Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
„…í fyrsta lagi vil ég undirstrika þá staðföstu trú mína að það eina sem við höfum að óttast er …óttinn sjálfur – nafnlaus, órökstudd, órökræn hræðsla sem lamar viðleitni okkar að snúa vörn í sókn.“
Þannig komst Franklin D. Roosevelt, 32. forseti Bandaríkjanna, að orði í innsetningaræðu sinni í mars 1933 – fyrir 87 árum. Líkt og flest lönd heims glímdu Bandaríkin við alvarlega efnahagskreppu. Þá líkt og nú þurfti leiðtoga til að stíga fram, taka forystu, stappa stálinu í almenning og fyrirtæki, blása þeim bjartsýni í brjóst.
Matthew Karanitschnig, blaðamaður vefritsins Politico, segir í upphafi fréttaskýringar síðastliðinn mánudag, að hafi COVID-19 kennt okkur eitthvað annað en mikilvægi hreinlætis, þá sé það að leiðtogar verði fórnarlömb farsótta. Hann saknar þess að enginn þjóðarleiðtogi hafi stigið fram, tekið forystuna í baráttunni við illvígan vírus, þjappað þjóðum heims saman í stað þess að sundra. Margir hafi lokað eyrum og augum í margar vikur gagnvart aðsteðjandi ógn – látið viðvaranir sérfræðinga sem vind um eyru þjóta. Heilbrigðisvandinn en ekki síður efnahagsvandinn verði meiri í sundurþykkum heimi.
Samstarf á veikum grunni
Síðustu daga hefur komið æ betur í ljós hve alþjóðlegt samstarf stendur á veikum grunni þegar kreppir að. Nokkrum dögum eftir að hafa lýst því yfir að kórónuveiran sé eitt stórt pólitískt „gabb“ setti Donald Trump forseti bann við komu Evrópubúa til Bandaríkjanna (Bretar voru í fyrstu undanskildir). Í kjölfarið tóku fjármálamarkaðir enn eina dýfuna. Trump sætir þungri gagnrýni fyrir hvernig stjórnvöld hafa haldið á málum. Baráttan gegn vírusnum sé fálmkennd og ómarkviss. Hægt og bítandi hafa liðsmenn Trumps áttað sig á því að COVID-19 hefur grafið undan pólitískri stöðu forsetans á kosningaári.
Ráðamenn í Evrópu, sem brugðust hart við ferðabanni Trumps, hafa í örvæntingu gripið til svipaðra aðgerða. Hvert Evrópulandið á fætur öðru lokar landamærum sínum – ríkisstjórnir hrekjast undan óttanum. Pólitísk sjónarmið hafa náð yfirhöndinni og ráðgjöf vísindamanna verið lögð til hliðar. Samstaða og samstarf Evrópusambandsins er að rakna upp. Evrópuhugsjónin um samvinnu, ekki síst á ögurstundum, er komin ofan í skúffu. Ítalir vita að þeir standa einir í baráttunni gegn skæðum vírus. Þeir eru með bundnar hendur fyrir aftan bak í tilraunum til að lágmarka efnahagslegan skaða.
Því miður erum við að verða vitni að því að fleiri leiðtogar brotni en rísi upp.
Á mánudag klóruðu leiðtogar G-7 ríkjanna (Bandaríkin, Þýskaland, Bretland, Frakkland, Ítalía, Kanada og Japan) í bakkann. Gefin var út yfirlýsing um að þeir myndu vinna saman að öllum nauðsynlegum aðgerðum í baráttunni gegn COVID-19 faraldrinum og tryggja öfluga efnahagslega viðspyrnu, sjálfbæran hagvöxt og velmegun almennings. Yfirlýsingin er almenn og án útlistana. Gripið verður til samræmdra aðgerða á sviði peninga- og ríkisfjármála til að styðja við bakið á launafólki og fyrirtækjum.
