80 milljarðar í atvinnuleysis- og hlutabætur á þessu ári

Einn umfangsmesti liður í efnahagsaðgerðum íslenskra stjórnvalda á þessu ári eru atvinnuleysisbætur og hlutabætur, og áætlar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að upphæðin nemi um 80 milljörðum króna á þessu ári. Þetta sagði hann í Kastljósþætti gærkvöldsins á RÚV.

Bjarni sagði þar að staða ríkisfjármálana sé góð eftir árangur hagstjórnar síðustu ára. „Við höfum svigrúm til að taka þetta högg á okkur sem hallarekstur,“ sagði Bjarni en ætla má að halli á ríkissjóði á árinu verði hátt í 300 milljarðar króna eins og kom fram í grein Bjarna í Morgunblaðinu í dag.

Þrengingum ekki mætt með skattahækkunum og flötum niðurskurði

Hann sagði að ríkissjóði verði leyft að fara í halla núna um sinn og með því verði komist hjá flötum niðurskurði og skertri þjónustu. Það sé því önnur staða sem horfi við Íslendingum nú en eftir fjármálahrunið 2008 sem var mætt með flötum niðurskurði og skattahækkunum. „Við erum hvorki að fara í skattahækkanir né niðurskurð,“ sagði Bjarni en áréttaði þó að það þurfi að fá meira fyrir hverja krónu hjá hinu opinbera.

Spurður út í hertar aðgerðir á landamærum sagði Bjarni að erfitt væri að spá langt fram í tímann á tímum veirufaraldursins. Það sjáist m.a. í spám Seðlabanka Íslands frá því í vor þar sem því var spáð að einkaneysla á öðrum ársfjórðungi myndi hrynja um allt að 20 prósent en þeir hagvísar sem liggja nú fyrir benda til þess að samdrátturinn hafi verið undir tíu prósentum. Sagði Bjarni því líta svo á að ákvörðunin um hertar aðgerðir á landamærum séu ekki teknar marga mánuði fram í tímann, mikilvægt sé þó að hlutirnir séu í lagi innanlands.

„Þegar hagkerfið hefur tekið við sér þarf að vinda ofan af stuðningi og koma ríkissjóði aftur í þá stöðu að geta tekist á við þrengingar. Gleymum því ekki að við þurftum að skapa forsendur fyrir því að geta tekist á við þetta áfall með þeirri stefnu sem nú er rekin,“ skrifar Bjarni í Morgunblaðið í dag. „Góður árangur síðustu ára, markviss skuldalækkun og ábyrg stjórn ríkisfjármálanna er einmitt forsenda þess að við höfum getað spyrnt kröftuglega á móti efnahagslegum áhrifum faraldursins.“