Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Rio Tinto tilkynnti í vikunni að fyrirtækið hefði kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna þess sem það telur vera misnotkun á markaðsráðandi stöðu af hálfu Landsvirkjunar. Jafnframt segir Rio Tinto að láti Landsvirkjun ekki af þeirri háttsemi verði fyrirtækið að íhuga að segja upp orkusamningnum við Landsvirkjun. Með því er gefið í skyn að álveri fyrirtækisins, ISAL, kunni að verða lokað eftir rúmlega 50 ára starfsemi hér á landi.
Samkeppniseftirlitið mun fara yfir sjónarmið Rio Tinto hvað varðar samkeppnislöggjöfina. Yfirlýsing Rio Tinto um mögulega uppsögn orkusamningsins er hins vegar ekki síður alvarleg. Yfirlýsingin framkallar að sjálfsögðu óvissu um lífsviðurværi hundruð starfsmanna ISAL og einnig starfsmanna þeirra mörgu fyrirtækja sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á viðskiptum og þjónustu við álverið. Hún kallar líka á vangaveltur um áhrifin á Landsvirkjun, sem er í eigu þjóðarinnar í gegnum ríkið, og á Hafnarfjörð og íslenskt efnahagslíf almennt.
Mikilvægi ISAL
ISAL er mikilvægt fyrirtæki í mörgu tilliti. Ætla má að nettó gjaldeyristekjur af starfsemi þess – þ.e.a.s. sá hluti af sölutekjum ISAL sem rennur til innlendra aðila – nemi um það bil 25 milljörðum króna á ári. ISAL notar eitthvað í námunda við 16% af öllu rafmagni sem notað í er í landinu. Þá hefur fyrirtækið verið brautryðjandi á ýmsum sviðum á undanförnum áratugum, ekki síst í öryggismálum og starfsmenntamálum. Risafjárfesting þess í Straumsvík fyrir nokkrum árum, sem nam um 50-60 milljörðum króna til breytinga á steypuskála og kerskálum, kom á góðum tíma fyrir Ísland í kjölfar bankahrunsins og hafði töluverða þýðingu fyrir efnahagslíf okkar.
Ákvörðun Rio Tinto um fjárfestinguna sýnir þá trú sem fyrirtækið hafði á starfsskilyrðum á Íslandi. Á sama tíma gerði Rio Tinto nýjan langtíma-orkusamning við Landsvirkjun sem gildir frá árinu 2010 til ársins 2036.
Skuggi óvissu og skuggi leyndar
Sem fyrr segir varpar Rio Tinto með yfirlýsingu sinni skugga óvissu yfir atvinnu hundruð starfsmanna og mikilvægar framtíðartekjur Landsvirkjunar, sem er í eigu allrar þjóðarinnar. Í mínum huga orkar tvímælis að varpa slíkum skugga óvissu án þess að varpa á sama tíma ljósi á uppsagnarákvæði orkusamningsins. Fyrirtækið kýs að gera mögulega uppsögn að umtalsefni. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir að fyrirtækið upplýsi hvaða skilyrði gilda um slíka uppsögn.
Ég hef þegar lýst þessari skoðun opinberlega í vikunni. Svör Rio Tinto eru á þá leið að fyrirtækið vilji ekki opna orkusamninginn nema önnur stóriðjufyrirtæki geri það líka. En önnur stóriðjufyrirtæki hafa ekki talað um að segja upp sínum orkusamningum. Vissulega væri almennt æskilegt að betri upplýsingar lægju fyrir um alla stóriðjusamninga. En það er önnur og stærri umræða. Í þessu tilviki er málið þrengra og snýr að uppsagnarákvæðum eina samningsins sem talað er um að segja upp. Það er eðlileg krafa að sá sem setur þá umræðu á dagskrá – umræðu sem felur í sér risahagsmuni fyrir hundruð einstaklinga og raunar þjóðina alla – leggi öll spilin á borðið.
Brotthvarf Rio Tinto úr álframleiðslu utan Kanada
Það er viðbúið að þetta kalli líka á umræðu um alþjóðlega samkeppnishæfni stórnotenda á íslandi. Nýr langtíma-orkusamningur sem Rio Tinto gerði árið 2010, til 26 ára, var að sjálfsögðu til marks um trú fyrirtækisins á Íslandi. Ákvörðun Norsk Hydro um að kaupa ISAL fyrir um tveimur árum endurspeglar líka trú á starfsskilyrðunum á Íslandi, þó að kaupin hafi ekki gengið eftir af öðrum ástæðum.
Það er líka nauðsynlegt að horfa á heildarsamhengi hlutanna. Rio Tinto hefur frá árinu 2008 selt eða lokað öllum álverum sínum í Evrópu nema ISAL, alls sjö talsins. Af þessum sjö álverum voru/eru eitt í Noregi, þrjú í Bretlandi og þrjú í Frakklandi, sjálfri vöggu evrópsks áliðnaðar. Til viðbótar hefur Rio Tinto lokað, selt, reynt að selja eða tilkynnt um lokun á fimm álverum til viðbótar; í stórum dráttum öllum álverum sínum nema í Kanada. Í Kanada fer fyrirtækið sjálft með umfangsmikil vatnsréttindi og framleiðir því að miklu leyti sína eigin raforku, sem þýðir að orkan sem álver Rio Tinto fá í Kanada er ein sú ódýrasta sem þekkist í álheiminum.
Samkeppnishæfni og arðsemi
Ástæða er til að ætla að umhverfisvænar orkulindir Íslands verði áfram eftirsóttar. Við viljum bjóða upp á samkeppnishæft umhverfi en við gerum að sjálfsögðu líka kröfu um að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær. Við erum nýbúin að ganga í gegnum langvinna umræðu um þriðja orkupakkann sem snerist að miklu leyti um nauðsyn þess að standa vörð um sameiginlegar orkuauðlindir okkar. Af þeirri umræðu hlýtur að leiða að talað sé gegn því að við setjum þær á útsölu.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 26. júlí 2020.