Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Á borgarstjórnarfundi, næstkomandi þriðjudag, ætlar borgarstjórnarmeirihlutinn að samþykkja endanlega breytt deiliskipulag norðan Stekkjarbakka, í sunnanverðum Elliðaárdalnum.
Ferðamanna-Disney-land í Elliðaárdalinn
Þessi skipulagsbreyting snýst um ný landnýtingaráform á svæðinu svo hægt verði að standa við lóðarvilyrði borgarstjórnar til einkaaðila. Þar er áformað að reisa mannvirki undir gróðurhvelfingar og veitingarekstur. Gert er ráð fyrir byggingum að grunnfleti 4.500 fermetrar, bílastæðum fyrir hundruð ökutækja auk þess sem borgin ætlar að úthluta þremur öðrum lóðum á þessu svæði undir ýmiss konar atvinnurekstur.
Fátt eitt liggur fyrir um það hvort lóðaverðið kemur til með að svara kostnaði borgarinnar við að gera svæðið lóðarhæft og málsvarar meirihlutans hafa viðurkennt að þeir hafi ekki hugmynd um það hver á endanum ætli að fjármagna þetta tröllaukna túristafyrirtæki sem þarna á að rísa.
Landvernd stendur með Elliðaárdalnum
Eins og geta mátti nærri hefur verið ærandi þögn um þessi fyrirhuguðu umhverfisspjöll á meðal sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna í Samfylkingu og Vinstri-grænum. Ég benti reyndar á þá staðreynd í grein í Morgunblaðinu 7. nóvember sl. Í tilefni þeirrar greinar birtist grein í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag eftir Tryggva Felixson, formann Landverndar. Sú skilmerkilega grein tekur af allan vafa um afstöðu Landverndar í þessu máli. Þar kemur fram að fulltrúar Landverndar hafi kynnt sér fyrirhugaðar deiliskipulagsbreytingar og framkvæmdir á svæðinu. Í grein Tryggva segir m.a.: „Stjórnin [Landverndar] tók undir mörg þau gagnrýnissjónarmið sem koma fram í umsögn Umhverfisstofnunar og taldi að þau ein hefðu átt að gefa tilefni til að breyta áformum um nýtt deiliskipulag. Stjórn Landverndar telur að með þeim breytingum sem áformaðar eru sé verið að ganga á afar vinsælt og skjólsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu lífríki og áhugaverðum menningarminjum.“
Umhverfisfarsi á Alþingi
Tveimur dögum áður hafði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis, lagt fram á Alþingi fyrirspurn til umhverfisráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, um hvort ekki væri rétt að friðlýsa Elliðaárdalinn og bjarga honum þannig frá þessum fyrirhuguðu spjöllum borgarstjórnarmeirihlutans. En þar var annað hljóð í strokknum.
Vinstri-græni umhverfisráðherrann hefur af sjálfum sér og öðrum verið talinn með umhverfissinnaðri stjórnmálamönnum. Hann er með meistaragráðu í umhverfisfræðum frá sjálfum Yale-háskóla, var stofnandi og fyrsti formaður Félags umhverfisfræðinga á Íslandi, var framkvæmdastjóri Landverndar 2011-2017 og er nú varaformaður Vinstri-grænna. Hann hefur því að öllum líkindum flögrað á sínum umhverfisvængjum alla leið í ráðherrastól umhverfis- og auðlindamála.
Þessi góði umhverfismaður tókst allur á loft við fagrar náttúrulýsingar Vilhjálms á Elliðaárdalnum, flögraði í pontu og setti síðan í svari sínu dægilega umhverfisplötu á fóninn eins og slíkum mönnum ber að gera við opinberar aðstæður sem þessar. Eitthvað þótti samt Vilhjálmi eins og hugur fylgdi ekki alveg máli hjá ráðherranum þegar kom að Elliðaárdalnum og ítrekaði því erindið: að Alþingi ætti að friðlýsa Elliðaárdalinn. Ráðherrann kom nú aftur í pontu. En þá var ekki lengur tími fyrir þingheim að hlusta á fleiri umhverfisplötur svo ráðherrann var styttri í spuna en í fyrra skiptið. Hann sagðist að sjálfsögðu vera sammála öllu sem fram hefði komið hjá fyrirspyrjanda en sagðist ekki taka afstöðu til Elliðaárdalsins sem slíks, enda væri ekki hægt að friðlýsa eitthvert svæði nema það svæði væri á slíkri áætlun Alþingis, eða þá að fram kæmi slík ósk frá borgaryfirvöldum. Þannig fór um sjóferð þá. Gamla sagan um Heródes og Pílatus.
Kjósum um Elliðaárdalinn
Nú liggur því fyrir að Vinstri-græn hafa ekki áhuga á friðlýsingu Elliðaárdalsins, hvorki í borgarstjórn né á Alþingi, enda langt í næstu kosningar. En það skyldi þó ekki vera að Breiðhyltingar, Árbæingar, Fossvogsbúar og kannski Reykvíkingar allir séu, þegar kemur að Elliðaárdalnum, meiri umhverfissinnar en borgarstjórnarmeirihlutinn. Við borgarfulltrúar minnihlutans ætlum því að leggja fram tillögu í borgarstjórn á þriðjudaginn kemur um að fram fari almenn íbúakosning um deiliskipulagið sem hér um ræðir. Þetta ætlum við að gera í þeirri veiku von að fulltrúar meirihlutans, Samfylkingarfólk, Vinstri-græn, Píratar og Viðreisnarfólk, hafi einhvern tíma meint eitthvað með öllu sínu sjálfshóli þegar kemur að hugsjónum náttúruverndar og lýðræðis.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.