Sveigjanleiki á leikskólum

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Öll viljum við gæta að bestu hagsmunum barna. Við viljum búa börnum okkar öruggt umhverfi og þroskavænleg skilyrði. Við tryggjum það á heimilunum og treystum svo á skólakerfið. Þannig þjóna leikskólar borgarinnar gríðarlega mikilvægu hlutverki gagnvart fjölskyldum í borginni – þjónustu sem nú er ígrundað að skerða.

Ákvörðun um skerta leikskólaþjónustu er sögð miða að bestu hagsmunum barna. Það er fullkominn fyrirsláttur enda ekkert í aðgerðunum sem miðar að bættu leikskólaumhverfi fyrir börn. Leikskólabörn geta áfram átt níu klukkustunda dvalartíma daglega og engar aðgerðir í sjónmáli til að bæta umhverfi barnanna.

Með aðgerðunum yrði dregið úr svigrúmi fyrir fjölskyldufólk að skipuleggja eigin hversdag. Þá virðist ráðgert að foreldrar vinni allir samskonar vinnudag. Í borginni býr alls kyns fólk í ólíkum störfum með fjölbreyttar þarfir. Það er ekki hlutverk hins opinbera að steypa allt vinnandi fólk í sama mót. Við verðum að mæta þessum ólíku þörfum eftir fremsta megni. Við verðum að tryggja sveigjanleika.

Ríflega 5.200 fjölskyldur nýta þjónustu leikskólanna í Reykjavík. Tillögur um skerta þjónustu voru unnar í tómarúmi – án samráðs við fjölskyldur sem jafnvel eru þjónustunni háðar. Slíkar aðgerðir munu ekki skapa áþreifanlegan þrýsting á vinnumarkað um stytta vinnuviku – enda fleira fólk á vinnumarkaði en einungis foreldrar leikskólabarna. Líkur standa til að aðgerð sem þessi myndi koma verst niður á viðkvæmum hópum samfélagsins, svo sem lágtekjufólki, einstæðum foreldrum, þeim sem eiga lítið bakland og vinnandi konum. Slæm þjónusta sveitarfélaga getur nefnilega haft keðjuverkandi áhrif á misskiptingu og misrétti.

Við þurf­um ætíð að huga að bestu hags­mun­um barna og draga úr álagi á þau, en það ger­um við ekki með aukinni streitu og minna svigrúmi í hversdegi fjölskyldunnar. Við verðum að tryggja öfl­uga óskerta leikskólaþjón­ustu og aukið til­lit til þeirra sem hafa tak­markað svig­rúm í sínu starfs­um­hverfi. Við verðum að tryggja sveigjanleika til að mæta ólík­um þörf­um. Einungis þannig tryggjum við bestu hagsmuni fjölskyldufólks í Reykjavík.