Fossvogsskóli

Eftir Valgerði Sigurðardóttur, borgarfulltrúa: 

Barátta foreldra barna í Fossvogsskóla er ótrúleg. Fyrir um ári síðan kom upp mikil mygla i skólanum sem orsakaðist af langvarandi leka í húsnæðinu. Foreldrar höfðu barist fyrir því að gerð yrði úttekt á húsnæði skólans eftir að börn þeirra fóru að veikjast. Þegar úttektin var gerð kom í ljós að verulegar skemmdir voru á húsnæðinu. Það var farið í endurbætur sem kostuðu um hálfan milljarð. Þrátt fyrir þessar miklu endurbætur hefur nú aftur orðið rask á skólastarfinu.

Börn aftur veik

Nú eru börn aftur farin að veikjast. Það sætir furðu að ekki hafi tekist betur til þar sem nú er búið að leggja út í kostnað upp á um hálfan milljarð til að gera við skemmdirnar. Nýtt þak sem var sett á skólann lekur og því hafa aftur myndast rakaskemmdir. Eins létu foreldrar vita strax í september að líklega væri ekki allt með felldu í heimilisfræðistofu því börn þeirra veiktust eftir að vera þar. Þrátt fyrir þetta hafa ekki verið tekinn sambærileg sýni og gert var þegar myglan uppgötvaðist fyrst. Ekki hefur verið hlustað á beiðni foreldra um að fá sambærileg myglupróf og gerð voru áður en ráðist var í endurbæturnar og það tryggt að framkvæmdin hafi verið með þeim hætti að allar rakaskemmdir hafi verið fjarlægðar.

Í ljósi þessa er rétt að spyrja sig af hverju var húsnæðið ekki tekið í almennilega úttekt og sýni tekinn á öllum þeim stöðum þar sem kom í ljós að gera þurfti endurbætur vegna myglu? Af hverju tekur Reykjavíkurborg við húsnæðinu án þess að fram fari ýtarleg úttekt og gengið úr skugga um að húsnæðið sé laust við myglu og leka? Það er ljóst að þær úttektir sem farið var í hafa ekki verið nægilega góðar því annars væri þessi staða ekki uppi núna.

Heilsuspillandi húsnæði

Kennarar, börn og foreldrar eru langþreyttir enda mikið búið að ganga á i skólastarfinu síðustu mánuði. Flytja þurfti börn úr skólanum og kenna þeim á öðrum stöðum í borginni á meðan að þessar umfangsmiklu viðgerðir stóðu yfir. Þetta ferli hefur tekið á alla, bæði þá sem eru veikir sökum myglu og þá sem ekki hafa veikst.

Af hverju var ekki strax brugðist við í haust og farið í úttekt? Af hverju er það ekki kappsmál hjá Reykjavíkurborg að búa starfsfólki og nemendum Fossvogsskóla umhverfi sem er ekki skaðlegt heilsu þeirra? Það er aðeins eitt sem foreldrar vilja og það er að börn þeirra geti fengið þá lögbundnu grunnþjónustu sem skólaganga er í húsnæði við hæfi, húsnæði sem ekki er heilsuspillandi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar, 2020