Halldór Blöndal endurkjörinn formaður SES

Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis hefur verið endurkjörinn formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna en aðalfundur SES fór fram miðvikudaginn 8. maí síðastliðinn. Halldór hefur setið sem formaður SES síðan árið 2009.

Ásamt Halldóri voru þau Björg Þórðardóttir, Hallfríður Bjarnadóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Finnbogi Björnsson, Guðrún Bjarnadóttir, Leifur A. Ísaksson, Anna Þorgrímsdóttir og Guðjón Guðmundsson kjörin í stjórn.

Í varastjórn kjörin þau Drífa Hjartardóttir, Hilmar Guðlaugsson, Hafsteinn Valsson, Jóhann Birgisson, Stefán Runólfsson, Guðfinnur Halldórsson, Ingibjörg H Sverrisdóttir, Magni Kristjánsson og Þór Guðmundsson.

 

Ályktun aðalfundar  SES 8. maí 2019.

Aðalfundur SES, Samtaka eldri Sjálfstæðismanna, haldinn í Valhöll 8. maí 2019 fagnar því að samningar til langs tíma skuli hafa tekist á hinum almenna vinnumarkaði með aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Yfirskrift þessara samninga er „Lífskjarasamningurinn 2019-2022“ og snýst um fjórþætta lausn: Hærri laun, einkum lágtekjuhópa, aukinn sveigjanleika til að stytta vinnuvikuna, lægri skatta, sérstaklega þeirra sem hafa minnstar tekjurnar, og leiðir til að skapa jarðveg fyrir lægri vexti til framtíðar.  Samningarnir byggja undir áframhaldandi efahagslegan stöðugleika, sem hefur skýrst af sterkri stjórn ríkisfjármála og endurreisn og uppgangi atvinnulífsins.

 

Aðalfundur SES leggur áherslu á eftirfarandi í baráttu aldraðra til betri kjara:

  1. Fjármagnstekjuskattur, sem kemur einna harðast niður á eldri borgurum, verði lækkaður í 10%.
  2. 45% skerðingarprósenta almannatrygginga vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum verði lækkuð í 30%.
  3. Hið almenna frítekjumark verði hækkað úr 25 þús. kr. upp í 50 þús kr. á mánuði. Atvinnutekjur að 150 þús. kr. á mánuði skerði ekki greiðslur frá almannatryggingum.
  4. Reglur um sveigjanleg starfslok verði endurskoðaðar og ákvæði laga um hámarksaldur opinberra starfsmanna felld úr gildi en samið um tilhögun starfsloka í kjarasamningum.
  5. Lögum um almannatryggingar verði breytt á þann veg, að aldraðir geti selt eða leigt eignir sínar án þess að andvirði þeirra skerði greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það felur í sér að þeir greiði skatta og skyldur af eignasölunni en verður ekki íþyngt umfram aðra þegna þjóðfélagins.
  6. Öldruðum verði tryggð nauðsynleg tannheilbrigðisþjónusta þeim að kostnaðarlausu.
  7. Kostnaður vegna kaupa á heyrnartækjum aldraðra getur orðið verulegur. Því verður að mæta með því að hækka framlög frá Sjúkratryggingum Íslands. Allir eiga rétt á að fá heyrnartæki sem hentar hverjum og einum.
  8. Gerð verði úttekt á hagkvæmni þess að Landspítalinn í Fossvogi verði miðstöð öldrunarlækninga, þegar almenn starfsemi Landspítalans í Fossvogi flytur á Hringbraut. Öldruðum fjölgar ár frá ári og þörfin fyrir umönnun og þjónustu vex í samræmi við það. Mikilsvert er að Reykjavíkurborg taki tillit til þess í deiliskipulagi og þrengi ekki svo að spítalanum að það standi í vegi fyrir eðlilegri framþróun og uppbyggingu þessarar þjónustu.
  9. Málefni aldraðra og öryrkja verði aðgreind sem tveir aðskildir málaflokkar.

