Bjarni mælti fyrir breyttri fjármálastefnu: Sterk staða ríkissjóðs

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir breyttri fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022 á Alþingi í dag. Breytt fjármálastefna felur í sér að dregið verður úr áformuðum afgangi á heildarafkomu hins opinbera í samræmi við breyttar efnahagshorfum sem fram koma í nýjum hagspám og fela í sér röskun á forsendum gildandi stefnu. Þar vegur þyngst fækkun ferðamanna, svo sem vegna gjaldþrots WOW air og aflabrestur í loðnu.

Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum árum og af þeim sökum, sem og vegna samfellds afgangs ríkisfjármála á undanförnum árum, er þjóðarbúið vel í stakk búið til að takast á við tómabundinn samdrátt í hagkerfinu, en breyttar horfur fela í sér allt að 35 milljarða króna verri afkomu ríkissjóðs árin 2019 og 2020 sé ekki gripið til mótvægisaðgerða.

Skuldir ríkissjóðs náðu hámarki 1.501 ma. króna árið 2012 en stóðu í 841 ma. kr. í lok síðasta árs. Skuldalækkunina má rekja til fjármálastefnunnar sem hefur verið rekin allt frá því að skuldasöfnun ríkissjóðs var stöðvuð og loks snúið við eftir hrun fjármálakerfisins, þar sem lögð hefur verið áhersla á stefnufestu og aga í ríkisfjármálum. Auk viðsnúnings í rekstri og afkomu ríkissjóðs fólust mikilvægir áfangar í lækkun skulda í skilyrtri ráðstöfun stöðugleikaframlaga og annarra óreglulegra tekna.

Í aðdraganda fjármálakreppunnar var sparnaður íslenskra heimila tiltölulega lítill og þjóðhagslegur sparnaður, þ.e. heildarsparnaður heimila, fyrirtækja og hins opinbera, var orðinn sögulega lágur. Staðan nú er önnur þar sem heimilin og þjóðarbúið í heild hafa smám saman aukið sparnað sinn þrátt fyrir kröftugan útgjaldavöxt undanfarinna ára. Þetta, ásamt stórbættri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja, gerir það að verkum að þjóðarbúið er mun betur í stakk búið til að takast á við efnahagsáföll en það var fyrir áratug.

Uppsafnaður viðskiptaafgangur íslenska þjóðarbúsins síðan árið 2013 er nú orðinn 715 milljarðar króna. Síðan árið 2013 hefur viðskiptaafgangur að meðaltali numið 4,8% af landsframleiðslu. Í lok árs 2015 var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 5% af landsframleiðslu, en á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs var hún orðin jákvæð um 597 milljarða króna eða sem nemur 21% af landsframleiðslu.