Getum ekki skorast undan

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Börnin fá blóðnasir í tíma og ótíma, þau kasta upp, þau fá mikla höfuðverki, þeim líður illa. Þeim líður illa í skólanum sínum. Ekkert finnst líkamlega að börnunum sama til hvaða lækna er leitað, er mögulega  eitthvað að í skólanum þeirra?  Ekkert hefur fundist að heima hjá þeim, en þegar þessi börn eru ekki í skólanum og dvelja heima í nokkra daga hætta þau að vera veik. Þetta eru sögurnar sem foreldrar barna í Fossvogsskóla hafa verið að segja okkur. Þetta eru einkenni þeirra sem veikjast vegna myglu enda fannst mygla í húsnæði Fossvogsskóla og þrátt fyrir lagfæringar á húsnæðinu eru börnin ennþá að veikjast.

Foreldrar þurftu aðstoð lögfræðings til að fá svör

Foreldrar hafa lengi verið að óska eftir upplýsingum um þær viðgerðir sem voru gerðar á skólanum. Þrátt fyrir að hafa ítrekað sent pósta á kjörna fulltrúa og starfsfólk skóla- og frístundasviðs þá fengu foreldrar ekki svör fyrr en þeir fengu lögfræðing til þess að senda inn erindi og óska eftir svörum. Það er orðið ansi hart þegar foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík þurfa að leita sér lögfræðiaðstoðar til þess að reyna að fá upplýsingar um hvort að það húsnæði sem þau eru skyldug að senda börnin sín í sé heilsuspillandi.

Ekkert á að gera frekar

Svar borgaryfirvalda til foreldra og starfsmanna í Fossvogsskóla er að búið sé að laga þá myglu sem fannst. Þessu er svarað án þess að farið hafi fram nákvæmar mælingar eftir að húsnæðið var lagfært. Það eina sem foreldrar vilja er að sömu mælingar séu gerðar í húsnæðinu líkt og þegar myglan fannst fyrst. Það verður ekki gert og þess í stað er stuðst við mælingar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Þess má geta að það var Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem gerði mælingar í húsnæðinu sem komu ljómandi vel út nokkrum vikum áður en kom í ljós að húsnæðið var það illa farið af myglu að ekki var talið ráðlegt að nýta það undir kennslu. Það er nefnilega ekki sama hvernig mygla er mæld. Af hverju er ekki farið í sömu mælingar eftir viðgerðirnar á skólanum er óskiljanlegt.

Þeir sem eru í meirihluta í Reykjavík geta ekki skorast undan. Það verður að hlusta á foreldrana í Fossvogsskóla. Það er hræðilegt að börn séu veik í húsnæði sem er í eigu borgarinnar og auðvitað eigum við að gera viðeigandi mælingar. Í lögum um grunnskóla segir skv. 5. gr: „Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Síðan segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar um skóla- og frístundaráð: „Gætir þess að leikskólar, grunnskólar, frístunda- og félagsmiðstöðvar og frístundaheimili á vegum borgarinnar búi við fullnægjandi húsnæði og að annar aðbúnaður sé fyrir hendi.

Það er því ljóst hvar ábyrgðin liggur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. maí 2020.