Aðalfundur SES fagnar því, að nýtt sjúkrahótel hefur verið tekið í notkun og að fullur     skriður er kominn á byggingu nýs Landspítala.

Brýnt er að huga að því, hvernig unnt sé að víkka út heilbrigðisþjónustuna og nýta samhliða kosti einkaframtaksins. Of lengi hefur dregist að marka skýra stefnu  í heilbrigðismálum og skilgreina hver staða einkaframtaksins skuli vera. Þessi vöntun á skýrri stefnumörkun og verkaskiptingu hefur kostað hið opinbera og skattgreiðendur stórfé og í of  mörgum tilvikum valdið því að óheyrilegur dráttur hefur orðið á því að viðkomandi hafi fengið  bót meina sinna. Um þetta höfum við átakanleg dæmi þessa dagana.

Settar hafa verið fram hugmyndir um að  stofna Heilbrigðis- og líftækniklasa  með þátttöku fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem lið í að efla enn frekar samstarf og atvinnusköpun á heilbrigðissviði og til aukinna útflutningstekna. Slíkur klasi yrði grunnur nýsköpunar og samlegðar í þessari mikilvægu grein.

Aðalfundur SES leggur sem fyrr áherslu á rétt aldraðra sem allra landsmanna til þess að njóta bestu fáanlegrar heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag. Í því felst, að hver einstaklingur fái þjónustu eftir þörfum og óskum. Mikil fjölgun aldraðra á komandi árum kallar á fleiri úrræði eins og skilgreindar öryggis- og þjónustuíbúðir.

Aðalfundur SES  skorar á heilbrigðisráðherra að ljúka samningum við hjúkrunarheimili vegna þjónustu við eldri borgara sem þar búa. Fundurinn telur það ótækt að tugir milljarða skuli greiddir úr ríkissjóði vegna þessa þjónustuþáttar án þess að samningar aðila á milli hafi verið gerðir.  Þá átelur fundurinn það daggjaldafyrirkomulag sem nú er, að öllum öldruðum íbúum hjúkrunarheimila sé gert skylt að greiða samu daggjald hvort sem dvalið er í 40 fermetra einsmannsherbergi eða þar sem þrír dvelja í 30 fermetra herbergi.

Eðlilegt er að á grundvelli samnings milli heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila sé gerður samningur á milli hjúkrunarheimilis og  heimilismanns um hvað þjónustu hjúkrunarheimilið mun veita þeim einstaklingi. Þá tekur fundurinn undir samþykktir landsambands eldri borgara um fjáforræði eldri borgara sem á hjúkrunarheimilum dvelja.

Brýnt er að ríkisvaldið viðurkenni í raun það frumkvæði sem sjálfseignarstofnanir og félagasamtök eins og Grund, hjúkrunarheimili, og Sjómannadagsráð/Hrafnistuheimili hafa tekið með byggingu dvalar- og hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Þessum eignum  þarf að halda við, endurnýja og bæta. Til þess verður að taka tilliti við útreikning á framlögum til rekstrar heimilanna til þess að tryggja hraða uppbyggingu á þessu sviði. Ríkisvaldið hefur sýnt að það er svifaseint í þessum efnum og ekki á það treystandi.

Aðalfundur SES leggur nú sem fyrr áherslu á að flugvöllurinn  verði áfram í Vatnsmýrinni.   Ekki má vanmeta þá þýðingu sem Reykjavíkurflugvöllur hefur fyrir innanlandssamgöngur og þjónustu höfuðborgarinnar við aðra landshluta, sérstaklega þegar fársjúkir einstaklingar eða slasaðir eiga í hlut.Þá getur hver klukkustund skilið milli lífs og dauða.  Aðalfundurinn beinir því til þingmanna að bregðast hart við ef borgin stendur fast við þá ákvörðun sína að flugvöllurinn verði lagður niður.