„Þurfum sífellt að minna á gildi frelsisins sjálfs“

„Það hefur í sjálfu sér margt áunnist sé horft á heildarmyndina. Sjónarmið hægri manna um frelsi hefur borið sigurorð af helsisstefnu kommúnista. Fyrirmyndaríkin eru þau þar sem mest efnahagslegt og félagslegt frelsi ríkir. Mönnum hættir hins vegar til þess að missa sjónar á þessum árangri,“ segir Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis og fyrrum dómsmálaráðherra spurð um helsta ávinninginn af baráttunni fyrir frelsi á síðustu áratugum í viðtali við Auði, blað sjálfstæðiskvenna.

Sigríður hefur alla tíð verið ötull merkisberi frelsis á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Síðan 1987 hefur Sigríður óslitið sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hvergi dregið af sér þegar kemur að baráttu fyrir minni ríkisafskiptum á fólk og fyrirtæki, lægri álögum og minni hömlum á milliríkjaverslun svo fátt eitt sé nefnt. Tíðindamaður Auðar ræddi við Sigríði um frelsi fyrr og nú og helstan árangur í þeim efnum.

Máttum ekki kaupa bjór

„Bara á minni ævi hefur orðið bylting frá sjónarhóli okkar sem höfum barist fyrir auknu frelsi.  Þegar ég hóf störf með Heimdalli, árið 1987, hafði einkaréttur ríkisins á útvarpsmarkaði verið afnuminn árið áður. Nokkrum árum áður hafði ríkið skammtað símasnúrur í skjóli einokunar á fjarskiptum. Við máttum ekki kaupa bjór og stofnun sem hafði eftirlit með verðlagi var enn að störfum. Barátta fyrir auknu frelsi í þessum efnum var borðleggjandi og augljós frelsismál nánast áþreifanleg,“ segir Sigríður.

Spurð að því hvað sé helst aðkallandi í stjórnmálunum í dag segir hún: „Við eigum enn nokkur slík óunninn eins og afnám einokunar ríkisins í verslun með áfengi og samkeppni ríkisins við einkaaðila á fjölmiðlamarkaði. Frelsið verður ofan á í þessum málum eins og hinum. Það er brýnt vinna að því í dag.“

Skattar ekki lengur bara tekjuöflun

Hún segir frelsismálin í dag hins vegar taka mið af því að atlaga ríkisins að einstaklingsfrelsi hafi tekið á sig nýjar myndir. „Þegar þessum stóru nánast áþreifanlegu málum sleppir leynist aðför að frelsinu í alls kyns dulargervi. Ríkisvaldið heggur að frelsi einstaklinga nú undir formerkjum umhverfismála, jafnréttisáætlana og eftirlitsiðnaðar. Það sem einna helst takmarkar frelsi einstaklinga eru skattar hins opinbera. Skattlagning er tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga og ekkert annað eða meira. Við hægri menn höfum það að leiðarljósi að hún sé gagnsæ, verði ekki úr hófi fram og ekki ómálefnaleg. Nú hafa mál hins vegar þróast með þeim hætti að síaukin aðför að frelsi manna er réttlætt ekki með vísan til nauðsynlegrar tekjuöflunar hins opinbera heldur með vísan til alls konar sjónarmiða í hinum og þessum málunum. Skattar eru farnir að verða tæki til að stýra hegðun manna, senda skilaboð eða bara af því bara. Það er brýnt að hægri menn átti sig á þessu og sporni gegn þessari þróun.“

Boð og bönn hafa ófyrirséðar afleiðingar

„Við stjórnmálamenn megum ekki gleyma að inngrip okkar og afskipti, boð og bönn, hafa nær alltaf ófyrirséðar afleiðingar. Fólk og fyrirtæki reyna að aðlaga sig reglunum með oft óvæntum hætti. Leiða húsaleigubætur til dæmis ekki til hækkunar á leiguverði? Rennur hluti vaxtabóta til fjármálastofnana sem hærri vextir en þær ella byðu íbúðakaupendum? Hér lagði vinstri stjórnin á kolefnisgjald á eldsneyti. En menn fá hins vegar ívilnun frá kolefnisgjaldinu þegar menn flytja inn svonefnt endurnýjanlegt eldsneyti, sem er skylda upp að vissu marki. Í stað þess að kolefnisgjaldið renni í ríkissjóð rennur það því til erlendra framleiðenda lífeldsneytis eins og pálmaolíu.  Nú vilja þingmenn sömu vinstri flokkanna banna innflutning á pálmaolíu því vinnsla hennar stuðli að eyðingu regnskóga, vinnuþrælkun og auknum gróðurhúsaáhrifum,“ segir Sigríður.

