Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfasdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Um miðjan mars, skömmu eftir að Covid-19 varð sá heimsfaraldur sem óttast hafði verið, birti Imperial College í London fræga skýrslu um möguleg viðbrögð við þessari miklu vá. Eitt línurit í skýrslunni vakti sérstaka athygli. Það sýndi sveigjanlega nálgun þar sem skipst yrði á að herða og slaka á reglum um samkomubann eftir því sem faraldurinn ýmist rénaði eða færðist í aukana.
Er „sagarblaðs“-sviðsmyndin að rætast?
Þetta fræga línurit Imperial College sýndi ekki kúrfu sem búið væri að fletja. Það sýndi kúrfu sem fór síendurtekið upp og niður. Þótt það sé kannski kuldaleg samlíking má segja að hún hafi litið út eins og sagarblað.
Í dag, fimm mánuðum síðar, virðist þessi sviðsmynd mögulega vera að rætast, meira að segja á nákvæmlega þeim tíma sem línuritið spáði fyrir um. Margt bendir til að við séum þessa dagana að upplifa fyrstu „tönnina“ á sagarblaðinu. Við vitum ekki hversu margar þær verða né hversu langt verður á milli þeirra. Auðvitað vonum við öll að þetta bakslag endurtaki sig ekki og kúrfan fletjist út. Í því skiptir mestu að við, hvert og eitt okkar, gætum að sóttvörnum í daglegu lífi. En engin trygging er fyrir árangri og ýmis rök benda til þess að bakslagið nú sé ekki það síðasta.
Reynir á þrautseigju og þolinmæði
Bakslag reynir jafnvel enn meira á þrautseigju okkar og þolinmæði en þær hörðu aðgerðir sem gripið var til að kveða fyrstu bylgjuna niður. Samheldnin sem ríkti á mestu ögurstundum í baráttunni og gleðin yfir sameiginlegum árangri víkur fyrir vonbrigðunum með bakslagið. Við sjáum í samfélaginu að þetta veldur vanlíðan, óþoli og leit að sökudólgum.
Þetta er skiljanlegt og þarf ekki að koma á óvart. En það þarf ekki heldur að koma á óvart að þetta bakslag skyldi koma. Það hefur allan tímann verið talað á þeim nótum að það væri líklegt. Það hefur verið sagt alveg skýrt að við gætum þurft að læra að „lifa með veirunni“ í töluvert langan tíma. Við þurfum að setja okkur andlega í þann gír. Öðruvísi komumst við ekki með góðu móti í gegnum þetta tímabil.
Hagfræðingar gerast sérfræðingar í sóttvörnum
Tveir hagfræðingar, Þórólfur Matthíasson og Gylfi Zoëga, hafa nýlega kvatt sér hljóðs og lýst þeirri skoðun að tilslakanir á landamærunum hafi verið misráðnar og gefa í skyn að fjölgun smita núna undanfarið sé afleiðing þeirra ákvarðana. Það á ekki við rök að styðjast.
Hagfræðingunum ætti að vera í fersku minni hvað Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði um erlenda ferðamenn við upphaf faraldursins. Hann sagði að þeim fylgdi fremur lítil áhætta. Enda var þeim framan af hleypt óhindrað inn í landið á sama tíma og Íslendingar á heimleið þurftu að fara í sóttkví. Ástæðan fyrir þessum mismunandi kröfum var einfaldlega sú að samkvæmt sóttvarnafræðunum fylgir töluverð áhætta fólki sem býr hér, á meðan fremur lítil áhætta fylgir erlendum ferðamönnum.
Þegar þetta er skrifað hafa á landamærunum ekki greinst nema 32 virk smit í meira en 75 þúsund sýnum. Inni í þeirri tölu eru Íslendingar (og fólk búsett á Íslandi) á heimleið. Enginn sem fylgst hefur með upplýsingafundum þríeykisins – ekki síst í gær föstudag – þarf að velkjast í vafa um hvað þau telja að ráði úrslitum í baráttunni við faraldurinn: það er okkar eigin hegðun.
Stjórnmálamaður gerist hagfræðingur
Fram undan er þungur vetur í efnahagslegu tilliti, bæði fyrir landið í heild og marga einstaklinga. Ríkissjóður heldur landinu að miklu leyti uppi en getur það ekki endalaust. Uppsagnarfrestir eru að renna út og tímabundnar uppsagnir munu því miður margar breytast í varanlegar. Margir munu ekki lengur geta leyft sér þá neyslu sem þeir ákváðu að leyfa sér í sumar þrátt fyrir óvissu um afkomu sína til þess að fá nú einhverja gleði út úr þessu erfiða ástandi.
Í þessari stöðu kemur á óvart að Gylfi Zoëga skuli í grein sinni í Vísbendingu leggja áherslu á að við þurfum ekki erlenda ferðamenn því að staða efnahagsmála sé framar vonum og þannig hafi t.d. merkilega margir keypt gistingu á landsbyggðinni í sumar. Þetta slær mig svolítið eins og að fagna góðu stuði í gleðskap á miðnætti án þess að hugsa út í hausverkinn að morgni. Ég þekki ekki marga sem ætla að fara hringinn í október.
„Stjórnmálamaður gerist hagfræðingur“ gæti nú einhver sagt. Já, ég leyfi mér að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs, efnahagslífsins, fyrirtækja og einstaklinga. Ég leyfi mér líka að benda á að þótt það sé rétt hjá Gylfa að atvinnuleysisbætur örvi eftirspurn þá er það ekki sjálfbært.
Við þurfum núna á öllu okkar að halda. Öllum þeim tekjum sem við getum aflað með ábyrgum hætti. Allri okkar sérfræðiþekkingu á sóttvörnum. Öllu því aðhaldi sem við getum beitt í ríkisfjármálum, sérstaklega með nýsköpun í ríkisrekstri og snjöllum lausnum, ásamt því að örva efnahagslífið eins og kostur er. Allri okkar árvekni gagnvart vágestinum. Og allri okkar þrautseigju, þolinmæði og samtakamætti.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. ágúst 2020.