Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Sá sem leggur fyrir sig stjórnmál þarf að sækjast eftir trausti fólksins. Bjarni Benediktsson (1908-1970), forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var sannfærður um að aðeins ein leið væri fær; að vinna til traustsins: „Fólkinu verður ekki sagt að treysta neinum. Það verður sjálft að finna, hvort maðurinn er trausts verður. Með góðri grein eða góðri ræðu er hægt að vekja hrifningu í bili, ná svo og svo miklum völdum og vegtyllum. En traustið öðlast maður aldrei, nema hann vinni fyrir því.“
Í ritdeilu við Árna Jónsson frá Múla árið 1942 bendir Bjarni á að stjórnmálin séu ekki arðsöm fyrir þann sem er heiðarlegur. Ekki þurfi mikið sjálfstraust „til að hafa trú á, að maður geti útvegað sér arðsamari atvinnu“. En sá geri hins vegar „lítið gagn í stjórnmálum, sem eigi fengist við þau af einhverri innri þörf. Vegna þess, að hann þættist hafa komið auga á einhver slík sannindi, að hann væri minni maður, ef hann legði sig ekki allan fram til að berjast fyrir þeim“.
Þegar þessi orð voru sett á blað var Bjarni aðeins 34 ára gamall en hafði verið borgarstjóri í tvö ár. Sannfæring hans um eðli stjórnmálanna og skyldur stjórnmálamanna breyttist aldrei heldur styrktist eftir því sem árin liðu. Halda má því fram að allt hans mikla starf hafi mótast af því sem hann sagði í áramótaávarpi í Ríkisútvarpinu 1968, þá sem forsætisráðherra, að engin skömm sé „að því að falla vegna þess, að maður fylgir sannfæringu sinni“ en lítilmótlegt sé, „að játast undir það, sem sannfæring, byggð á bestu fáanlegri þekkingu, segir, að sé rangt“.
Einkenni frjálshuga manns
Síðastliðinn föstudag var þess minnst að 50 ár voru liðin frá því að Bjarni Benediktsson, kona hans Sigríður Björnsdóttir og Benedikt Vilmundarson, fjögurra ára dóttursonur þeirra, létust í eldsvoða á Þingvöllum. Hér verður ekki fjallað um harmleikinn, áhrif hans eða hvaða áhrif hann hafði á þróun íslenskra stjórnmála.
Bjarni var aðeins 62 ára gamall en átti að baki áratuga farsælan feril sem einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins. Aðeins 24 ára varð hann prófessor í lögum við Háskóla Íslands og 32 ára borgarstjóri. Síðar varð hann utanríkisráðherra og lagði hornstein að utanríkisstefnu landsins sem hefur verið fylgt æ síðan. Árið 1948 var Bjarni kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins og formaður árið 1961. Tveimur árum síðar tók hann við embætti forsætisráðherra og sinnti því til dauðadags. Bjarna var trúað fyrir öðrum ráðherraembættum allt frá 1947; dómsmála-, menntamála-, heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra.
Eftir Bjarna liggur fjöldi greina og rita, ekki síst um lögfræðileg efni, utanríkis- og varnarmál og stjórnmál. Rauði þráðurinn í hugmyndafræði hans var trúin á frelsi einstaklingsins og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Alþjóðleg samvinna við frjálsar þjóðir með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin, á viðsjárverðum tímum, var í huga Bjarna mikilvæg forsenda þess að hægt væri að verja fullveldi fámennrar þjóðar.
Sannfæring Bjarna um mikilvægi sjálfstæðis og frelsis kemur ágætlega fram í ræðu sem hann hélt á samkomu Íslensk-ameríska félagsins á þjóðarhátíðardegi Bandaríkjanna 1955:
„Einkenni hins frjálshuga manns er umfram allt það, að unna öðrum frelsis ekki síður en sjálfum sér. Þetta er auðvelt í orði en erfiðara í framkvæmd. En einmitt þess vegna eru það fremstu þjóðir heims, sem eru frjálsastar. Þær gera mestu kröfurnar til sjálfra sín og þegna sinna.
Þeir, sem unna frelsinu, verða að muna, að formlegt frelsi er ekki nóg. Þeim ber að hjálpast að til að gera hverjum einum mögulegt að njóta lífsins og frelsisins og leita hamingjunnar eftir eigin vild innan ramma laganna.“
Þegar þessi ræða er lesin fæst góður skilningur á því hvers vegna Bjarni lagði alltaf mikla áherslu á samstarf lýðræðisríkja í varnar- og öryggismálum. Þá var frelsinu ógnað úr austri – nýfengið sjálfstæði var brothætt í átökum við hugmyndafræði alræðishyggjunnar.
