Upp úr skotgröfunum?

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Tillögur um breytingar á II. kafla stjórnarskrárinnar hafa nú um nokkurt skeið legið frammi á samráðsgátt stjórnvalda. Þarna er um að ræða breytingar sem varða handhafa framkvæmdavaldsins; forseta, ríkisstjórn og tengd efni.

Umsagnarfrestur rann út í gær en þess má vænta að talsverð umfjöllun eigi eftir að eiga sér stað um innihald tillagnanna áður en þær verða lagðar fram á Alþingi. Full ástæða er til málefnalegrar umræðu um þessi ákvæði, jafnt þau sem fela í sér raunverulegar breytingar og þau sem gera ráð fyrir óbreyttri skipan. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að breytingar á forsetakaflanum eigi fyrst og fremst að færa orðalag og framsetningu ákvæða til samræmis við framkvæmdina á lýðveldistímanum. Þannig finnst mér ástæðulaust að gera ráð fyrir formlegri aðkomu forseta að ákvörðunum, sem alfarið eru í höndum ráðherra og á þeirra ábyrgð. Að þessu leyti hefðu tillögurnar í samráðsgáttinni mátt ganga lengra. Eins tel ég þörf á að fjalla nánar um nýjar tillögur um stjórnarmyndun og þingrof, sem ég efast um að séu til bóta. Loks verð ég að geta þess að ég hef ekki enn séð rökin fyrir þeim breytingum, sem varða lengd og fjölda kjörtímabila forseta.

Ég hef hér nefnt nokkur atriði í frumvarpsdrögunum, sem tilefni er til að rökræða frekar. Færa má ágæt rök fyrir mismunandi sjónarmiðum um hlutverk forsetaembættisins og valdmörk þess gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Skoðanaskipti um þessi mál eru mikilvæg og ekkert að því að ólík sjónarmið komi fram. Mestu skiptir hins vegar að sem víðtækust sátt náist um útkomuna og að breytingar – verði þær gerðar – skili skýrum og ótvíræðum niðurstöðum.

Hvað sem öðru líður er hér kjörið tækifæri til efnislegrar umfjöllunar um innihald stjórnarskrárinnar. Vonandi munu sem flestir fræðimenn, stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um stjórnskipunarmál leggja sitt af mörkum. Það væri kærkomin tilbreyting frá þeim skotgrafahernaði og stagli, sem einkennt hefur stjórnarskrárumræðuna, frá því að umdeildar tillögur stjórnlagaráðs sigldu í strand veturinn 2012 til 2013.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. júlí 2020.