Það er til marks um heilbrigða endurnýjun í forystu Sjálfstæðisflokksins að á 90 ára afmæli flokksins hefur hann á að skipa tveimur yngstu kvenráðherrum Íslandssögunnar, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Raunar hefur aðeins einn ráðherra í Íslandssögunni verið yngri þeim er hann var skipaður, Eysteinn Jónsson. Það er ekki úr vegi að spyrja þessar forystukonur hvaða lærdóm þær dragi af 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins.
„Saga Sjálfstæðisflokksins er hvort tveggja í senn saga framfara og vaxandi velmegunar þjóðarinnar,“ segir Áslaug Arna. „Lærdómurinn er sá að við getum alltaf gert betur, sótt lengra fram og byggt upp enn betra samfélag. Flokkurinn er breiðfylking sem rúmar fjölbreyttar skoðanir en flokksmenn sammælast um gildi sem í megindráttum hverfast um frjáls viðskipti, minna ríkisvald, lægri skatta, frelsi einstaklingsins og öflugt atvinnulíf. Gildin sem gerðu Sjálfstæðisflokkinn að stærsta stjórnmálaafli landsins eiga enn við í dag.“
„Það er einmitt meginlærdómur sögunnar,“ segir Þórdís Kolbrún, „það er að segja hversu traust og sönn grundvallargildi stefnu Sjálfstæðisflokksins eru og jafnframt að breið samstaða er besta leiðin til að vinna þeim brautargengi. Samfélagið okkar er eitt það besta í veröldinni og enginn flokkur hefur lagt eins mikið af mörkum við að reisa stoðir þess og Sjálfstæðisflokkurinn. Við höfum borið gæfu til að treysta einstaklingnum og tryggja athafnafrelsi og atvinnufrelsi sem eru grundvöllur verðmætasköpunar, ásamt því að hafa sterkt öryggisnet og stuðningskerfi. Þannig höfum við gert hverjum og einum kleift að blómstra á eigin forsendum og verðleikum.“
Þórdís Kolbrún segir þetta ástæðuna fyrir því að íslenski draumurinn sé ekki einn á móti milljón heldur innan seilingar fyrir langflesta. „Fá lönd geta gert sterkara tilkall til þess en Ísland að geta með réttu kallast land tækifæranna. Á bókhaldsmáli mætti segja að við höfum lægra afskriftarhlutfall í mannauði en flestar aðrar þjóðir en engan auð er verra að afskrifa en mannauðinn. Þetta er eitt af okkar dýrmætustu sérkennum sem við verðum að standa vörð um. Að mínu mati sýnir reynslan okkur að sjálfstæðisstefnan er best til þess fallin,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Um leið og við veltum fyrir okkur sögu flokksins verðum við einnig að horfa til framtíðar,“ segir Áslaug Arna. „Flokkur sem ætlar að eiga sér 90 ára framtíð, líkt og 90 ára sögu, þarf sífellt að bera sína hugmyndafræði undir kjósendur. Nú, eins og í gegnum tíðina, þurfum við sjálfstæðismenn að vera óhrædd við að taka afstöðu með sjálfstæðisstefnunni, grunngildum sem stuðla að auknu frelsi, og láta um leið moldviðri tækifærissinna sem vind um eyru þjóta. Sagan sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt stóran þátt í að móta gott og heilbrigt samfélag þar sem flestir hafa skilyrði og tækifæri til að athafna sig. En betur má ef duga skal. Það er verkefni okkar að berjast fyrir auknu frelsi og það er líklega verkefni sem klárast aldrei.“
– Nú hafið þið barist til metorða innan flokksins. Er Sjálfstæðisflokkurinn opinn fyrir framgangi kvenna?
