Fánýtar kennslubækur
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Kór­ónu­veir­an hef­ur sett heim­inn í efna­hags­lega herkví. Hag­fræðing­ar geta ekki sótt í gaml­ar kennslu­bæk­ur til að teikna upp skyn­sam­leg viðbrögð. Spá­mód­el, jafnt hin flókn­ustu sem ein­föld tím­araðamód­el, ná ekki utan um það sem er að ger­ast. Í stað þess að birta spár um þróun efna­hags­mála leggja hag­fræðing­ar fram „sviðsmynd­ir“ til að reyna að átta sig á stöðunni og hver sé lík­leg þróun.

Efna­hags­leg áhrif kór­ónufar­ald­urs­ins hafa komið hratt en ör­ugg­lega í ljós. Í stað vaxt­ar á þessu ári mun hag­kerfi heims­ins drag­ast sam­an. Fá lönd sleppa und­an áhrif­un­um, allt frá Kína til Banda­ríkj­anna, frá Þýskalandi til Arg­entínu, frá Suður-Kór­eu til Íslands. Sam­drátt­ur­inn kem­ur verst niður á lönd­um sem eiga mikið und­ir opn­um alþjóðleg­um viðskipt­um. Ísland er eitt þeirra.

Bar­átta við veiruna er tvíþætt. Ann­ars veg­ar að verja líf og heilsu al­menn­ings. Sú bar­átta er í for­gangi. Hins veg­ar að verja efna­hag þjóða, fyr­ir­tækja og heim­ila – tryggja efna­hags­lega framtíð.

Áhrifa­rík­asta vopnið í bar­átt­unni við hættu­leg­an vírus, fyr­ir utan al­mennt hrein­læti, er í senn ein­falt, áhrifa­mikið og kostnaðarsamt: Að stöðva eða hægja hressi­lega á hjól­um efna­hags­lífs­ins og tak­marka bein mann­leg sam­skipti.

Höf­um ekki leiðavísi

Vand­inn er sá að við vit­um ekki hversu lengi stríðið mun standa. Við vit­um ekki fyr­ir víst hvenær við get­um snúið til okk­ar dag­lega hefðbundna lífs – hitt vini og kunn­ingja, tekið í hend­ur á góðu fólki og faðmað þá sem okk­ur þykir vænt um. Eng­inn get­ur sagt með vissu hvenær veit­ingastaðir verða opnaðir aft­ur, hvenær rak­ar­inn get­ur tekið skær­in aft­ur fram eða snyrti­fræðing­ur­inn fær að bjóða viðskipta­vini sína aft­ur vel­komna.

Eng­ar kennslu- eða fræðibæk­ur í hag­fræði eða fjár­mála­fræði geyma leiðar­vísi fyr­ir stjórn­völd eða for­ystu­menn í at­vinnu­líf­inu um hvernig best sé að bregðast við aðstæðum, þar sem búið er að „slökkva“ á vél­um viðskipta, af illri nauðsyn. En verk­efnið ligg­ur ljóst fyr­ir. Að koma súr­efni til tekju­lausra/-​lít­illa fyr­ir­tækja til að fleyta þeim í gegn­um erfiða tíma. Hætt­an er sú að fyr­ir­tæki leys­ist hrein­lega upp í súru baði fasts kostnaðar án þess að eiga nokkra raun­veru­lega mögu­leika á að afla tekna.

Aðgerðir ís­lenskra stjórn­valda á síðustu vik­um hafa verið nauðsyn­leg­ar og skapað svig­rúm til frek­ari ráðstaf­ana til að styðja við at­vinnu­lífið – fyr­ir­tæki og heim­ili. Það er skyn­sam­legt að gefa fyr­ir­tækj­um kost á því að fresta greiðslu op­in­berra gjalda fram á kom­andi ár. Að sama skapi skipt­ir það miklu að auka bol­magn banka­kerf­is­ins til nýrra út­lána og að rík­is­sjóðir gang­ist á ábyrgð fyr­ir hluta lána til fyr­ir­tækja. En meira þarf að koma til eins og öll­um má vera ljóst.

