Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Í umræðum um ársreikning Reykjavíkurborgar kom fram að skuldir hefðu aukist um 21 milljarð á síðasta ári. Um það er ekki deilt. Borgin hefur bætt á sig meira en milljarði á mánuði öll síðustu ár. Í góðærinu góða.
Meirihlutinn í borginni segir þetta allt hafa farið í góð mál. Þetta eru sem sagt „góðar skuldir“. Borgarfulltrúi meirihlutans sagði það „gott“ að farið hefði verið í 500 milljóna króna braggaverkefni. Hálfur viti fyrir 175 milljónir, sem gera þurfti vegna skipulagsmistaka borgarinnar, væri „frábær“. Endurbætur á Hlemmi sem slógu út allar áætlanir upp á hundruð milljóna sagði borgarfulltrúinn að hefðu „slegið í gegn“. Er nokkur ástæða til að hætta upptalningunni?
Hér mætti hrósa því að borginni tókst að farga 267 milljónum í að mála og standsetja timburhús í Grjótaþorpinu. Þrjú hundruð milljónir hið minnsta eru að fara í Óðinstorg. Fimm hundruð milljónir fóru í múr við Miklubraut. Með sama hætti ætti að hrósa SORPU fyrir stórkostlega framúrkeyrslu og fjárfestingu upp á 6,1 milljarð í gasgerðarstöð. Og þá væri ekki úr vegi að þakka Viðreisn fyrir að ætla nú að setja um tvo milljarða svo flytja megi malbikunarstöðina Höfða hf. úr höfðanum og upp á Esjumela. Það væri í takt við annað. Þessi meirihluti sem hrósar sér af öllum þessum framúrkeyrsluverkefnum vill síðan fara í borgarlínu sem á að kosta 70 milljarða króna. Og engin rekstraráætlun er til fyrir hana frekar en gasgerðarstöðina hjá Sorpu.
Eins og spurt er í Völuspá: Vituð ér enn, eða hvað? Það þarf ekki frekari vitnanna við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2020.