„Ísland mun taka þátt í ferðabanni ásamt öðrum Schengen ríkjum. Bannið mun ekki hafa bein áhrif á vöruflutninga heldur á þetta einungis við um ferðamenn utan Schengen sem verður þá ekki lengur heimilt að koma til landsins,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á facebook-síðu sinni.
Hún bendir jafnframt á að komum ferðamanna sé að mestu sjálfhætt vegna veirunnar
„Þrátt fyrir að ferðabann hafi ekki verið ofarlega hjá okkar sérfræðingum sem árangursrík aðferð gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins þá hefur verið biðlað til okkar að taka þátt í lokun landamæra ESB- og Schengen-ríkjanna og við eigum óhægt um vik að skorast undan því,“ segir ráðherrann.
Hún segir alþjóðlegt og svæðisbundið samstarf mikilvægt í baráttunni gegn veirunni og að samstarf ESB- og EES-ríkjanna sé mikilvægt í því samhengi.
„Á grundvelli þess og mati á okkar hagsmunum þá munum við taka þátt í aðgerðum Schengen-ríkjanna og loka hér ytri landamærum.
Við höfum ítrekað bent á okkar sérstöðu innan svæðisins síðustu daga. Við erum eyja langt frá öðrum löndum og við eigum meira undir flugsamgöngum og við höfum því beðið um að sérstakt tillit verði tekið til okkar þegar við sjáum fyrir að við viljum fara aflétta þessari lokun," segir Áslaug Arna.