„Við Áslaug og fjölmargar aðrar erum auðvitað talandi dæmi um að flokkurinn stendur konum opinn,“ segir Þórdís Kolbrún. „Og vonandi verður okkar framgangur hvatning fyrir enn fleiri að sækja fram, rétt eins og ég horfði til þeirra sem á undan mér fóru. Ef við horfum á söguna þá komu fyrstu tveir kvenráðherrarnir úr Sjálfstæðisflokknum og líka fyrsti kvenborgarstjórinn. Meira en þriðjungur allra kvenráðherra sögunnar hefur komið úr Sjálfstæðisflokknum. Auðvitað gerðist þetta hægt, alltof hægt en Sjálfstæðisflokkurinn getur verið stoltur af sinni sögu og ekki síst þeirri sögu sem er verið að skrifa í dag. Við eigum og höfum átt mjög sterkar konur í flokknum bæði í sveitarstjórnum, þingflokki og ríkisstjórn. Ég fer samt ekki í grafgötur um að við hefðum viljað sjá þær mun fleiri. Við máttum vel við því að bæta okkur og við höfum gert það. Í formennskutíð Bjarna Benediktssonar hafa fleiri konur orðið ráðherrar fyrir Sjálfstæðisflokkinn en samanlagt þar á undan. Það endurspeglar framsýnan formann sem er að stíga afgerandi og tímabær skref og ég er stolt af honum fyrir það.“
Áslaug Arna tekur í sama streng: „Konur innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið brautryðjendur sem ráðherrar og borgarstjórar og nú síðast hefur flokkurinn sýnt að hann treystir ungum konum fyrir ábyrgðarstöðum. Sumir hafa reynt að vísa í niðurstöður einstakra prófkjara til að koma höggi á flokkinn í jafnréttismálum en 90 ára saga Sjálfstæðisflokksins ber með sér að á meðan aðrir flokkar tala um jafnrétti, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt jafnrétti í verki. Flokkurinn hefur ekki bara veitt konum framgang, heldur beitt sér fyrir veigamiklum málum sem eru til þess fallin að auka jafnrétti, bæði á heimilum og í atvinnulífinu, og má þar nefna leikskólamál, dagvistun barna og síðast en ekki síst fæðingarorlofið sem komið var á í tíð Sjálfstæðisflokksins. Allt er þetta til þess fallið að jafna hlutverk kynjanna og um leið að veita öllum tækifæri til að láta til sín taka.“
„Við megum þó aldrei sofna á verðinum,“ klykkir Áslaug út með. „Það er áhyggjuefni að konur, hvar í flokki sem þær eru, skuli staldra styttra við í stjórnmálum en karlar. Stjórnmálin í heild sinni þurfa einnig að horfa til þess að hvetja konur til að láta til sín taka á þessum vettvangi. Þar hefur Landssamband sjálfstæðiskvenna unnið gott starf á liðnum árum.“
– Hvernig hefur Sjálfstæðisflokknum gengið að fylgja eftir stefnumálum sínum í þriggja flokka ríkisstjórn?
„Við erum að lækka skatta í stjórnarsamstarfi með Vinstri grænum og erum búin að kynna niðurfellingu á einum tíunda af öllum tekjuskatti einstaklinga,“ segir Þórdís Kolbrún. „Það er auðvitað stórmerkilegt, ekki síst í þessu stjórnarmynstri og verðskuldar miklu meiri athygli. Það má líka alveg rifja upp að í síðustu ríkisstjórn setti Viðreisn á dagskrá mjög mikla skattahækkun á ferðaþjónustu sem þessi ríkisstjórn lagði strax til hliðar. Þessu þarf öllu að halda til haga til að sjá hlutina í samhengi. Stjórnin var auðvitað fyrst og fremst mynduð um innviðauppbyggingu og stöðugleika og þar miðar okkur vel. Við erum síðan auðvitað með fleiri klassísk hægrimál í farvatninu eins og einföldun regluverks, þar sem stór áfangi var nýlega kynntur í ráðuneyti okkar Kristjáns Þórs Júlíussonar með afnámi fjölda lagaákvæða og reglugerða auk annarra verkefna til þess að taka til og horfa með gagnrýnum hætti á reglubyrði og kostnað.“
Áslaug tekur undir að flokkurinn sé að ná árangri. „Það má alltaf flytja hina hefðbundnu klisju um að í samstarfi ólíkra flokka þurfi að gera málamiðlanir og þetta ríkisstjórnarsamstarf er þar engin undantekning,“ segir hún. „Aftur á móti eru ráðherrar og þingmenn flokksins ófeimnir við að beita sér fyrir helstu stefnumálum flokksins. Það sést vel á því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir – við erum að lækka skatta og vinna fjölmörgum stefnumálum flokksins brautargengi.“
Hún segir að þegar á reyni sé árangur ríkisstjórnarinnar áþreifanlegur. „Það sést einna best á því að við höfum náð hér friði á vinnumarkaði í góðu samstarfi við hagsmunasamtök atvinnulífsins og launþega. Það var gífurlega stórt skref fram á við og til þess fallið að auka hagsæld í landinu. Það má því segja að ríkisstjórnarsamstarfið snúist um stefnumál flokkanna en ekki síður um að taka afstöðu til málefna líðandi stundar og þá skiptir máli að okkar gildi liggi til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar.
Þó að samsteypustjórn krefjist þess að stundum þurfi að gera málamiðlanir þá mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki gefa eftir sannfæringu sína um að forsendur frekari framfara séu öflugt atvinnulíf, frjálsara samfélag og framtaksmáttur einstaklinganna. Það eru þessir þættir sem munu bæta lífsgæði hér á landi, ekki vöxtur hins opinbera.“
– Eru spennandi mál í farvatninu í ykkar ráðuneytum?
