Virðing og traust

Brynjar Níelsson alþingismaður:

Virðing Alþingis og traust til stjórnmálamanna er reglulega til umræðu. Ef marka má kannanir virðist sem Alþingi og þingmenn njóti takmarkaðar virðingar hjá almenningi og traustið sé lítið sem ekkert. Sitt sýnist hverjum um ástæður þess. Á þinginu starfa nokkrar veikburða stjórnmálahreyfingar sem telja sig hafa fengið köllun, sennilega að handan, í það starf að auka virðingu þess. Hafa þessir útvöldu stjórnmálamenn beitt þeirri aðferð sem stundum er kölluð öfug sálfræði, sem felst í því að vera illa til hafður í alla staði og hafa stór orð um óheiðarleika og mannvonsku andstæðinga þeirra, sem geri lítið annað en að misfara með vald sitt. Efast má um að þessi málflutningur auki virðingu þingsins. Þá þykir mörgum ólíklegt að þessi daglega drusluganga í þingsal auki virðingu þingsins. Eins og alltaf þegar stjórnmálamenn eru ráðalausir er settur á laggirnar stýrihópur til að koma með tillögur til úrbóta. Nú bíðum við öll spennt eftir niðurstöðu hans um hvað þurfi að gera til að auka virðingu þingsins og traust til stjórnmálamanna.

Ástæðulaust er að ætla annað en að stjórnmálamönnum sé almennt umhugað um hag þjóðarinnar. Stærsta hagsmunamál þjóðarinnar er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem er forsenda velferðar í samfélaginu. Pólitísku átökin eiga að vera um það hvernig við náum þessum markmiðum. Þá getur skipt máli hvert hlutverk ríkisins á að vera, ekki síst í atvinnulífinu. Er farsælt að ríkið standi í samkeppnisrekstri eða hafi einokun á einhverjum sviðum? Hversu miklu máli skiptir frelsi einstaklingsins til orða og athafna, ef einhverju? Kannski er mikilvægast að spyrja að því, hvernig við gerum atvinnulífið samkeppnishæft. Hvernig á að haga rekstri ríkissjóðs og hversu mikið á ríkið að taka til sín af verðmætasköpun atvinnulífsins? Eigum við að ganga í ESB eða jafnvel segja EES-samningnum upp og hvernig á alþjóðasamstarf okkar að vera? Fleiri álitamál mætti nefna sem geta skipt miklu um hagsmuni og velferð þjóðarinnar.

Hafi fólk fylgst með þingstörfum og stjórnmálum undanfarinn áratug eða svo, er það litlu eða engu nær um skoðanir margra stjórnmálamanna á framangreindum álitaefnum. Í stað þess að takast á um hugmyndir og framtíðarsýn er stöðugt sáð tortryggni og alið á öfund og neikvæðni. Er það sérstaklega áberandi gagnvart einkaframtakinu í atvinnulífinu sem sagt er vera gegnsýrt af óheiðarleika og yfirgengilegri græðgi. Embættismenn og aðrir ríkisstarfsmenn fá einnig sinn skerf af ámóta fullyrðingum og mætti  ætla af umræðunni  að þessu fólki hefði flestu verið falið að vinna gegn almenningi. Þess á milli er skvett framan í þjóðina ábyrgðarlausum yfirboðum með tilheyrandi sýndarmennsku. Enginn skortur er heldur á gylliboðum og loforðum í hverjum kosningum, sem vitað er að ekki er hægt að standa við. Stjórnmálamenn eru einhvern veginn svífandi um í lausu lofti og tala gjarnan í innihaldslausum frösum. Algengir frasar sumra þeirra snúast um að andstæðingar þeirra séu í sérhagsmunagæslu og skorti alla manngæsku meðan þau sjálf berjist fyrir almannahag, uppfull af manngæsku, sem sumum kann þó örugglega að finnast kæfandi í meira lagi. Stundum er reynt að telja þjóðinni trú um að hér séu á ferð frjálslynd umbótaöfl. Hluti þessara stjórnmálamanna lítur svo á að  aðalstarf þeirra á þinginu sé ekki að setja lög heldur að hafa eftirlit með öðrum þar sem enginn er undanskilinn. Svo eru þau þeim eiginleikum gædd að geta komist að niðurstöðu áður en málin eru tekin til skoðunar, sem er örugglega einstakt á heimsvísu. Og ekki fer mikið fyrir mildi og manngæsku í þeim dómum.

Ætli stjórnmálamenn að auka virðingu Alþingis þurfa þeir að standa með eigin sannfæringu, ef hún er þá til staðar, og sýna staðfestu í stað þess að sveiflast til og frá eftir því hvernig vindar blása á hverjum tíma. Með sýndarmennsku geta stjórnmálamenn fengið nokkur „like“ á samfélagsmiðlum en virðingin og traustið eykst ekki að saman skapi. Þá þurfa stjórnmálamenn að hafa kjark og þor til að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir þegar þess þarf og hætta að hugsa stöðugt um endurkjör í næstu kosningum. Það gæti verið góð byrjun á því að endurvinna traust á stjórnmálum og virðingu almennings. Síðan að reyna að sannfæra aðra, með málefnalegum og kröftugum hætti, um að pólitísk hugmyndafræði og sýn þeirra sé til gagns fyrir land og þjóð. Flest fólk er nefnilega þannig að það ber virðingu fyrir stjórnamálamönnum sem koma heiðarlega og málefnalega fram með skoðanir sínar, þótt þær séu á skjön við þeirra eigin.  Framkoma stjórnmálamanna, meðal annars í klæðaburði og talsmáta, skiptir einnig máli, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Á því sviði gætu nokkrir stjórnmálamenn bætt sig án mikillar fyrirhafnar og verða þeir ekki nefndir á nafn í þessum pistli. Við þurfum engan stýrihóp til að segja okkur þetta.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 9. júlí 2020.