Birgir Ármannsson alþingismaður:
Nú í nóvemberbyrjun er þess víða minnst að fyrir þremur áratugum urðu stóratburðir sem skóku heimsbyggðina og hafa haft afgerandi áhrif á stjórnmálaþróun, efnahagsleg samskipti, milliríkjatengsl og líf almennings í fjölmörgum löndum. Mestu breytingarnar hafa átt sér stað í löndum Mið- og Austur-Evrópu en áhrifanna gætir auðvitað miklu víðar.
Hrun alræðisstjórna kommúnista í austurhluta álfunnar, endalok kalda stríðsins og aðlögun þessara ríkja að lýðræði og markaðsskipulagi að vestrænni fyrirmynd hefur gerbreytt heimsmynd okkar, skapað ótal ný tækifæri en um leið fært okkur ný viðfangsefni, sem stundum hafa reynst flókin úrlausnar. Þótt þróunin hafi gengið misvel hjá einstökum ríkjum frá einum tíma til annars og margvísleg vandamál komið upp efast fáir um að þróunin hafi í öllum meginatriðum verið til góðs og að þær þjóðir sem áður bjuggu í „sæluríkjum sósíalismans“ austan járntjalds búi nú við miklu betri lífskjör, lýðræðisleg réttindi og frjálsræði heldur en nokkurn tímann hefði verið hugsanlegt að óbreyttu.
Haustið 1989
Atburðir haustsins 1989 áttu sér auðvitað talsverða forsögu, sem ekki verður rakin hér. Ýmis merki voru um að ríkisstjórnir kommúnista í Mið- og Austur-Evrópu væru að missa tökin og jafnframt um að stjórnvöld í Sovétríkjunum myndu ekki aðstoða þau við að berja niður andstöðu með hervaldi eins og ýmis dæmi voru um á áratugunum á undan. Mótmælahreyfingum var farinn að vaxa fiskur um hrygg og tilraunum fólks til að komast vestur fyrir járntjald fjölgaði.
Sumarið 1989 má segja að járntjaldið hafi farið að rofna á landamærum Ungverjalands og Austurríkis. Þegar komið var fram á haustið voru Austur-Þjóðverjar, sem máttu ferðast til Ungverjalands, farnir að streyma þessa leið í stórum stíl. Þegar ungversk stjórnvöld ætluðu að stöðva för Austur-Þjóðverjanna til landamæranna söfnuðust þeir þúsundum saman í Búdapest og reyndu að leita hælis í sendiráðum þar. Svipaðir hlutir gerðust á sama tíma í Tékkóslóvakíu. Mótmæli færðust mjög í aukana í Austur-Þýskalandi í september og október og stjórnvöld þar höfðu augljóslega enga stjórn á atburðarásinni. Þann 4. nóvember safnaðist hálf milljón manna saman á mótmælum á Alexanderplatz í Berlín og aðgerðir breiddust enn frekar út næstu daga, jafnt í Berlín sem öðrum stórborgum Austur-Þýskalands. Atburðirnir náðu svo hámarki að kvöldi 9. nóvember þegar landamærastöðvar í Berlín opnuðust, sennilega að einhverju leyti fyrir fum og fát æðstu valdamanna alþýðulýðveldisins og misskilning meðal stjórnenda landamæralögreglunnar. Flóðbylgja fólks sem vildi komast vestur varð ekki stöðvuð og almennir borgarar hófust handa við að brjóta niður múrinn sem hafði skilið að vestur- og austurhluta borgarinnar í áratugi.
Táknmynd kúgunar
Berlínarmúrinn var sýnilegasta tákn skiptingar Evrópu á tímum kalda stríðsins. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var Þýskalandi skipt milli austurs og vesturs; Vesturhlutinn varð Sambandslýðveldið Þýskaland sem tilheyrði vesturblokkinni og austurhlutinn varð Alþýðulýðveldið Þýskaland sem varð leppríki Sovétríkjanna. Berlín var einnig skipt og varð Vestur-Berlín nokkurs konar eyja í miðju Austur-Þýskalandi. Austur-Þjóðverjar bjuggu ekki við ferðafrelsi og voru miklar takmarkanir á möguleikum fólks til að fara á milli borgarhlutanna í Berlín. Margir íbúar austurhlutans lögðu þó mikið á sig til að komast vestur yfir og til að hindra það reistu austurþýsk stjórnvöld múr og margvíslegar aðrar landamærahindranir á mörkum borgarhlutanna árið 1961 til að stöðva fólksflóttann. Yfirvarp þeirra var að nauðsynlegt væri að reisa varnarmúr til að verjast ásælni og yfirgangi fasista í vestri. Múrinn var áhrifamikil leið til að hindra flótta fólks frá austri til vesturs. Margir reyndu engu að síður að komast yfir, og talið er að hátt í 200 manns hafi beðið bana í flóttatilraunum á þeim 28 árum sem múrinn stóð.
Ekki aftur snúið
Þegar fréttir bárust af atburðunum í Berlín þessa daga í nóvember 1989 varð öllum ljóst að ekki yrði aftur snúið. Bylgjur frelsis risu hærra í öllum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og ríkisstjórnir kommúnista, sem setið höfðu í skjóli Sovétríkjanna, féllu hver á fætur annarri. Þýskaland var sameinað að nýju ári síðar og jafnvel Sovétríkin sjálf leystust upp 1991. Það sem við tók var ekki fullkominn heimur eða þróun án vandamála, en engum á að dyljast að við tók miklu betra ástand en nokkur hafði látið sig dreyma um á dögum kalda stríðsins.
Þegar við minnumst þess að 30 ár eru liðin frá þessum viðburðum er okkur hollt að minnast þess að það frelsi og þau borgaralegu réttindi sem við búum við eru því miður hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Aðeins 30 ár eru frá því að hálf Evrópa bjó við stjórnarfar kúgunar, þar sem tjáningarfrelsi, fundafrelsi, ferðafrelsi, atvinnufrelsi og svo mörg önnur frelsisréttindi voru fótum troðin. Það er viðvarandi viðfangsefni – og um leið skylda okkar – að varðveita þessi réttindi og um leið að standa vörð um það þjóðskipulag sem tryggir þau best.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. nóvember 2019.