„Ég fer inn í ráðuneytið með tvö gildi að leiðarljósi; að auka frelsi og einfalda líf fólks,“ segir Áslaug sem tók við embætti dómsmálaráðherra í september. „Það eru fjölmörg tækifæri til þess í þeim málaflokkum sem heyra undir ráðuneytið.“
Hún segir hlutverk dómsmálaráðuneytisins og undirstofnana þess ekki aðeins bundið við að tryggja öryggi almennings, þó vissulega vegi það þungt. „Hlutverk þess er einnig að tryggja festu og veita almenningi þjónustu. Sú þjónusta þarf að vera skilvirk og taka mið af þörfum almennings en ekki ríkisins. Ríkisstofnanir eru þjónustustofnanir sem eiga að einfalda líf almennings. Hinn almenni borgari á að geta gengið að því sem vísu að réttindi hans hvíli á vel ígrunduðum reglum, að það sé einfalt að nálgast þær upplýsingar sem þörf er á, að það sé með einföldum hætti unnt að afgreiða þau mál sem að honum snúa og þannig má áfram telja. Þess vegna þurfa reglur að vera skýrar, gegnsæjar og skilvirkar. Sama gildir um þjónustu hins opinbera. Þar er mikilvægt að auka stafræna stjórnsýslu eins og hægt er – og þar mun ég beita mér.“
„Tvö stærstu verkefnin hjá mér varða nýsköpun og ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún. „Við kynntum á dögunum fyrstu nýsköpunarstefnuna fyrir Ísland. Það er risastór áfangi að mínu mati því að nýsköpun er algjört grundvallaratriði til að okkur farnist áfram vel. Án hennar munum við ekki skapa næg verðmæti, ekki bregðast nógu vel við fjórðu iðnbyltingunni, ekki spara nóg í opinberum rekstri og svo mætti lengi telja. Þess vegna segi ég að nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn. Við þurfum öll sem búum á þessu landi að tileinka okkur það hugarfar að nýsköpun á að vera alls staðar og er langöflugasta tækið til að viðhalda lífsgæðum, auka verðmætasköpun og leysa áskoranir hvort sem þær snúa að breyttri aldurssamsetningu, loftslagsmálum eða breytingum á vinnumarkaði.“
„Í ferðaþjónustu voru líka kynntir stórir áfangar nýlega, framtíðarsýn ferðaþjónustunnar til 2030 og Jafnvægisásinn, sem er ítarleg greining á stöðu greinarinnar gagnvart sjálfbærri nýtingu og einstakt verkefni í heiminum. Í Jafnvægisásnum felst fyrsti vísir að stjórnunarkerfi fyrir ferðaþjónustu, líkt og við höfum í sjávarútvegi. Næsta skref er að kortleggja aðgerðir til að gera nýju framtíðarsýnina að veruleika, sem var unnin í samstarfi ríkis, sveitarstjórna og atvinnugreinarinnar og gengur út á að við verðum leiðandi í sjálfbærri þróun.“
Þórdís Kolbrún segir að margt fleira mætti nefna eins og einföldun regluverks, breytingar á samkeppnislöggjöf og eina leyfisgátt fyrir ferðaþjónustuna. „Allt eru þetta dæmi um viðleitni okkar til að tryggja að hið opinbera sé ekki að þvælast fyrir borgurunum að óþörfu.“
Þá er samvinnuverkefni með OECD um samkeppnismat á gildandi regluverki fyrir ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi eitt það stærsta sem íslensk stjórnvöld hafa unnið með erlendum alþjóðastofnunum, að sögn Þórdísar. „Mögulegur ábati af umbótum á regluverki er mjög mikill og hefur í öðrum löndum leitt til aukins hagvaxtar og betri lífsgæða fyrir almenning. Ég er sannfærð um að verkefnið mun geta af sér betra regluverk og betri starfsskilyrði fyrir íslenskt atvinnulíf. Við viljum að allir sem hafa góðar hugmyndir og drifkraft til að hrinda þeim í framkvæmd hafi tækifæri á að gera það á sem hagkvæmastan hátt án þess að regluverk hins opinbera sé óþarflega íþyngjandi.“
– Nokkurrar óþreyju gætir meðal sjálfstæðismanna eftir því að undið sé ofan af bákninu og að ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum sé veitt aðhald. Hvað segið þið um það?
