Við upphaf hringferðar
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði sl. föstudag upp í aðra hringferð sína um landið á jafnmörgum árum. Að þessu sinni verður lögð meiri áhersla á það en í síðustu ferð að heimsækja fyrirtæki. Það er við hæfi nú þegar verðmætasköpun er að færast ofar á forgangslista Íslendinga eftir því sem um hægist í efnahagslífinu, þó að hún sé auðvitað alltaf mikilvæg.

Stöðumat formanns

Á fjölsóttum og góðum upphafsfundi hringferðarinnar, sem var haldinn í Reykjavík, nefndi Bjarni Benediktsson sérstaklega þrjú atriði sem skiptu máli við núverandi aðstæður.

Í fyrsta lagi að mæta þeim áskorunum sem fylgja lýðfræðilegum breytingum eins og öldrun þjóðarinnar og lækkandi fæðingartíðni. Þær breytingar munu auka verulega álagið á stuðningskerfin okkar og neyða okkur til að hagræða og vera opin fyrir breyttri nálgun til að tryggja áfram jafngóðan rétt.

Í öðru lagi að auka samkeppnishæfni efnahagslífsins á tímum hækkandi launa og sterks gengis krónunnar. Við aukum samkeppnishæfnina ekki síst með því að halda áfram að auka stuðning við nýsköpun og einfalda regluverk. Einnig þarf að líta til þeirra atvinnugreina þar sem framleiðni er mest.

Í þriðja lagi að ráðast í tímabæra styrkingu á margvíslegum innviðum landsins, bæði efnislegum og óefnislegum. Gengið var of nærri þeim á árunum eftir bankahrunið. Nú eru allar aðstæður réttar til að bæta úr því; bæði staða efnahagslífsins og staða ríkissjóðs bjóða upp á það.

Seðlabankastjóri um mikilvægi frumkvöðla

Daginn áður en hringferðin hófst sat Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri fyrir svörum hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Hann var spurður hvað væri mikilvægast til að auka hagvöxt. Svörin voru áhugaverð.

Ásgeir nefndi fjögur forgangsverkefni: að auka áherslu á menntun og þá alveg sérstaklega verkmenntun; að auka sveigjanleika í efnahagslífinu og á vinnumarkaði; að horfa til framleiðni í kjarasamningum.

Og svo það sem var óvenjulegast og ánægjulegast í svari Seðlabankastjóra: að bæta umhverfið fyrir frumkvöðla. Hann nefndi sérstaklega að huga þyrfti að möguleikum frumkvöðla til fjármögnunar.

Ég er hjartanlega sammála þessum orðum Seðlabankastjóra og stefna og aðgerðir þessarar ríkisstjórnar ríma vel við þau. Þannig er ein af lykilaðgerðum nýju nýsköpunarstefnunnar að setja á fót hvatasjóð fyrir svokallaðar VC-fjárfestingar – sem ég legg til að við köllum vísifjárfestingar á íslensku – í frumkvöðladrifnum nýsköpunarfyrirtækjum.

Opin gögn í þágu nýsköpunar

Eins og Bjarni Benediktsson nefndi réttilega knýja lýðfræðilegar breytingar okkur til að leita nýrra leiða til að auka skilvirkni með nýsköpun.

Ein leið til þess er að gera gögn aðgengilegri. Segja má að tæknibreytingar séu í auknum mæli að gera samfélagið allt gagnadrifið. Gögn eru auðlind í sjálfu sér, auðlind sem þarf að hlúa að og nýta með ábyrgum hætti. Í þessu skyni erum við nú að skipuleggja svokallað „hakkaþon“ í samvinnu við Orkustofnun og Hafrannsóknastofnun. Það felst í því að nýta gögn þessara stofnana á nýjan hátt með því að tengja saman stofnanirnar sem hafa þekkingu á gögnunum og einstaklinga með hugmyndir og þekkingu til að nýta þau. Þetta eru bara fyrstu skrefin. Við tökum líka þátt í undirbúningi hakkaþons í þágu loftslagsmála og öðru á sviði heilbrigðistækni.

Eitt það mikilvægasta við þessa tiltölulega einföldu nálgun um opin gögn er að undirstrika að framfarir, skilvirkni og verðmætasköpun þurfa ekki alltaf að kosta mikla peninga.

Eflum traust samhliða einföldun regluverks

Á hringferð okkar Sjálfstæðismanna um landið í fyrra voru skilaboðin til okkar skýr: Búið okkur skilyrði til að skapa aukin verðmæti.

Þetta erum við að gera, ekki síst með miklu átaki atvinnuvegaráðuneytisins til einföldunar regluverks sem hefur þegar skilað sér í afnámi hundruða óþarfa laga og reglugerða og á enn eftir að skila meiri árangri. Við bindum t.d. miklar vonir við samvinnuverkefni við OECD um mat á regluverki ferðaþjónustu og byggingaiðnaðar.

Á sama tíma erum við líka að vinna að því að auka traust til viðskiptalífsins. Sem dæmi má nefna að við samþykktum í fyrra lög sem gera skylt að skrá raunverulega eigendur félaga. Svo vill til að fresturinn til að uppfylla þessi nýju skilyrði rennur út eftir nokkra daga, þann 1. mars næstkomandi. Fleira í þessum dúr hefur verið boðað og er í farvatninu.

Austurríski sálfræðingurinn Viktor Frankl, sem lifði af fangabúðir nasista og skrifaði í kjölfarið fræga bók um tilgang lífsins, lagði á sínum til að reist yrði „Ábyrgðarstytta“ á vesturströnd Bandaríkjanna til mótvægis við Frelsisstyttuna, því frelsi án ábyrgðar væri einskis virði. Það eru til vitlausari hugmyndir.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. febrúar 2020.