Mannanna verk
'}}

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Í fyrsta sinn í ára­tugi voru hús­næðismál­in sett á odd­inn í kjaraviðræðum. Það seg­ir nokkuð. Þétt­ing­ar­stefn­an í Reykja­vík hef­ur leitt af sér skort og hús­næðis­verð hef­ur hækkað um hundrað pró­sent á höfuðborg­ar­svæðinu á síðustu tveim­ur kjör­tíma­bil­um und­ir stjórn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Leigu­verð hef­ur óhjá­kvæmi­lega fylgt þess­ari þróun og er nú svo komið að leigu­verð í Reykja­vík er hærra en í höfuðborg­um Norður­land­anna; Osló, Kaup­manna­höfn, Stokk­hólmi og Helsinki. Leigu­verðið í Reykja­vík er reynd­ar hæst meðal höfuðborg­anna bæði í miðborg og utan miðborg­ar­inn­ar. Hvort sem horft er til tveggja eða fjög­urra her­bergja íbúða. Þetta var ekki það sem var boðað. Tvö­falt fleiri búa í for­eldra­hús­um á aldr­in­um 20-24 ára en í hinum ríkj­um Norður­land­anna. Öðru var lofað.

Snú­um þessu við

Sam­fylk­ing­in lofaði upp­bygg­ingu á hag­stæðu hús­næði í þúsunda­vís „fyr­ir svona venju­legt fólk“, eins og Dag­ur B. Eggerts­son orðaði það. Það sem hef­ur verið byggt und­ir hans stjórn eru fyrst og fremst dýr­ar íbúðir sem eru ein­mitt ekki á færi „venju­legs fólk“. Fólk hef­ur því þurft að fara annað. Í fyrsta sinn frá stofn­un lýðveld­is­ins er meiri fjölg­un á lands­byggðinni en höfuðborg­ar­svæðinu. Fjölg­un í Reykja­vík hef­ur verið tæp­lega 1% á ári á þess­um átta árum sem er langt und­ir landsmeðaltali. Fjölg­un í Reykja­vík var að jafnaði 3% á ári síðustu hundrað árin og því vek­ur furðu hvernig tókst að missa af lengsta hag­vaxt­ar­skeiði lands­ins. Það er því með engu móti hægt að kenna fjölg­un íbúa um verðhækk­an­irn­ar. Nei, ástæðan er ein­föld. Skort­ur á hag­stæðu hús­næði hef­ur valdið þess­um verðhækk­un­um og jafn­framt flutn­ingi fólks út úr borg­inni. Og þessi þróun hef­ur þyngt um­ferðina enn frek­ar. Í tengsl­um við kjara­samn­ing­ana var niðurstaða hús­næðis­hóps að byggja ætti upp hag­stætt hús­næði við Keld­ur. Það er ein­mitt eitt af því sem við lögðum til fyr­ir kosn­ing­ar, en jafn­framt er þar kjör­svæði fyr­ir stofn­an­ir og fyr­ir­tæki. Und­an­farið höf­um við séð Íslands­banka og sýslu­mann­sembættið í Reykja­vík flytja í Kópa­vog. Nú í síðasta mánuði flutti Trygg­inga­stofn­un frá Hlemmi í Kópa­vog. Björg­un lok­ar að óbreyttu um næstu mánaðamót með til­heyr­andi kostnaðar­hækk­un­um fyr­ir húsbyggjendur. Lítið er um skipu­lagðar lóðir sem henta þess­um og öðrum aðilum. Sjálf­stæðis­menn í borg­ar­stjórn hafa lagt til að Reykja­vík leiði vinnu við staðar­val fyr­ir framtíðar­upp­bygg­ingu spít­ala ásamt fagaðilum. Sú vinna þarf að fara af stað strax. Upp­bygg­ing á Land­spít­ala­lóð þyng­ir um­ferð og svo er Lands­bank­inn að byggja höfuðstöðvar við Hörpu. Sú stefna að bæta við at­vinnu­starf­semi í vest­ur­hluta borg­ar­inn­ar þyng­ir um­ferðina enn frek­ar. Upp­bygg­ing á Keld­um án skil­yrða um önn­ur verk­efni er lyk­ill að hag­stæðu hús­næði og létt­ari um­ferð. Við eig­um ekki að eiga Norður­landa­met í leigu­verði hús­næðis. Hvað þá að rúm­lega hundrað þúsund manna borg skuli tak­ast að skapa um­ferðartaf­ir á við millj­óna­borg. Ekk­ert af þessu er nátt­úru­lög­mál. Allt eru þetta mann­anna verk.

Birtist Morgunblaðinu 20. maí 2019