Geir H. Haarde hóf í dag störf hjá Alþjóðabankanum
'}}

Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi sendiherra Íslands í Washington, tók í dag við stöðu aðalfulltrúa kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Geir mun stýra skrifstofu kjördæmisins í höfuðstöðvum bankans í Washington til næstu tveggja ára og situr í 25 manna stjórn bankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

„Alþjóðabankinn er stærsta þróunarsamvinnustofnun í heiminum og aðalfulltrúinn gegnir umfangsmiklu samræmingarstarfi kjördæmisins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Hann segir Alþjóðabankann lengi hafa veirð eina helstu samstarfsstofnun okkar Íslendinga í þróunarmálum og að á síðustu málum hafi okkur tekist að koma íslenskri sérþekkingu á framfæri í verkferlum bankans - sérstaklega á sviði jarðhita, fiskveiða og jafnréttis- og mannréttindamála.

Á vefsíðu ráðuneytisins segir: „Næstu tvö árin kemur í hlut Íslands að halda utan um samstarf kjördæmislandanna og samskipti við skrifstofu kjördæmisins og höfuðborgir landanna, en sérstök deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins sinnir verkefninu með sjónarmið allra þjóðanna átta að leiðarljósi.“

Þar kemur einnig fram að Alþjóðabankinn hafi á árinu 2017 veitt lán og fjárveitingar til verkefna að upphæð 67 milljarða Bandaríkjadala, um sé að ræða 13.730 verkefni í alls 174 þjóðríkjum.