„Sauðfjárrækt er alvöru búskapur“
'}}

„Það má alveg segja það þegar horft er á þau eins og þau eru borin fram af þeim sem eru mest í umræðunni þá eru þau óheppileg og koma illa út þegar þau eru slitin úr samhengi við annað sem fram fór í þessum fyrirspurnartíma. Það er raunar alveg með ólíkindum að horfa á það hversu langt fólk er tilbúið til að ganga til að slíta hugsanir og orðfæri úr samhengi við heildarmyndinda og eigna mér til dæmis í þessu tilfelli viðhorf til bænda, eins og hafa komið fram í þessari umræðu, sem eru fjarri allri sanni,“ sagði Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra í Bítinu í Bylgjunni í morgun.

Þar voru til umræðu ummæli sem hann lét falla í umræðum um fjármálaáætlun í þinginu og hafa vakið nokkra athygli. Kristján segir að ummælin hafi verið slitin úr samhengi í umræðunni. Hann líti síður en svo á sauðfjárrækt sem tómstundagaman. Honum séu eignuð viðhorf sem hann kannist ekki við.

„Það var verið að spyrja um frelsi bænda til athafna og ég vitnaði til þess að ég hef átt samtöl við sauðfjárbændur. Ég hef sömuleiðis hlýtt á viðtöl við sauðfjárbændur þar sem þeir hafa sagt að þetta sé lífstíll. Þá eru þeir ekki að meina hobbý, þeir eru bara að meina lífstíll, frekar heldur en spurning um afkomu. Þetta er það sem ég vitnaði í, ég var ekki að halda því fram,“ sagði Kristján Þór.

Það liggi þó í augum uppi að ýmsir á borð við sjómenn og bændur velji sér lífstíl í tengslum við sína vinnu.

„Ég sé ekkert að því að líta þannig á að það sé lífstíll að búa í sveit en að halda því fram að ráðherra landbúnaðarmála sé þeirrar skoðunar að fólk í þessari atvinnugrein eða einhverri annarri eigi ekki að hafa afkomu af starfi sínu er náttúrulega gjörsamlega ótrúlegt að hlýða á, því það hefur aldrei verið sagt,“ sagði Kristján Þór.

„Það er beinlínis rangt þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir í grein á Vísi að ég sé að halda því fram að það sé frekar lífstíll heldur en spurning um afkomu. Ég hef aldrei sagt þetta. Sömuleiðis hjá Landssamtökum sauðfjárbænda að ég segi það að afkoma greinarinnar skipti ekki máli. Þetta er beinlínis rangt,“ sagði hann.

Kristján Þór sagði að umræða gærdagsins hefði mátt fara í að ræða lausnir í stað gagnrýni. Hefndi hann dæmi um bónda sem hefði fengið um 5,8 milljónir króna fyrir um 600 lömb en þegar búið væri að greiða rekstarkostnað stæðu um 2,3 milljónir eftir.

„Þetta er engin afkoma í sauðfjárræktinni. Þannig að við þurfum einhvern veginn að horfa til þess að bilið sem sauðfjárbóndinn fær greitt og það sem að kjötið, framleiðsla þeirra út úr búð, er sífellt að breikka. Við þurfum að leggja saman í það með einhverjum hætti hvernig á að vinna úr þessum erfiðleikum í sauðfjárræktinni.“

Spurður að því hvort hann væri að tala um sauðfjárbúskap sem tómstundagaman sagði Kristján Þór: „Það er langur vegur frá. Hugsun mín er ekki þannig. Sauðfjárrækt er alvöru búskapur og það þarf mikla þekkingu, kunnáttu og færni til að geta gert það af einhverjum myndaskap og rekið þetta, það er bara þannig.“

Hægt er að nálgast viðtalið hér.

Close menu