Verjum störf í Reykja­vík
'}}

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Við stöndum frammi fyrir snörpum samdrætti í efnahagslífinu vegna COVID-19 veirunnar og það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við eins og hægt er. Bráðnauðsynlegt er að styðja við atvinnulífið til að verja störf og tryggja þannig afkomu heimilanna.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar kynnt aðgerðapakka en lítið hefur heyrst frá sveitarfélögum. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í Reykjavík hafa um langt skeið verið í lögbundnu hámarki og lítill hljómgrunnur verið hjá meirihlutanum fyrir tillögum Sjálfstæðisflokks um lækkun þeirra. Nú sést bersýnilega hversu mikilvægt er að yfirvöld sýni hófsemi í skattheimtu, svo heimili og fyrirtæki hafi viðspyrnu þegar harðnar í búi.

Tafarlaust ætti að lækka fasteignaskatta í borginni. Þar sem samdráttur er þegar skollinn á af fullum þunga þarf að ganga lengra til að draga úr áhrifum á fyrirtækin í borginni. Það er stórt hagsmunamál fyrir borgarbúa að geta snúið til vinnu eftir að þessu ástandi lýkur og fengið launagreiðslu í lok hvers mánaðar.

Mest aðkallandi er að styðja við lausafjárstöðu fyrirtækja svo þau sem hafa styrkan efnahagsreikning geti staðið af sér storminn. Því ætti að grípa til sambærilegra aðgerða og ríkisstjórnin hefur boðað. Í borginni gætu þær falist í að veita fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum erfiðleikum í rekstri, vegna samdráttar tekna, svigrúm með greiðslufresti á fasteignagjöldum og öðrum gjöldum borgarinnar. Nú er tækifærið að vernda langtímahagsmuni borgarinnar með því að styðja við íbúa hennar og fyrirtæki.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til aðgerðapakka til verndar störfum. Lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er þar á meðal. Meirihlutinn hefur hingað til svarað þeirri tillögu með því að það eigi að gera það seinna. Eins og ég hef ítrekað bent á, þá verður það of seint. Nú er lag fyrir meirihlutann í borgarstjórn að samþykkja þessar tillögur okkar.

Greinin birtist á visir.is 18. mars 2020.