„Ég tek undir þá gagnrýni að ríkið er of umsvifamikið og umsvif þess væru augljóslega minni ef Sjálfstæðisflokkurinn væri einn í ríkisstjórn,“ segir Þórdís Kolbrún. „Það eru því miður ekki margir á Alþingi sem kalla eftir minni ríkisafskiptum eða minni útgjöldum og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að tala mjög skýrt í þeim efnum. Flokkurinn hefur ályktað að stefna beri að því að útgjöld hins opinbera verði ekki meiri en 35% af landsframleiðslu. Það er metnaðarfullt og gott leiðarljós. Við þurfum þó líka að líta til þess hvers kyns báknið er og greina það sem þarf að greina til að draga ályktanir; það er til dæmis munur á fjölgun umönnunarstarfa vegna lýðfræðilegrar þróunar eða fjölgun starfa hjá eftirlitsstofnunum. Aukning ríkisútgjalda er fyrst og fremst í stóru velferðarkerfunum sem við viljum öll að séu sterk en við þurfum að vera miklu opnari fyrir nýsköpun og nýjum lausnum sem geta sparað okkur fé án þess að þjónustan sé skert. Ég er mjög vakandi fyrir tækifærum til að draga saman og hef hingað til ekki verið að reyna að keyra upp útgjöld í mínum málaflokkum, sem er allt of oft mælikvarðinn á árangur ráðherra.“
„Að vissu leyti er gagnrýnin réttmæt og nokkuð sem við þurfum að taka til okkar,“ segir Áslaug. „Nú er það samt þannig að það eru gerðar miklar kröfur um að auknu fé sé varið til ýmissa málaflokka. Má þar helst nefna málefni eldri borgara og heilbrigðiskerfið, þar sem stóraukin útgjöld í þessa málaflokka eru fyrst og fremst ástæða þess að ríkið er að „bólgna út”. Við þurfum í auknum mæli að horfa til þess hvernig fjármagni er varið. Þar má taka heilbrigðismálin sem dæmi. Þó svo að útgjöld til málaflokksins hafi stóraukist þá má velta því upp hvort við séum að nýta fjármagnið með réttum hætti. Það er ekki sjálfgefið að ríkið sé besti rekstraraðili heilbrigðiskerfisins þó það greiði fyrir það.”
– Svo eru það skattalækkanirnar!
„Já, það vill stundum gleymast í umræðunni að þar höfum við skilað árangri,“ segir Áslaug. „Tekjuskattur hefur verið lækkaður, auðlegðarskattur afnuminn, tryggingargjald lækkað og tollar og vörugjöld afnumin. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að verkefninu er hvergi nærri lokið og verður líkast til aldrei. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt sitt af mörkum með frumvörpum um lækkun erfðafjárskatts, afnám stimpilgjalda og fleira. Og við ætlum að lækka skatta enn frekar, s.s. bankaskatt og tryggingargjald, auk áframhaldandi lækkunar tekjuskatts,“ segir Áslaug.
Þórdís Kolbrún bætir við: „Allt stuðlar þetta að því að fólk ráði sjálft hvernig það ráðstafar ávöxtum erfiðis síns og um leið hefur það meira bolmagn til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, sem stuðlar aftur að meiri verðmætasköpun í samfélaginu til hagsbóta fyrir alla.“
– Að lokum, aftur að 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Hvað blæs ykkur anda í brjóst á þessum tímamótum?
„Það sem drífur mig hvað helst áfram er trúin á íslenskt samfélag, á samfélag sem getur verið yfirburða á svo marga vegu og á sama tíma hlúð að þeim sem þurfa á því að halda,“ segir Áslaug. „Trúin á framtaksmátt einstaklingsins og jöfn tækifæri. Verkefnið er að það standa vörð um grundvallarhugsjónir Sjálfstæðisflokksins, því með þeim höfum við náð árangri sem við erum öll stolt af. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur framfara og verður það áfram.“
„Ég horfi á samfélag sem stendur á sterkum grunni, er stútfullt af tækifærum og einstaklingum með mikinn sköpunarkraft, segir Þórdís Kolbrún. „Við þurfum að taka ákvarðanir um svo mörg þýðingarmikil mál eins og varðandi nýsköpun, umhverfis- og loftslagsmál, orkumál, opinber umsvif, alþjóðlegt samstarf og fleira. Við erum á réttri leið, þurfum að hreyfa okkur hraðar, hugsa stærra og vera óhrædd við framtíðina. Markmiðið sem ég brenn fyrir er að þær ákvarðanir verði áfram eins farsælar og þær hafa verið fram til þessa í hinu unga lýðveldi okkar.“
Viðtalið birtist í Auði, blaði sjálfstæðiskvenna 6. nóvember 2019. Blaðið má nálgast hér.