Hefur veruleg áhrif á starfsemi íþróttafélaga
'}}

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Við þessar fádæma aðstæður sem nú eru uppi er mikilvægt að við sýnum ábyrgð á öllum sviðum , enda stöndum við öll saman í því að halda samfélagi okkar allra gangandi í þeim ólgusjó sem Covid 19 er.

Íþróttafélögin hafa ekki farið varhluta af þeim áhrifum sem Covid 19 faraldurinn hefur haft. Íþróttahús, íþróttavellir s.s. knattspyrnuvellir hafa verið lokaðir fyrir allri íþróttastarfsemi frá því samkomubann var sett á og fyrirséð er að bannið muni standa a.m.k. út meginhluta aprílmánaðar. Þetta hefur gríðarleg áhrif á starfsemi félaganna, æfingar falla niður sem og kappleikir, íþróttamót og allt félagsstarf. Stjórnir félaganna, ráð og nefndir hafa þó í mörgum tilfellum haldið áfram sínu starfi og nýtt sér tæknina fyrir fundi með fjarfundarbúnaði.  Margir þjálfarar hafa verið í sambandi við iðkendur sína og sent þeim heimaæfingar og verkefni til að leysa en einnig má segja að í ástandi sem þessu þá gefst tími til að huga að öðrum þáttum þjálfunar.

Þetta ástand hefur auk þess gífurleg áhrif á fjármál íþróttafélaga. Þau hafa m.a. tekjur sínar af æfingargjöldum iðkenda, ýmsum mótum og kappleikjum sem haldin eru auk þess sem umtalsverðar tekjur félaganna koma frá utanaðkomandi aðilum s.s. fyrirtækjum sem nú eiga jafnframt í miklum vanda.  Það verður því erfitt fyrir íþróttafélög að sækja stuðning til þessara aðila og munu fyrirtæki jafnvel eiga erfitt með að standa við gefin fyrirheit um stuðning. Einhver félög munu um þessi mánaðamót ná að standa við skuldbindingar sínar á meðan önnur þurfa að grípa til annarra ráðstafana.

Það er afar miklvægt þegar þessum Covid 19 ólgusjó linnir að íþróttafélögin gleymist ekki í umræðunni þegar samfélagið fer að ganga sinn vanagang.

Ég hvet alla til að nýta tímann vel, halda sér í þjálfun með daglegri hreyfingu og útiveru. Allir ættu að geta fundið leið til uppbyggilegrar hreyfingar til að halda sér í líkamlegu og andlegu formi. Það er ekki spurning að hreyfingin er besta meðalið til þess.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu og Árbæjarblaðinu 2. apríl 2020.