Egill Þór Jónsson og Björn Gíslason borgarfulltrúar:
Reykjavíkurborg fer með um 60% hlut í Sorpu. Atkvæði stjórnarmanna í stjórn Sorpu endurspegla það eignarhlutfall og bera fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórninni því mesta ábyrgð á framkvæmd Gas- og jarðgerðarstöðarinnar (GAJA). Stöðin átti að vera bylting í umhverfismálum og úrvinnslu á sorpi á höfuðborgarsvæðinu þegar ákveðið var að leggjast í þær framkvæmdir. Fáeinum árum síðar eru óvissuþættirnir varðandi GAJA ótalmargir og þeim fjölgar dag frá degi þrátt fyrir að framkvæmdirnar séu á lokametrunum. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar hefur farið langt fram úr áætlunum og er talið að hann verði töluvert meiri.
Eins og segir á heimasíðu Sorpu er hlutverk stöðvarinnar að taka við heimilisúrgangi en þar er ferlinu lýst þannig: „Þegar gas- og jarðgerðarstöðin hefur starfsemi verður allur úrgangur sem safnað er frá heimilum á samlagssvæði SORPU forflokkaður í móttökustöðinni í Gufunesi og lífrænu efnin síðan flutt í GAJA. Lífrænu efnin verða unnin í stöðinni í metangas og jarðvegsbæti, en málmar og önnur ólífræn efni svo sem plast fara til endurnýtingar“.
Stöðin á sem sagt að framleiða moltu og metangas. Enginn samningur um sölu á metangasinu hefur verið undirritaður. Rekstrargrundvöllur fyrir stöðinni er ótryggur þar sem eftirspurn er eftir metangasi er talin lítil sem engin. Ef metanið selst ekki þarf að brenna það. Einnig eru óvissuþættir varðandi moltu sem á að framleiða í stöðinni. Óvíst er hvort moltan muni standast tilskilin gæði vegna þess að ýmis plastefni og spilliefni eru í heimilissorpi sem ekki næst að fjarlægja að fullu. Uppfylli moltan ekki gæðakröfur þarf að urða hana. Reynsla sambærilegrar verksmiðju í Elverum í Noregi er mjög slæm en henni var lokað fimm árum eftir opnun. Tap skattgreiðenda þar á bæ nam x milljörðum króna og eru þeir enn að borga niður skuldir vegna verksmiðjunnar.
Í ljósi þessa vakna ótal spurningar varðandi nýju gas- og jarðgerðarstöðina Sorpu.
Ærandi þögn
Stjórnmálamenn veigra sér við því að svara spurningum um GAJA, en í umfjöllun Stundarinnar (link) kemur fram að ítrekað hefur verið reynt að ná í stjórnarmenn Sorpu og borgarstjóra Reykjavíkur, Dag B. Eggertsson, en án árangurs. Það er svosem gömul saga og ný að ekki náist í borgarstjóra þegar upp koma óþægileg mál. Það vita allir borgarbúar. Hins vegar var framkvæmdastjórinn rekinn en pólitískir fulltrúar stjórnar Sorpu tóku enga ábyrgð.
Áðurnefnd gas- og jarðgerðarstöð í Noregi var frá sama fyrirtæki og hefur yfirumsjón með verkefni Sorpu en það gefur okkur tilefni til að hafa áhyggjur. Flótti borgarstjóra og stjórnar Sorpu vegna málsins ýtir undir þær áhyggjur um að verkefnið sé illa statt og framtíðin sé ekki björt.
Hins vegar vonumst við eftir því að allt gangi vel með GAJA þrátt fyrir mörg viðvörunarljós blikki og spurningum sé ekki svarað.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2020.