Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Breski grínarinn Ricky Gervais gerði allt vitlaust á Golden Globe-verðlaununum fyrir nokkrum dögum með því að gera kolsvart grín að frjálslynda og „góða fólkinu“ í Hollywood. Sakaði það blákalt um hræsni, í gríni og alvöru. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðunum. Gervais hefur útskýrt að hann hafi ekki verið að stimpla sig í lið gegn Hollywood-fólkinu heldur hafi hann verið að gagnrýna sitt eigið lið.
Einhver sagði að það þyrfti hugrekki til að gagnrýna andstæðinga sína en tvöfalt hugrekki til að gagnrýna vini sína.
Samvinna um borgaraleg gildi
Samvinna íhaldssamra og frjálslyndra afla um framgang borgaralegra gilda hefur skipt sköpum fyrir samfélagsþróunina á Íslandi. Mikilvægt er að hún haldi áfram og verði áfram traust, þó að vitaskuld verði alltaf tekist á um gildi stöðugleikans annars vegar og breytinga hins vegar.
Gyllti hnötturinn: I
Átök stöðugleika og breytinga eru heillandi, sígilt og vinsælt viðfangsefni. Þau eru til að mynda rauði þráðurinn í kvikmyndinni „Páfarnir tveir“, sem Netflix gaf nýlega út og var tilnefnd sem besta myndin á fyrrnefndum Golden Globe-verðlaunum.
Þar takast þeir á í heitum rökræðum, Benedikt páfi og sá sem átti síðar eftir að taka við af honum og verða Frans páfi. Sá íhaldssami og sá frjálslyndi. Báðir innan sömu íhaldssömu stofnunarinnar.
Báðir viðurkenna að hafa breytt um áherslur í áranna rás en svo takast þeir skemmtilega á um hvort það hafi verið sinnaskipti eða málamiðlun – og hvort sé skárra! Þrátt fyrir djúpstæðan ágreining þeirra á milli svífur yfir vötnum að þeir séu þrátt fyrir allt nær hvor öðrum en ætla mætti.
Gyllti hnötturinn: II
Átök stöðugleika og breytinga eru líka einn af rauðu þráðunum í sjónvarpsþáttunum um Elísabetu Bretadrottningu, „Crown“, sem voru líka tilnefndir til Golden Globe rétt eins og myndin um páfana. Þar rembist hin þunglamalega krúna við að skilja hlutverk sitt í breyttum heimi.
Undir lok þriðju seríu fer fram ákveðið uppgjör á milli Elísabetar og föðurbróður hennar, kóngsins fyrrverandi sem hafði gefið konungdæmið frá sér fyrir ástina. Sú erki-íhaldssama og sá frjálslyndari. Bæði á sínum tíma innan sömu íhaldssömu stofnunarinnar. Á ákveðinn hátt má segja að þau nái saman.
Það gera einnig hin hægláta Elísabet og systir hennar, sú óstýriláta og fjöruga, þegar sú fyrrnefnda tekur að efast um sjálfa sig og spyr hvort hún hafi gert landi sínu gagn, hvort það sé ekki allt að liðast í sundur á hennar vakt. Systirin tekur þá óvænt upp hanskann fyrir íhaldssemina og svarar eitthvað á þessa leið: Stöðugleiki þinn og óhagganleiki er nauðsynlegt lím í brothætta sjálfsmynd þjóðarinnar.
Þriðja og kannski skýrasta dæmið um svipaða „brúarsmíði“ sem kemur fram í þáttunum er hið góða og trausta samband Elísabetar og vinstrimannsins Wilsons forsætisráðherra.
Innskot
Felst ekki einhver mótsögn í því að framsæknustu og frjálslyndustu samfélög heims, Svíþjóð, Noregur og Danmörk, skuli öll ennþá halda í hina fornu hefð konungdæmisins? Hún er jú algjörlega á skjön við nútímahugmyndir um jafnrétti og afnám meðfæddra forréttinda.
Eða er þetta kannski lexía um að íhaldssemi og frjálslyndi geti farið mjög vel saman og vegi jafnvel hvort annað upp? Þetta er að minnsta kosti umhugsunarvert.
Greining Economist
Blaðið Economist hélt því fram fyrir nokkrum mánuðum í áhugaverðri greiningu, að engin hugmynd ætti meira undir högg að sækja á Vesturlöndum um þessar mundir en klassísk íhaldsstefna. En ástæðan væri ekki atlaga frá frjálslyndum heldur innan úr eigin herbúðum, frá „nýja hægrinu“.
Hér er endursögn á hluta af röksemdafærslu blaðsins fyrir því að nýja hægrið sé í raun að leggja til atlögu við hefðbundna íhaldsmenn: Íhaldsmenn vilja fara varlega í breytingar en nýja hægrið er í byltingarhug. Íhaldsmenn eru praktískir en nýja hægrið er ósveigjanlegt og dogmatískt og fer auk þess frjálslega með staðreyndir. Íhaldsmenn leggja mikið upp úr skapgerð og mannkostum en nýja hægrið leggur meira upp úr ásýnd og vinsælum uppátækjum og fyrirgefur auðveldlega skapgerðarbresti. Íhaldsmenn styðja milliríkjaverslun en nýja hægrið stundar tollastríð. Blaðið nefnir fleiri dæmi.
Blaðið segist vera að gagnrýna vini sína.
– Rétt eins og Ricky Gervais, mínus húmorinn.
Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 12. janúar 2019.