Gagnvirkni í kennslu og þjónustu

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Heimsfaraldurinn covid 19 hefur kallað á margs konar áskoranir og viðbrögð. Fyrirtæki og stofnanir hafa þurft að breyta starfsháttum, starfsaðstæðum og mannlegum samskiptum á örskömmum tíma og á róttækan hátt með það markmið í huga að hámarka framleiðslu og þjónustu við gjörbreyttar aðstæður. Á einungis tveimur mánuðum hafa verið fundnar lausnir til að halda starfseminni gangandi með tilliti til fyrirmæla um sóttvarnir og vegna samkomubannsins.

Mikilvægi snjalltækni

Við þessar óvenjulegu aðstæður hefur snjalltæknin skipt sköpum. Hún hefur gert fjarvinnu, fjarþjónustu, fjarkennslu og fjarfundi mögulega. Við ættum að nýta þá dýrmætu reynsla sem skapast hefur á þessum sviðum og halda áfram að þróa og bæta starfshætti með hjálp tækninnar, hvort heldur í þeirri viðleitni, að bæta þjónustu borgarinnar eða til að efla og auka möguleika menntunar.

Fjarkennsla hefur verið vannýtt auðlind

Það var aðdáunarvert að sjá hvernig kennarar og skólastjórnendur brugðust hratt og vel við  að breyta og þróa fyrirkomulagi náms og kennslu með litlum fyrirvara við þessar aðstæður. Þar sannaði fjarkennslan gildi sitt og kennarar nýttu sér ýmis verkfæri til að halda uppi kennslu og vera í sambandi við nemendur sína, til að mynda með aðstoð google classroom, webex teams og fleiri forrita.

Hingað til hefur fjarkennsla verið vannýtt auðlind á grunnskólastigi þrátt fyrir að fyrsta tilraun var gerð með slíka kennslu á grunnskólaaldri skólaárið 1999-2000 þegar Broddanesskóli á Ströndum fékk fjarkennslu frá grunnskólanum í Hólmavík.

Nýtum tæknina í þágu menntunar

Við eigum að nýta tæknina betur til að efla menntun og kennslu en þar getur fjarkennslan orðið aukakennslustofa og gagnvirk kennslustofa, ekki bara utan skólans heldur auk þess innan hans.  Fjarkennslan  eykur sveigjanleika í námi, styður við einstaklingsmiðað nám þannig að hver og einn getur lært á sínum hraða auk þess sem fjarkennslan gefur aukna möguleika á þverfaglegu námi og kennslu.

Með fjarkennslu og rafrænu námi skapast jafnframt möguleikar á aukinni fjölbreytni í kennslu auk þess sem auknir möguleikar skapast á að stórefla námsgagnagerð. Þá getur fjarkennsla einnig nýst í þeim tilgangi að nýta betur sérhæfða kennara sem geta þá kennt í fleiri en einum skóla auk þess að efla almennt samstarf skóla og miðla þekkingu milli þeirra.

Ennfremur getur  Snjalltæknin  auðveldað og eflt allt skólasamfélagið og nýst vel í þeim tilgangi að efla foreldrasamstarfið með því að nýta fjarfundi í auknu mæli til að stytta boðleiðirnar.

Nýtum sóknarfærin

Allt frá 1996 hefur það verið stefna menntamálaráðuneytisins að leggja áherslu á notkun upplýsingatækni í öllum námsgreinum og frá þeim tíma  hefur verið lögð áhersla á það í öllum námskrám. Þar hefur verið bent á þá staðreynd að í síbreytilegum heimi tækni, upplýsinga og samskipta verði upplýsingalæsi, þ.e. þekking og færni í að flokka, vinna úr og miðla upplýsingum  sífellt mikilvægara.

Fjarnám samræmist vel ýmsum kennslufræðilegum kenningum þ.á.m. hugsmíðahyggju sem er námskenning sem gengur út á að þekkking sé afurð þess hvernig einstaklingur skapar merkingu úr reynslu sinni og lögð áhersla á að námsumhverfið sé opið og sem líkast raunverulegum aðstæðum og lagt upp úr að nemandinn sé virkur í að byggja upp eigin þekkingu.

Í samræmi við aðalnámskrár, kennslufræðilegar hugmyndir um nám og þau sóknarfæri sem nú hafa skapast ættum við að setja kraft í að nýta tæknina betur í námi og þróa enn frekar til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2020.