Rukkað í Reykjavík
'}}

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Til að borgin okkar sé samkeppnishæf þarf hún að gæta hófs í sköttum og gjaldtöku. Því fer fjarri í dag. Reykjavík er með hæsta útsvarið á höfuðborgarsvæðinu öllu. Tekur meira af laununum en ríkið. Hér hafa fasteignagjöld hækkað gríðarlega. Nú síðast um 17% af atvinnuhúsnæði. Ný gjöld hafa sprottið upp og er nú rukkað fyrir minnstu afnot af borgarlandinu. Það er meira að segja rukkað fyrir spurningar til borgarkerfisins. „Innviðagjöld“ tekin af þeim sem vilja byggja íbúðir.

Á síðustu árum hefur afar lítill hluti fjármagns til vegamála skilað sér til Reykjavíkur. Skammarlega lítið. Þetta gerist þótt íbúar borgarinnar hafi greitt sitt með eldsneytissköttum sem ætlaðir eru til vegaframkvæmda og viðhalds. Þeir hafa ekki skilað sér í framkvæmdir. Nú þegar glittir í að sjálfskipuðu framkvæmdastoppi borgarstjórnar verði aflétt verðum við að gæta þess að borgarbúar fái ekki bakreikning. Sjálfsagt er að sérstakar framkvæmdir eins og Hvalfjarðargöngin séu fjármagnaðar með veggjöldum. Jafnframt er ekki nema eðlilegt að orkuskiptin leiði til breyttrar gjaldtöku. En það þarf að passa að borgarbúar séu ekki tvírukkaðir. Hindra tvísköttun. Það þarf að gæta jafnræðis við aðra íbúa landsins.

Kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í borgarstjórn og á Alþingi eiga að gæta hagsmuna borgarbúa. Það er því ekki að ástæðulausu að við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins stöldrum við þegar ekki er búið að útfæra hvernig á að afla 60 milljarða með sérstökum veggjöldum. Það er ekki síður ástæða til að spyrja hver eigi að greiða umframkostnað af 120 milljarða samgöngupakkanum. Það skiptir líka máli. Vaðlaheiðargöng, Landeyjahöfn, Sorpa og Bragginn eiga það sameiginlegt að hafa farið vel fram úr áætlunum. Við þurfum að gæta þess að framúrkeyrsla skili sér ekki með rukkun til borgarbúa. Til viðbótar við allt hitt. Það er kominn tími til að kjörnir fulltrúar sýni ráðdeild. Og gæti hagsmuna borgarbúa. Nóg er rukkað í Reykjavík.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. október 2019.