Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Í fyrsta sinn í áratugi voru húsnæðismálin sett á oddinn í kjaraviðræðum. Það segir nokkuð. Þéttingarstefnan í Reykjavík hefur leitt af sér skort og húsnæðisverð hefur hækkað um hundrað prósent á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur kjörtímabilum undir stjórn Samfylkingarinnar. Leiguverð hefur óhjákvæmilega fylgt þessari þróun og er nú svo komið að leiguverð í Reykjavík er hærra en í höfuðborgum Norðurlandanna; Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki. Leiguverðið í Reykjavík er reyndar hæst meðal höfuðborganna bæði í miðborg og utan miðborgarinnar. Hvort sem horft er til tveggja eða fjögurra herbergja íbúða. Þetta var ekki það sem var boðað. Tvöfalt fleiri búa í foreldrahúsum á aldrinum 20-24 ára en í hinum ríkjum Norðurlandanna. Öðru var lofað.
Snúum þessu við
Samfylkingin lofaði uppbyggingu á hagstæðu húsnæði í þúsundavís „fyrir svona venjulegt fólk“, eins og Dagur B. Eggertsson orðaði það. Það sem hefur verið byggt undir hans stjórn eru fyrst og fremst dýrar íbúðir sem eru einmitt ekki á færi „venjulegs fólk“. Fólk hefur því þurft að fara annað. Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins er meiri fjölgun á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Fjölgun í Reykjavík hefur verið tæplega 1% á ári á þessum átta árum sem er langt undir landsmeðaltali. Fjölgun í Reykjavík var að jafnaði 3% á ári síðustu hundrað árin og því vekur furðu hvernig tókst að missa af lengsta hagvaxtarskeiði landsins. Það er því með engu móti hægt að kenna fjölgun íbúa um verðhækkanirnar. Nei, ástæðan er einföld. Skortur á hagstæðu húsnæði hefur valdið þessum verðhækkunum og jafnframt flutningi fólks út úr borginni. Og þessi þróun hefur þyngt umferðina enn frekar. Í tengslum við kjarasamningana var niðurstaða húsnæðishóps að byggja ætti upp hagstætt húsnæði við Keldur. Það er einmitt eitt af því sem við lögðum til fyrir kosningar, en jafnframt er þar kjörsvæði fyrir stofnanir og fyrirtæki. Undanfarið höfum við séð Íslandsbanka og sýslumannsembættið í Reykjavík flytja í Kópavog. Nú í síðasta mánuði flutti Tryggingastofnun frá Hlemmi í Kópavog. Björgun lokar að óbreyttu um næstu mánaðamót með tilheyrandi kostnaðarhækkunum fyrir húsbyggjendur. Lítið er um skipulagðar lóðir sem henta þessum og öðrum aðilum. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa lagt til að Reykjavík leiði vinnu við staðarval fyrir framtíðaruppbyggingu spítala ásamt fagaðilum. Sú vinna þarf að fara af stað strax. Uppbygging á Landspítalalóð þyngir umferð og svo er Landsbankinn að byggja höfuðstöðvar við Hörpu. Sú stefna að bæta við atvinnustarfsemi í vesturhluta borgarinnar þyngir umferðina enn frekar. Uppbygging á Keldum án skilyrða um önnur verkefni er lykill að hagstæðu húsnæði og léttari umferð. Við eigum ekki að eiga Norðurlandamet í leiguverði húsnæðis. Hvað þá að rúmlega hundrað þúsund manna borg skuli takast að skapa umferðartafir á við milljónaborg. Ekkert af þessu er náttúrulögmál. Allt eru þetta mannanna verk.
Birtist Morgunblaðinu 20. maí 2019