sterk aðvörunarljós blikka. Horfast í augu við viðfangsefnið óhikað. Þannig gerum við betur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. október 2020.