Tekjuskattslækkunin sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs samsvarar 10% af tekjum ríkisins af tekjum einstaklinga. Hún léttir til muna skattbyrði lág- og millitekjuhópa og eykur ráðstöfunartekjur þeirra. Þá stuðlar skattalækkunin að efnahagslegum stöðugleika vegna tímsetningarinnar í hagsveiflunni og léttir undir með einkaneyslu þegar dregur dregur saman. Lækkun tekjuskatts kemur í tveimur skrefum á næstu tveimur árum en árið 2021 mun einstaklingur með 367 þúsund króna mánaðarlaun greiða 125 þúsund krónum minna í skatt á ári.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir fjárlagafrumvarpinu á Alþingi í dag. Í ræðu hans benti hann á að lækkun skatta á einstaklinga hafi verið forgansmál stjórnvalda, en á tímabilinu 2014 til 2018 voru skattar lækkaðir um nærri 25 milljarða króna á ársgrundvelli og ráðstöfunartekjur jukust í kjölfarið. Nýleg úttekt á kaupmætti meðallauna sýndi að árið 2018 var kaupmáttur meðal OECD-ríkjanna hvergi meiri en á Íslandi.
Tryggingagjald lækkað um átta milljarða á tveimur árum
Einnig kemur til framkvæmdar síðari hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds um áramót, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019. Lækkun tryggingagjaldsins styrkir augljóslega rekstrargrundvöll og samkeppnishæfni fyrirtækja og styður almennt við vinnumarkaðinn, ekki síst fyrir smærri fyrirtæki með há launahlutföll. Lægra tryggingagjald dregur þannig úr hættu á enn meira atvinnuleysi en nú er spáð. Alls nemur lækkun beggja áfanga átta milljarða króna skattalækkun.
Fjárlagafrumvarpið endurspeglar markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn skammvinnri niðursveiflu í hagkerfinu. Fjárhagslegur styrkur ríkissjóðs er afleiðing þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár og leiðir hann til þess að unnt er að halda áfram uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins.
Ríkissjóður hefur verið rekinn með góðum afgangi á toppi hagsveiflunnar og skuldir lækkaðar er nú mögulegt að mæta þeim aðstæðum sem hafa skapast án þess að hefja skuldasöfnun og fara í niðurskurðaraðgerðir. Skuldir hafa lækkað úr 1.501 ma. kr. þegar mest var í lok árs 2012 niður í 892 ma. kr. í lok þessa árs. Það hefur nú komið í ljós hversu miklu máli hefur skipt að nýta góðu árin til að búa í haginn fyrir magrari ár.
Afgangur ríkissjóðs viðlíka og árin 2004 og 2013
Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist um 56 milljarða milli ára, en tekjur um 27 milljarða. Þrátt fyrir þetta verður frumjöfnuður ársins jákvæður um 1,6% og heildarafkoma jákvæð um 400 milljónir. Afgangur á frumjöfnuði ríkissjóðs hefur aldrei verið jákvæður þegar hagvöxtur er undir 1,5 prósenti sem telst til tíðinda. Þá má nefna að afgangurinn árin 2019 og 2020 er viðlíka og árin 2004 og 2013, þegar hagvöxtur mældist annars vegar 8,0% og hins vegar 4,1%.
Í fjárlögum næsta árs munu framlög til lykilmálaflokka halda áfram að aukast. Í því endurspeglast sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um mikilvæga uppbyggingu innviða og þjónustu ríkisins. Framlög verða stóraukin til opinberra framkvæmda til að vega upp á móti minnkandi atvinnuvegafjárfestingu og er það liður í aðgerðum til að milda áhrif niðursveiflunnar.
Gert ráð fyrir að aukin opinber fjárfesting skapi 600 störf fram til ársins 2021
Hlutfallsleg útgjaldaaukning hefur verið mest í samgöngu- og fjarskiptamálum á kjörtímabilinu, 25% að raungildi. Alls munu framlög til fjárfestinga nema ríflega 78 milljörðum kr. og hafa þau aukist um 27 milljarða að raungildi frá árinu 2017. Gert er ráð fyrir að aukin opinber fjárfesting á árinu 2020 muni m.a. skapa um 600 störf fram til ársins 2021.
Þá eru velferðar- og heilbrigðismál einnig í forgrunni í frumvarpinu. Í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um aðgerðir til stuðnings samningunum. Heildarumfang boðaðra aðgerða á tímabili samninganna er áætlað í kringum 80 milljarðar kr. en áhrif aðgerðanna á árinu 2020 munu nema ríflega 16 milljörðum. Auk breytinga á tekjuskattskerfinu fela aðgerðir ríkisins í sér lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur og fjölmargar aðgerðir til að auðvelda íbúðarkaup. Flestar þessara aðgerða koma til framkvæmda á næsta ári. Áætlað er að útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála muni aukast um 8%, þ.e. 18 milljarða kr., en aukið atvinnuleysi kallar einnig á aukin framlög frá ríkinu. Framlög til heilbrigðismála halda áfram að vaxa og hækka milli ára um 5%, um 12 milljarða kr.