Hún nefnir urðunarskattsumræðuna og segir: „Svo á nú að leggja á urðunarskatt sem mun í einhverjum tilvikum ýta sorpi úr hagkvæmustu lausninni yfir í aðrar eins og til dæmis að flytja sorp til annarra landa. Hve umhverfisvænt það verður allt saman á algerlega eftir að koma í ljós. En svo mikið er víst að þessi nýi skattur á eftir að hafa einhverjar ófyrirséðar afleiðingar.“

Héldu fyrsta Skattadaginn

Talið berst að þátttöku Sigríðar í SUS og helstu baráttumálum þess tíma. „Fyrir utan þessi mál sem ég hef þegar nefnt þá náði ég í skottið á Kalda stríðinu sem var að renna sitt skeið þegar ég gekk í Heimdall. Múrinn var t.d. ekki fallinn. Við Heimdellingar létum okkur varða alþjóðastjórnmálin að þessu leyti. En aðallega vorum við jú að vekja athygli á nauðsyn þess að skattheimta sé hófleg. Árið 1995 hélt Heimdallur í fyrsta sinn upp á Skattadaginn sem við reiknuðum út að var sá dagur ársins sem menn hætta að vinna fyrir hið opinbera miðað við útgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðsu. Þessi dagur var jafnan um mánaðarmótin maí/júní. Hver skyldi hann vera núna?“

Nokkurs konar sjálfseyðing á ferðinni

„Það læðist stundum að mér sá grunur að hinn frjálsi markaður hafi bætt hag margra okkar svo stórkostlega að menn telji sig kannski hafa efni á smá sósíalisma hér og þar. Ef þetta er rétt tilfinning þá er þarna nokkurs konar sjálfseyðing á ferðinni og mikilvægt fyrir okkur að  minna sífellt á gildi frelsisins sjálfs, þennan náttúrlega rétt hvers manns að láta til sín taka, óháð því hvað frelsið færir okkur bætt lífskjör,“ segir Sigríður spurð að því hver séu helstu vonbrigðin í frelsisbaráttunni.

Stórmál fyrir efnaminna fólk og lítil fyrirtæki

„Maður sér stundum hjá stórfyrirtækjum og auðugu fólki að þeim þykir sjálfsagt að hækka skatta og herða regluverkið því þau hafa efni á að borga skattana og ráða sérfræðinga til að grautast í reglunum. Fyrir efnaminna fólk og lítil fyrirtæki eru skattahækkanir og fleiri og þyngri reglur hins vegar stórmál, að ekki sé minnst á þá sem eru að reyna að hasla sér völl á tilteknum markaði. Háir skattar og þungt regluverk hækka þröskulda inn á markað og draga úr samkeppni,“ segir Sigríður

Frjáls markaður ekki fullkominn en betri

En á frjálshyggjan enn við með sama hætti í dag og þegar Sigríður hóf afskipti af stjórnmálum? Og hverjar eru helstu ógnir hennar í dag?

„Já. Það er kannski ástæða til að hafa áhyggjur af því að menn misskilji boðskap okkar sem viljum til dæmis einkarekstur í stað ríkisrekstur. Við boðum ekki að einkarekstur verði fullkominn, ekki frekar en ríkisreksturinn. Það verða alltaf til illa rekin fyrirtæki, óheppin fyrirtæki og fyrirtæki með óraunhæfar væntingar um eftirspurn. Við megum ekki tala þannig að hinn frjálsi markaður sé fullkominn. Á frjálsum markaði fá þó svona fyrirtæki að fara hausinn og önnur koma í staðinn. Þetta er eitt það mikilvægasta í gangverki atvinnulífsins sem hið opinbera truflar með aðkomu sinni.“

Verðum alltaf að hafa eigin hagsmuni í fyrirrúmi

Sigríður er formaður utanríkismálanefndar Alþingis og talið berst að alþjóðasamvinnu okkar Íslendinga. Hún er spurð að því hvort alþjóðasamvinna ýti undir einstaklingsfrelsi eða takmarki mögulega rétt og friðhelgi borgaranna.

Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi frá upphafi haft frumkvæði að samvinnu við aðrar þjóðir á ýmsum sviðum. Í þessu samhengi nefnir hún varnarsamninginn við Bandaríkin, NATO, og fríverslunarsamninga.  EES-samningurinn er þeirra víðtækastur en hann er  miklu meira en bara fríverslunarsamningur.

„Á sama tíma og við eigum að leitast við að rækta samstarf af þessum toga verðum við líka að hafa í huga að fullveldi og sjálfstæði þjóðar getur rétt eins og frelsið glatast auðveldlega þótt það gerist ekki í einni svipan. Við verðum alltaf að hafa eigin hagsmuni í fyrirrúmi og hafa það að sérstöku markmiði að standa vörð um fullveldið og sjálfstæðið. Það er ekki eðli fríverslunarsamninga að kveða á um að annar samningsaðilinn þurfi að taka upp allar reglur hins. Áform Bandaríkjanna og ESB um fríverslun lýtur einmitt að sameiginlegri viðurkenningu reglna. Það er jákvæð þróun við gerð fríverslunarsamninga og nokkuð sem við eigum að hafa í huga við áframhaldandi þróun á EES samningnum,“ segir Sigríður að lokum.

Viðtalið birtist í Auði, blaði sjálfstæðiskvenna 6. nóvember 2019. Blaðið má nálgast hér.