Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Fótunum hefur verið kippt undan daglegu lífi okkar. Sótthreinsun og samkomubann taka yfir. Ferðamenn hverfa eins og hendi sé veifað. Mikill fjöldi starfa er í hættu. Að óbreyttu mun atvinnuleysi verða mikið. Á svona tímum skiptir máli að taka óhikað réttar ákvarðanir. Danska ríkið hefur ákveðið að greiða í þrjá mánuði 75% af launum þeirra fyrirtækja sem annars þurfa að segja upp fólki vegna COVID-19. Þetta er gert til að lágmarka atvinnuleysi vegna tímabundins lömunarástands. Íslenska ríkið hefur boðað aðgerðir í svipuðum anda. Reykjavíkurborg hefur notið uppgangs í ferðaþjónustu með ýmsum hætti.
Það eru miklir hagsmunir borgarinnar undir í að ferðaþjónusta í Reykjavík lifi af þær hamfarir sem núna ganga yfir. Við leggjum til að borgin fylgi fordæmi ríkisins og leggi þessum undirstöðu atvinnuvegi lið á fordæmalausum tímum. Við leggjum til mótvægisaðgerðir í fimm liðum sem lagðar eru í dag fyrir borgarstjórn. Þessar aðgerðir geta aukið líkur fyrirtækjanna á að lifa af hremmingarnar. Jafnframt auka þessar aðgerðir á möguleika fólks til að halda vinnu sinni. Laun fólksins eru tekjur borgarinnar
Hér eru markvissar aðgerðir til að vernda framtíðartekjur borgarinnar.
Tillögurnar eru þessar:
1. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður í 1,60% frá og með fyrsta apríl nk.
2. Farið verði í gjaldskrárlækkanir á atvinnulíf.
3. Gjaldfrestur vegna fasteignaskatta verði rýmkaður fyrir fyrirtæki í tímabundnum vanda.
4. Ráðist verði í viðhaldsátak á húsnæði og innviðum borgarinnar.
5. Reykjavíkurborg fari í markaðsátak í höfuðborginni í samstarfi við ferðaþjónustu og ríki þegar aðstæður skapast.
Þessar tillögur eru þess eðlis að allir ættu að geta verið sammála um þær sama í hvaða flokki þeir standa. Nú er tækifæri fyrir borgarstjórn að sýna samstöðu og styrk.
Borginni ber að leiða
Svipaðar hugmyndir hafa verið ræddar hjá öðrum sveitarfélögum, en Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélagið og ber að leiða þessi mál. Í dag á jafnframt að taka fyrir nýja ferðamálastefnu borgarinnar. Rétt væri að endurskoða hana í ljósi breyttra aðstæðna. Forsendur hafa gjörbreyst á fáum vikum. Nú er þörf á björgunarbátum og súrefni. Þar gegnir borgin lykilhlutverki, enda ferðamannaborg. Háir fasteignaskattar og há gjöld þarf að endurskoða. Hvert starf skiptir máli. Stöndum saman í að verja störfin. Þau eru kjölfesta heimilanna. Þau eru undirstaða borgarinnar.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. mars 2020.