Lukkuriddarar sem allt vita
Á tímum óvissu, ekki síst þegar hætta steðjar að, koma alltaf fram á sviðið lukkuriddarar sem annaðhvort sjá pólitísk tækifæri í stöðunni eða eru hreinlega haldnir þeirri grillu að þeir viti flest betur en aðrir. Við höfum þegar séð vitringana birtast á samfélagsmiðlum. Þeir draga allt í efa sem gert hefur verið. Ráðleggingar og ákvarðanir vísindamanna – heilbrigðisyfirvalda – eru léttvægar fundnar. Og á komandi dögum og vikum verður freistingin líklega of mikil fyrir lukkuriddarana til að halda aftur af sér í yfirboðum og fögrum loforðum um efnahagslegar aðgerðir sem verður að grípa til.
Það versta sem nokkur þjóð getur gert við fordæmalausar og hættulegar aðstæður er að láta lukkuriddara og sjálfskipaða vitringa ráða för. Við Íslendingar höfum notið þeirrar gæfu að þegar í upphafi var tekið fast á málum undir styrkri handleiðslu þríeykisins, Ölmu Möller landlæknis, Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns.
Fumlaus og skipulögð viðbrögð koma okkur í gegnum hættuna. Verkefnið er ekki síst að hægja á útbreiðslu vírussins, tryggja eins og hægt er að heilbrigðiskerfið ráði við að veita nauðsynlega – oft lífsnauðsynlega þjónustu. Vernda þá sem eru viðkvæmastir og í mestri hættu, en um leið tryggja að samfélagið haldi.
Við höfum orðið vitni að því hvernig einstaklingar stíga upp og verða leiðtogar við erfiðar aðstæður. „Við höfum lent í mörgum áföllum sem þjóð og við tökumst bara á við þetta eins og við höfum gert með svo margt annað í gegnum tíðina. Við gerum það saman og það er lykilatriðið,“ sagði Víðir Reynisson í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir nokkrum dögum. Þríeykið hefur, með framgöngu sinni, þjappað þjóðinni saman. Slíkt er háttur leiðtoga.
Með skýrum og ótvíræðum hætti verða stjórnvöld að standa þétt við bakið á öflugu starfsfólki heilbrigðiskerfisins, fjárhagslega sem andlega. Þegar barist er gegn illvígum faraldri eiga stjórnmálamenn ekki að troða sér upp á sviðið. Við sem sitjum á Alþingi getum haft okkar skoðanir á einstökum ákvörðunum heilbrigðisyfirvalda, en við verðum að hafa andlegan styrk til að þegja. Við þurfum að einbeita okkur að öðru – efnahagslegum aðgerðum til að lágmarka skaðann fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.
Leiðtogar stíga fram
Það er mikilvægt að stjórnvöld – ríkisstjórn, alþingi – hafi í huga að ekki er í öllu hægt að beita hefðbundnum verkfærum í ríkisfjármálum til að örva efnahagslífið. Hér eru að verki önnur lögmál en ráða för í hefðbundnum efnahagslegum samdrætti eða kreppu.
Þegar þetta er skrifað hafa fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum verið kynntar. Beðið er eftir stærra útspili sem verður kynnt síðar í vikunni. Samræmdar aðgerðir í ríkisfjármálum og peningamálum skipta mestu.
Á sviði heilbrigðismála höfum við Íslendingar eignast leiðtoga í baráttunni við COVID-19. Íslenskt samfélag, – atvinnulífið og heimilin – þarf sterka leiðtoga á hálu svelli stjórnmála og efnahagsmála.
„Ég ætla að lýsa því yfir hér að ég hef trú á því að mestu mistökin sem við gætum gert hér í þinginu væri að ganga allt of skammt. Það væri betra fyrir okkur að nýta þá góðu stöðu sem við búum yfir til að gera rétt rúmlega það sem þarf vegna þess að sameiginlega tjónið af því að gera of lítið of seint getur orðið miklu meira en tilkostnaðurinn af því að gera aðeins of mikið,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í sérstökum umræðum í liðinni viku um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs.
Aðeins leiðtogi sem hefur safnað korni í hlöðurnar í góðæri hefur efni á að tala með þessum hætti.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2020.