Samviskugarður fyrir meiri lífsgæði
'}}

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Flugviskubit, akstursviskubit og annað samviskubit gerir vart við sig hjá mér eins og fleirum þegar rætt er um hlýnun jarðar og kolefnisjöfnun. Mér finnst umræðan þörf og góð vill endilega taka þátt í verndun umhverfisins og jafna út þau kolefnisspor sem ég skil eftir mig.

Ég vil gjarnan gróðursetja trjáplöntur og jafna út á næstu árum kolefnissporin mín og fjölskyldu minnar. En hvernig ætti ég að fara að því og hvernig ættum við öll að taka saman höndum og kolefnisjafna sporin okkar og fegra umhverfið í leiðinni.

Ég vildi varpa fram þeirri hugmynd að sveitarfélögin okkar á Suðurlandi skipuleggi svæði fyrir samviskubit okkar svokallaða Samviskugarða. Þar gætu þeir íbúar sem vildu jafna kolefnissporin sín gróðursett tré á skipulögðum svæðum innan sveitarfélagana á opnum svæðum og í nánasta umhverfi þeirra. Ég held að mjög margir vildu taka þannig beinan þátt í að fegra umhverfið og jafna kolefnissporið sem við skiljum eftir okkur. Það er mikilvægt að við hvert og eitt verðum þannig virkir þátttakendur í bættu umhverfi og líðan.

Þegar ég var bæjarstjóri í Garðinum fékk ég þá flugu í höfuðið að gróðursetja skjólbelti á þrjá vegu um bæjarkjarnann. Hugmyndina fékk ég þegar ég hafði skoðað 60 km af skjólgörðum í landnámi Gunnarsholts á Rangárvöllum. Þegar hægt er að græða landið eins og þar var gert og rækta upp skjólbelti í nánast svartan sandinn þá getum við það líka á Suðurnesjum. Reyndar sagði Sveinn Runólfsson þáverandi landgræðslustjóri mér að slíkt verkefni væri algjörlega gerlegt en tæki auðvitað nokkur ár. Nú er tækifærið að skipuleggja slík gróðurbelti sem kolefnisjafna sporin okkar, fegra umhverfið, auka lífsgæði, minnkar vind og hækkar hitann á jákvæðan umhverfislegan hátt.

Ef við tökum málið lengra gætu fyrirtækin lagt slíku verkefni lið með því að kosta kolefnisjöfnun sína og fela vinnuskólum barna og unglinga að sjá um gróðursetningu á hverju ári. Á móti gæti ég séð fyrir mér að kostnaður fyrirtækjanna gæti orðið frádráttarbær frá kolefnisgjaldi sem fyrirtækin greiða með eldsneytissköttum sínum. Á því mundi samfélagið græða en umhverfið mest.

Greinin birtist fyrst á eyjar.net 6. júní 2019.