Varnir, vernd og viðspyrna í öðrum aðgerðarpakka ríkisstjórnar

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. Þetta er hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu í dag í Þjóðmenningarhúsinu vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt greindu þau frá því að framlínufólk í heilbrigðisþjónustu sem búið hefur við aukið álag og mikla smithættu fái álagsgreiðslu.

Lokunarstyrkir og ný lán til minni fyrirtækja

Fram kom að veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem gert var að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 milljónir króna. Þá geta lítil og meðalstór fyrirtæki sótt lán allt að 6 milljónum króna óverðtryggð á 1,75% vöxtum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja leiða geta numið allt að 30 milljörðum króna. Auk þess verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 milljónum króna af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.

Sérstök áhersla á nýsköpun

Fram kom að sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaráætlun ríkisstjórnar. Lögð eru til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019 þá veðra framlögin á árinu 2020 hækkuð.

Auk þess verður sótt fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu.

3.000 tímabundin störf fyrir námsmenn

Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakkanum. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa allt að 3.000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 milljónir kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 milljónum kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum.

Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga.

Auk ofangreinds verður ráðist í ýmsar aðrar aðgerðir sem lesa á um hér á vef Stjórnarráðs Íslands.