Undramáttur frelsisins
Bjarni var sannfærður um „undramátt frelsisins“ og taldi að iðnaður fengi „því aðeins staðist, að hann geti þróast við frjálslega verslunarhætti“ og sama ætti við um landbúnaðinn. Í útvarpserindi á hátíðardegi verslunarmanna 1949 voru skilaboð hans til þeirra sem eru fylgjandi frjálsri verslun skýr og eiga erindi enn í dag. Það verði að varast að „fyrir okkur fari eins og hesti, sem verið hefur í hafti“:
„Eftir að hnappheldan hefur verið af honum leyst heldur hann áfram að hoppa eins og engin breyting hafi á orðið, hann heldur, að hann komist ekki áfram með öðru móti.
Við verðum að gæta þess, að það hugarfar skapist ekki, að ómögulegt sé að vera án haftanna, að allt hljóti um koll að keyra, ef höftin eru leyst eða verulega á þeim linað.“
Bjarni varaði við því sem hann kallaði „hnapphelduhugarfar“ líkt og ríkt hefði á tímum einokunarverslunarinnar, þegar margir voru sannfærðir um nauðsyn þess að „stjórnvöldin hefðu vit fyrir þegnunum“. Valdhafarnir hefðu óttast „þá eins og nú, að allt mundi um koll keyra, ef slakað yrði á þeim höftum, sem sett voru á framkvæmdaþrek einstaklinganna“:
„Reynslan sýndi, að sá ótti var með öllu ástæðulaus.
Íslenska þjóðin sökk ekki í skuldafen, heldur komst einmitt úr algerri örbirgð og allsleysi meðan fullt verslunarfrelsi var, og ætti þó að vera ólíkt hægara fyrir hana að lifa nú af tekjum sínum, sem eru hlutfallslega miklu meiri en þá var.“
Síðar í útvarpserindinu undirstrikar Bjarni að það sé ekki nægjanlegt „að menn í orði kveðnu segist vilja vera lausir við höft og hömlur, ef þeir fást ekki til að skapa þau skilyrði, sem eru nauðsynleg forsenda þess, að þeim verði aflétt“.
Tryggð við trú og menningu
Árið 1949 var íslenskt samfélag í höftum, frjálsræði í viðskiptum var lítið og allt bundið leyfum. Haftakerfið var eitur í beinum sjálfstæðismanna, ekki síst Bjarna, sem vildi láta reyna á „hvers læknisdómur frelsisins má sín um þau mein“ sem hrjá íslenskt þjóðfélag. Fyrstu raunverulegu skrefin í þá átt voru stigin í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokks 1959 til 1971. Þá var traustur grunnur að velsæld íslensks samfélags lagður. Í landsfundarræðu 1965 orðaði Bjarni þetta svo:
„Öll vitum við þó, að við lifum einungis í upphafi tækni- og vísindaaldar. Með því að nota okkur ávexti hennar og tryggja einstaklingunum til þess frelsi og möguleika, þá greiðum við fyrir meiri, örari og öruggari framförum, lífskjarabótum, ef menn vilja svo segja, en nokkur getur nú séð fyrir.“
Bjarni var sannfærður um nauðsyn þess að rjúfa einangrun Íslands, brjóta hlekki hafta og ófrelsis og tryggja opin samskipti við aðrar þjóðir. Um leið ítrekaði hann mikilvægi þess að Íslendingar héldu tryggð við trú og menningu: „En okkur Íslendingum tjáir ekki á sama veg og flestum öðrum að treysta á mannmergðina, heldur á manndáðina. Á Íslandi þarf sjálfstæði allrar þjóðarinnar að eflast af sjálfstæði einstaklinganna.“
Það er hollt og nauðsynlegt fyrir alla að þekkja söguna. Stjórnmálamenn samtímans verða að skynja úr hvaða jarðvegi hugmyndir þeirra og hugsjónir eru sprottnar. Fyrir talsmenn frelsis eru skrif og ræður Bjarna Benediktssonar ómetanlegur hugmyndafræðilegur leiðarvísir. Þótt aðstæður breytist og viðfangsefnin einnig er enn tekist á um grunnatriði stjórnmálanna. Orð Bjarna í áramótagrein í Morgunblaðinu árið 1965 eiga því jafnvel við í dag og fyrir 55 árum:
„Oft er sagt, og vissulega með réttu, að veðurfar, gróður og fiskigöngur séu ekki að þakka ríkisstjórn. Gamalkunnugt er, að jafnt rignir á réttláta og rangláta. En ríkisstjórnin ræður því, hvernig hún bregst við atburðunum. Treystir hún eingöngu á forsjá sína og bannar þegnunum að bjarga sér eftir því, sem þeirra eigin vit og þroski segir til um? Eða treystir hún fyrst og fremst á frumkvæði, manndóm og dug borgaranna og telur skyldu sína að greiða fyrir framkvæmdum þeirra, en leggur ekki á þær hömlur og hindranir?“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2020.