Að velta skött­um og gjöld­um á und­an sér í von um betri tíma létt­ir und­ir og hið sama á við um ný lán á hag­stæðum kjör­um. En þetta dug­ar skammt ef fyr­ir­tæki eru tekju­lít­il/-​laus fórn­ar­lömb óvær­unn­ar. Þess vegna hljóta bein­ar greiðslur rík­is­ins til að standa und­ir hluta af föst­um kostnaði fyr­ir­tækja að koma til greina. Við þurf­um að tryggja að sem flest fyr­ir­tæki, ekki síst lít­il og meðal­stór, eigi sér viðreisn­ar von þegar hild­ar­leikn­um lýk­ur.

Hvað höf­um við lært?

Við eig­um eft­ir að læra margt af þeim ham­förum sem ríða yfir ís­lenskt sam­fé­lag. Sumt mun síast hægt og bít­andi inn, annað kall­ar á end­ur­mat, nýja hugs­un og nýja nálg­un.

Um eitt höf­um við fengið full­vissu – hafi ein­hver ef­ast: Það er gæfa Íslend­inga að hafa með sér þjóðarsátt­mála um að tryggja öll­um aðgengi að nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu, óháð efna­hag. Sterkt heil­brigðis­kerfi með öfl­ugu starfs­fólki skipt­ir sköp­um í að verja líf og heilsu. Það er vegna þess sem við vit­um að fyrr frem­ur en síðar mun­um við yf­ir­stíga aðsteðjandi ógn.

Síðustu vik­ur hafa einnig sýnt og sannað hversu mik­il­vægt það er fyr­ir frjálsa þjóð að tryggja mat­væla­ör­yggi. Ísland er mat­væla­fram­leiðslu­land, til sjáv­ar og sveita. Hafi ein­hver ekki áttað sig á mik­il­vægi land­búnaðar áður en ham­far­irn­ar riðu yfir, ætti all­ur efi að hafa gufað upp líkt og dögg fyr­ir sólu. Og þótt ekki blási byrlega á sum­um mörkuðum fyr­ir sjáv­ar­af­urðir í nokkr­ar vik­ur, er aug­ljóst að enn á ný mun sjáv­ar­út­veg­ur­inn skipta þjóðina miklu í nýrri upp­bygg­ingu efna­hags­lífs­ins.

Við höf­um einnig séð hversu mik­il­vægt það er að til séu öfl­ug há­tæknifyr­ir­tæki hér á landi – fyr­ir­tæki sem sprott­inn eru úr ís­lensk­um jarðvegi með ís­lensku hug­viti og þekk­ingu. Össur hef­ur reynst öfl­ug­ur bak­hjarl heil­brigðis­kerf­is­ins. Íslensk erfðagrein­ing með Kára Stef­áns­son í far­ar­broddi hef­ur verið í lyk­il­hlut­verki í bar­átt­unni við ill­víga veiru. Hæl­bít­arn­ir hafa því þagnað, a.m.k. um sinn.

Nú þegar gef­ur hressi­lega á bát­inn höf­um við einnig fengið staðfest­ingu á því hversu mik­il­vægt það er að fylgja aðhalds­samri stefnu í rík­is­fjár­mál­um á tím­um góðæris. Safna korni í hlöðurn­ar fyr­ir mögru árin. Þess­ari stefnu hef­ur verið fylgt allt frá 2013 und­ir for­ystu Bjarna Bene­dikts­son­ar. Þess vegna erum við Íslend­ing­ar bet­ur í stakk bún­ir en flest­ar aðrar þjóðir að glíma við efna­hags­leg áföll.

Í eft­ir­leik þess­ara hörm­unga eig­um við eft­ir að svara mörg­um spurn­ing­um. Hvernig mun hag­kerfi heims­ins breyt­ast? Hvaða áhrif hef­ur far­ald­ur­inn á alþjóðlega sam­vinnu? Hvernig breyt­ast grunn­hug­mynd­ir stjórn­mál­anna?

Eða mun ekk­ert breyt­ast og allt falla í sama farið? Von­andi ekki, því þá höf­um við lítið lært.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2020.