Demantshringurinn og skoska leiðin

Njáll Trausti Friðberts­son alþingismaður

Hinn stór­kost­legi Dem­ants­hring­ur, 250 kíló­metra lang­ur hring­veg­ur á Norður­landi, var loks opnaður um síðustu helgi.

Íslend­ing­ar og ferðamenn sem heim­sótt hafa landið eru van­ir hinum Gullna hring en nærri því hvern ein­asta dag sl. ára­tug hafa rút­ur safnað fólki sam­an á hót­el­um í Reykja­vík og ekið sem leið ligg­ur hinn rómaða Gullna hring; að Gull­fossi, Geysi, Þing­völl­um, Skál­holti, Ker­inu og aft­ur til baka. Þessi víðfarna ferðamanna­leið hef­ur gert ferðaþjón­ust­unni kleift að vaxa og dafna. Það er því mik­il innviðabót sem nýr Detti­foss­veg­ur og bundið slitlag hef­ur fært Norðlend­ing­um og norðlenskri ferðaþjón­ustu en Norðlend­ing­ar hafa í ár­araðir kallað eft­ir þess­ari sam­göngu­bót.

Á Dem­ants­hringn­um eru fimm lyk­i­láfangastaðir; hinn sögu­frægi Goðafoss þar sem þjóðsag­an seg­ir að Þor­geir Ljósvetn­ingagoði hafi varpað goðalíkn­eskj­um sín­um þegar hann sneri heim frá Lög­bergi, til staðfest­ing­ar á því að hann hefði tekið nýj­an krist­inn sið; nátt­úruperl­an Mý­vatn, Detti­foss sem er afl­mesti foss í Evr­ópu, nátt­úru­undrið Ásbyrgi sem læt­ur hvern þann snort­inn sem þangað kem­ur, og Húsa­vík sem er hvala­skoðun­ar­höfuðborg lands­ins en hef­ur nú hlotið náð fyr­ir aug­um heims­ins á nýj­an og ann­an skemmti­legri hátt – í gegn­um streym­isveit­una Net­flix.

Íslend­ing­ar leggja sitt af mörk­um

Sam­kvæmt um­fjöll­un á ferðavefn­um Túristi.is stóðu Íslend­ing­ar und­ir um sjö af hverj­um tíu gistinótt­um á ís­lensk­um gististöðum í júlí. Til sam­an­b­urðar í fyrra var vægi þetta inn­an við fimmt­ung­ur af heild­inni. Vissu­lega skrif­ast skýr­ing­in á heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru, sam­drátt í ut­an­lands­ferðum lands­manna vegna veirunn­ar og ferðatak­mark­an­ir. En sum­arið end­ur­speglaði jafn­framt vilja hjá lands­mönn­um til að kynn­ast land­inu sínu upp á nýtt og ferðast inn­an­lands. Ísland, landið okk­ar hef­ur eins og marg­ir hafa kynnst á ferðalög­um sín­um í sum­ar, upp á svo margt að bjóða – ótal afþrey­ing­ar­mögu­leika og fal­lega nátt­úru. Hér er líka allt til staðar, fjöl­breytt gistiþjón­usta, nóg af bíla­leigu­bíl­um og flug­vél­ar til að kom­ast lands­hluta á milli á skömm­um tíma.

En þrátt fyr­ir mik­inn sam­drátt í alþjóðaflug­inu er mikið minni sam­drátt­ur í inn­an­lands­flug­inu, en rétt um fjöru­tíu þúsund farþegar fóru um inn­an­lands­flug­velli lands­ins í júlí. Hlut­fal­lega fækkaði farþegum minnst á Eg­ils­stöðum en mest í Reykja­vík og á Ak­ur­eyri og er það vissu­lega um­hugs­un­ar­efni. Hátt verðlag í inn­an­lands­flugi er fyr­ir löngu farið að bitna á lífs­gæðum þeirra sem búa úti á landi. Þetta þekkj­um við. Það er dýrt að fljúga og íbú­ar lands­ins verða að geta sótt sér nauðsyn­lega miðlæga þjón­ustu á veg­um rík­is­ins með greiðari sam­göng­um. Nauðsyn­legt er því að koma til móts við hátt verðlag á inn­an­lands­flugi og hef ég lengi, bæði sem þingmaður og formaður starfs­hóps um upp­bygg­ingu flug­valla­kerf­is­ins og efl­ingu inn­lands­flugs­ins, talað fyr­ir inn­leiðingu á skosku leiðinni svo­kölluðu sem veit­ir íbú­um með lög­heim­ili á ákveðnum lands­svæðum rétt til af­slátt­ar á flug­far­gjöld­um.

Skoska leiðin tek­ur flugið

Hin skoska leið fel­ur í sér heim­ild fyr­ir rík­is­sjóð til að niður­greiða far­gjöld íbúa og nem­enda af lands­byggðinni til að jafna aðgengi þeirra að þjón­ustu sem ekki er í boði í heima­byggð. Niður­greiðslan sam­kvæmt skosku leiðinni nær aðeins til ein­stak­linga sem búa á viðkom­andi svæði, ekki til fyr­ir­tækja eða ein­stak­linga sem vilja sækja svæðið heim sem ferðamenn.

Sam­kvæmt nýrri flug­stefnu fyr­ir Ísland er niður­greiðsla á flugi íbúa á lands­byggðinni til höfuðborg­ar­inn­ar orðin að veru­leika og hóf skoska leiðin form­lega göngu sína í þess­ari viku en síðustu mánuði þessa árs munu íbú­ar lands­byggðar­inn­ar, sem búa í meira en 275 kíló­metra fjar­lægð frá höfuðborg­inni, fá end­ur­greidd­an hluta far­gjalds af ferð til og frá Reykja­vík eða af tveim­ur flug­leggj­um á þessu ári en af sex flug­leggj­um á því næsta. Verk­efnið er hluti af stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að gera inn­an­lands­flugið að hag­kvæm­ari kosti fyr­ir íbúa lands­byggðanna og að áfram þurfi að byggja upp al­menn­ings­sam­göng­ur um land allt. Flug til Eyja hef­ur hingað til verið rekið á markaðsfor­send­um og fór Flug­fé­lagið Ern­ir sína síðustu áætl­un­ar­ferð, í bili að minnsta kosti, til Vest­manna­eyja þann 4. sept­em­ber sl. Nú gæti hins veg­ar orðið breyt­ing á þegar niður­greiðslur rík­is­ins í inn­an­lands­flugi kom­ast í gagnið en 200 millj­ón­ir króna eru eyrna­merkt­ar í verk­efnið á þessu ári og um 600 millj­ón­ir króna eru áætlaðar á því næsta.

Meg­in­mark­miðið er ljóst

Meg­in­mark­miðið er ljóst að mínu mati, þ.e. að jafna tæki­færi allra lands­manna til at­vinnu og þjón­ustu, jafna lífs­kjör og stuðla að sjálf­bærri þróun byggðarlaga um land allt. Ísland er og verður í far­ar­broddi með lausn­ir fyr­ir nú­tímainnviði, verðmæta­sköp­un, jöfn lífs­gæði og bætt lífs­kjör lands­manna. Þessu meg­um við ekki gleyma þrátt fyr­ir að efna­hag­ur okk­ar og at­vinnu­líf standi frammi fyr­ir erfiðum tím­um, því verður að hafa hug­fast að þeir eru tíma­bundn­ir, ekki var­an­leg­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. september 2020.