Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:
Brátt verða fjögur ár liðin frá því að stjórnvöld í Rússlandi settu innflutningsbann á íslenska matvöru út af þátttöku í afmörkuðum þvingunaraðgerðum vegna Úkraínudeilunnar og brota á alþjóðalögum sem skipta okkur miklu. Bannið hafði í för með sér mikinn samdrátt á útflutningi til Rússlands enda mun umfangsmeira en aðgerðirnar sem Ísland tekur þátt í.
Stundum er sagt að þegar einar dyr lokist opnist aðrar. Þannig hafa ný markaðstækifæri opnast í Rússlandi, ekki síst vegna sívaxandi fjárfestinga Rússa í landbúnaði og sjávarútvegi – meðal annars vegna þess að lokað var fyrir innflutning á vestrænum matvælum!
Það er ánægjulegt að tækifærin eru á sviði nýsköpunar og hátækni, atvinnuvega sem íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að byggja upp til framtíðar. Íslensk þekkingarfyrirtæki sem framleiða búnað fyrir matvælavinnslu og fiskveiðar hasla sér nú völl í Rússlandi. Nú þegar hafa nokkur gert eða eru við það að ganga frá milljarðasamningum um sölu á tækni og búnaði til nýrra skipa eða vinnslu í landi.
Tækifæri eru líka á sviði landbúnaðar. Þótt íslensk mjólk komi reyndar hvergi nærri hófu íslenskir aðilar nýverið í gegnum samstarfssamning við rússnesk mjólkurbú skyrframleiðslu eftir íslenskri uppskrift.
Til marks um gagnkvæman áhuga á viðskiptum þjóðanna má svo nefna að nýverið fóru annars vegar fram stofnfundur Rússnesks-íslensks viðskiptaráðs og hins vegar fundur Íslandsstofu með rússneskum og íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Rússneskt flugfélag býður nú upp á beint flug á milli landanna yfir sumarmánuðina.
Síðast en ekki síst skiptir miklu að þótt íslensk og rússnesk stjórnvöld greini á um ýmislegt fara samskiptin batnandi. Forsetar landanna hittust fyrr á árinu og í maí, þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu, átti ég fund með utanríkisráðherra Rússlands, þar sem gott samstarf á vettvangi norðurslóða var undirstrikað.
Í dag – á þjóðhátíðardegi Rússlands – er því gott að muna að þrátt fyrir allt eiga Rússland og Ísland langa sögu góðra samskipta á mörgum sviðum, ekki síst milliríkjaviðskipta. Að þessu sambandi vil ég áfram hlúa.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2019.