Þetta veltur á okkur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfasdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Um miðjan mars, skömmu eft­ir að Covid-19 varð sá heims­far­ald­ur sem ótt­ast hafði verið, birti Im­per­ial Col­l­e­ge í London fræga skýrslu um mögu­leg viðbrögð við þess­ari miklu vá. Eitt línu­rit í skýrsl­unni vakti sér­staka at­hygli. Það sýndi sveigj­an­lega nálg­un þar sem skipst yrði á að herða og slaka á regl­um um sam­komu­bann eft­ir því sem far­ald­ur­inn ým­ist rénaði eða færðist í auk­ana.

Er „sag­ar­blaðs“-sviðsmynd­in að ræt­ast?

Þetta fræga línu­rit Im­per­ial Col­l­e­ge sýndi ekki kúrfu sem búið væri að fletja. Það sýndi kúrfu sem fór sí­end­ur­tekið upp og niður. Þótt það sé kannski kulda­leg sam­lík­ing má segja að hún hafi litið út eins og sag­ar­blað.

Í dag, fimm mánuðum síðar, virðist þessi sviðsmynd mögu­lega vera að ræt­ast, meira að segja á ná­kvæm­lega þeim tíma sem línu­ritið spáði fyr­ir um. Margt bend­ir til að við séum þessa dag­ana að upp­lifa fyrstu „tönn­ina“ á sag­ar­blaðinu. Við vit­um ekki hversu marg­ar þær verða né hversu langt verður á milli þeirra. Auðvitað von­um við öll að þetta bak­slag end­ur­taki sig ekki og kúrf­an fletj­ist út. Í því skipt­ir mestu að við, hvert og eitt okk­ar, gæt­um að sótt­vörn­um í dag­legu lífi. En eng­in trygg­ing er fyr­ir ár­angri og ýmis rök benda til þess að bak­slagið nú sé ekki það síðasta.

Reyn­ir á þraut­seigju og þol­in­mæði

Bak­slag reyn­ir jafn­vel enn meira á þraut­seigju okk­ar og þol­in­mæði en þær hörðu aðgerðir sem gripið var til að kveða fyrstu bylgj­una niður. Sam­heldn­in sem ríkti á mestu ög­ur­stund­um í bar­átt­unni og gleðin yfir sam­eig­in­leg­um ár­angri vík­ur fyr­ir von­brigðunum með bak­slagið. Við sjá­um í sam­fé­lag­inu að þetta veld­ur van­líðan, óþoli og leit að söku­dólg­um.

Þetta er skilj­an­legt og þarf ekki að koma á óvart. En það þarf ekki held­ur að koma á óvart að þetta bak­slag skyldi koma. Það hef­ur all­an tím­ann verið talað á þeim nót­um að það væri lík­legt. Það hef­ur verið sagt al­veg skýrt að við gæt­um þurft að læra að „lifa með veirunni“ í tölu­vert lang­an tíma. Við þurf­um að setja okk­ur and­lega í þann gír. Öðru­vísi kom­umst við ekki með góðu móti í gegn­um þetta tíma­bil.

Hag­fræðing­ar ger­ast sér­fræðing­ar í sótt­vörn­um

Tveir hag­fræðing­ar, Þórólf­ur Matth­ías­son og Gylfi Zoëga, hafa ný­lega kvatt sér hljóðs og lýst þeirri skoðun að til­slak­an­ir á landa­mær­un­um hafi verið mis­ráðnar og gefa í skyn að fjölg­un smita núna und­an­farið sé af­leiðing þeirra ákv­arðana. Það á ekki við rök að styðjast.

Hag­fræðing­un­um ætti að vera í fersku minni hvað Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir sagði um er­lenda ferðamenn við upp­haf far­ald­urs­ins. Hann sagði að þeim fylgdi frem­ur lít­il áhætta. Enda var þeim fram­an af hleypt óhindrað inn í landið á sama tíma og Íslend­ing­ar á heim­leið þurftu að fara í sótt­kví. Ástæðan fyr­ir þess­um mis­mun­andi kröf­um var ein­fald­lega sú að sam­kvæmt sótt­varna­fræðunum fylg­ir tölu­verð áhætta fólki sem býr hér, á meðan frem­ur lít­il áhætta fylg­ir er­lend­um ferðamönn­um.

Þegar þetta er skrifað hafa á landa­mær­un­um ekki greinst nema 32 virk smit í meira en 75 þúsund sýn­um. Inni í þeirri tölu eru Íslend­ing­ar (og fólk bú­sett á Íslandi) á heim­leið. Eng­inn sem fylgst hef­ur með upp­lýs­inga­fund­um þríeyk­is­ins – ekki síst í gær föstu­dag – þarf að velkj­ast í vafa um hvað þau telja að ráði úr­slit­um í bar­átt­unni við far­ald­ur­inn: það er okk­ar eig­in hegðun.

Stjórn­mála­maður ger­ist hag­fræðing­ur

Fram und­an er þung­ur vet­ur í efna­hags­legu til­liti, bæði fyr­ir landið í heild og marga ein­stak­linga. Rík­is­sjóður held­ur land­inu að miklu leyti uppi en get­ur það ekki enda­laust. Upp­sagn­ar­frest­ir eru að renna út og tíma­bundn­ar upp­sagn­ir munu því miður marg­ar breyt­ast í var­an­leg­ar. Marg­ir munu ekki leng­ur geta leyft sér þá neyslu sem þeir ákváðu að leyfa sér í sum­ar þrátt fyr­ir óvissu um af­komu sína til þess að fá nú ein­hverja gleði út úr þessu erfiða ástandi.

Í þess­ari stöðu kem­ur á óvart að Gylfi Zoëga skuli í grein sinni í Vís­bend­ingu leggja áherslu á að við þurf­um ekki er­lenda ferðamenn því að staða efna­hags­mála sé fram­ar von­um og þannig hafi t.d. merki­lega marg­ir keypt gist­ingu á lands­byggðinni í sum­ar. Þetta slær mig svo­lítið eins og að fagna góðu stuði í gleðskap á miðnætti án þess að hugsa út í haus­verk­inn að morgni. Ég þekki ekki marga sem ætla að fara hring­inn í októ­ber.

„Stjórn­mála­maður ger­ist hag­fræðing­ur“ gæti nú ein­hver sagt. Já, ég leyfi mér að hafa áhyggj­ur af stöðu rík­is­sjóðs, efna­hags­lífs­ins, fyr­ir­tækja og ein­stak­linga. Ég leyfi mér líka að benda á að þótt það sé rétt hjá Gylfa að at­vinnu­leys­is­bæt­ur örvi eft­ir­spurn þá er það ekki sjálf­bært.

Við þurf­um núna á öllu okk­ar að halda. Öllum þeim tekj­um sem við get­um aflað með ábyrg­um hætti. Allri okk­ar sér­fræðiþekk­ingu á sótt­vörn­um. Öllu því aðhaldi sem við get­um beitt í rík­is­fjár­mál­um, sér­stak­lega með ný­sköp­un í rík­is­rekstri og snjöll­um lausn­um, ásamt því að örva efna­hags­lífið eins og kost­ur er. Allri okk­ar ár­vekni gagn­vart vá­gest­in­um. Og allri okk­ar þraut­seigju, þol­in­mæði og sam­taka­mætti.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. ágúst 2020.