Brynjar Níelsson alþingismaður:
Opinber umræða um þriðja orkupakkann hefur að stærstum hluta til snúist um skyldur okkar samfara innleiðingu hans. Því hefur verið haldið fram að íslenska ríkinu verði gert skylt að liðka fyrir og heimila lagningu sæstrengs til landsins. Margsinnis hefur verið bent á af okkar helstu sérfræðingum í Evrópurétti að það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem skyldar ríki EES og ESB til að tengjast innri markaði ESB með beinni tengingu, þ.e. að leggja raflínur og önnur flutningsmannvirki þannig að hægt sé að stunda milliríkjaviðskipti með raforku. Hins vegar gerir EES-samningurinn ráð fyrir því að ríkin geti tengst innri markaði ESB með raforku og hefur gert það frá upphafi án þess að nokkur hafi krafist að ríkin gerðu slíkt eða talið að þeim væri það skylt. Ákveðum við hins vegar að tengjast innri raforkumarkaðnum er ekkert óeðlilegt að um það gildi samræmdar reglur og að sameiginlegar stofnanir, sem byggjast á tveggja stoða kerfinu, úrskurði um ágreining sem kann að koma upp. Það hefur ekkert með fullveldisafsal að gera heldur er hluti af samningi fullvalda ríkja.
Á meðan við ákveðum ekki sjálf að tengjast innri raforkumarkaðnum með beinni tengingu eiga ákvæði þriðja orkupakkans, sem varða slík millilandaviðskipti, ekki við hér á landi. Önnur ákvæði þriðja orkupakkans sem eiga hér við eru hugsuð til hagsbóta fyrir neytendur og eiga að stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila. Þær breytingar eru þó óverulegar.
Afleiðing af innleiðingu þriðja orkupakkans
Mikilvægt er fyrir fríverslun að regluverk innri markaðarins sé samræmt. Þegar framleiðsluvara þarf að uppfylla mismunandi skilyrði eftir löndum verður til óþarfa kostnaður og á endanum greiða neytendur fyrir óhagræðið í hærra vöruverði. Í samræmdu regluverki utan um viðskiptin felast raunveruleg verðmæti fyrir neytendur og atvinnulífið. Slíkt samræmist vel stefnu Sjálfstæðisflokksins enda flokkurinn talað alla tíð fyrir aukinni hagkvæmni, frjálsum viðskiptum, afnámi tolla, vörugjalda og annarra hindrana á vöruskiptum til og frá landinu.
Innleiðing á þriðja orkupakkanum breytir ekki þeirri staðreynd að Ísland er með einangrað raforkukerfi. Þar að auki er innleiðing þriðja orkupakkans gerð með þeim fyrirvara að samþykki Alþingis þarf til að millilandatenging með raforku verði að veruleika. Þessi fyrirvari er gerður til að taka af öll tvímæli um að með innleiðingu þriðja orkupakkans felist einhvers konar skylda til að heimila lagningu sæstrengs í lögsögu okkar. Ef ESB, ESA eða EFTA-dómstóllinn líta svo á, sem ekkert bendir til, að í þriðja orkupakkanum felist slík skylda getur niðurstaðan ekki orðið önnur en sú að við hefðum ekki innleitt hann með réttum hætti. Þá erum við komin á byrjunarreit aftur og enginn skaði skeður.
Stefna til framtíðar í raforkumálum
Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægast að móta skýra framtíðarstefnu í raforkumálum og það tengist þriðja orkupakkanum ekki beint, enda í okkar höndum. Kannski er öllum ekki kunnugt um að í ráðuneyti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarmála er slík vinna þegar hafin. Stefnumótun í þeim efnum þarf að vera opin og gagnsæ því auðlindin skiptir okkur öll máli. Hún þarf að horfa til allra samfélagsþátta og mæta þörfum almennings. Hún þarf einnig að mæta vexti og þróun samfélagsins á næstu árum og áratugum og taka mið af vilja og markmiðum okkar í loftslagsmálum og þeim miklu tækninýjungum sem eru að eiga sér stað.
Þótt erfitt sé að sjá langt fram í tímann er nokkuð ljóst að í nánustu framtíð erum við ekki að tengjast innri raforkumarkaðnum með sæstreng. Svo erum við nokkuð sammála um að sú orka sem til er verði nýtt áfram til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi. Þar eru miklir möguleikar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. ágúst 2019.