Gagnleg umræða um orkumál

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, dóms-,ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Umræðan um þriðja orkupakkann hefur á margan hátt verið gagnleg. Hún hefur reynt á viðbrögð okkar stjórnmálamanna við gagnrýni og efasemdum, meðal annars úr eigin herbúðum. Hún hefur sett orkumál í miðju þjóðfélagsumræðunnar, sem er æskilegt og gagnlegt nú þegar unnið er að nýrri orkustefnu fyrir Ísland. Hún hefur beint kastljósinu að eignarhaldi orkuauðlinda, sem er nauðsynlegt að ræða betur en gert hefur verið. Og síðast en ekki síst hefur hún vakið fólk til vitundar um að hér á landi ríkir samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku, þar sem neytendur eru ekki hlekkjaðir við einokunarfyrirtæki heldur geta valið við hvern þeir skipta.

Hlustað á efnislega gagnrýni

Af minni hálfu og okkar sem höfum farið fyrir málinu hefur aldrei komið annað til greina en að hlusta vel á gagnrýni, greina hana ítarlega og taka tillit til hennar. Ég tel að við höfum sýnt það í verki við meðferð málsins. Við höfum borið virðingu fyrir málefnalegum og efnislegum rökum. Við höfum á sama tíma staðið óhikað gegn rökleysu og staðlausum stöfum.

Andstaðan við málið hefur á köflum virst byggð á óljósum efnislegum rökum. Eftirminnilegt er sjónvarpsviðtal við formann stjórnmálafélags sem hafði ályktað gegn orkupakkanum. Hann var spurður hver væri ástæðan fyrir því og gat ekki nefnt eina.

Svipað var uppi á teningnum í umræðum á Alþingi á miðvikudaginn var, þegar Birgir Ármannsson þingflokksformaður okkar Sjálfstæðismanna spurði nafna sinn Þórarinsson þingmann Miðflokksins hvaða efnisatriði það væru í þriðja orkupakkanum sem hann hefði áhyggjur af. Engin svör fengust við því.

Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, sagði við sömu umræðu í þinginu á miðvikudaginn var: „Efni þriðja orkupakkans skiptir ekki höfuðmáli kannski, heldur að hann er til.“ – Þetta er merkileg yfirlýsing frá öðrum af tveimur höfuðandstæðingum málsins á Alþingi: „Efni þriðja orkupakkans skiptir ekki höfuðmáli kannski.“

Spurning um sæstreng

Sturla Böðvarsson fyrrverandi ráðherra vakti nýverið máls á því í grein hér í blaðinu, að áður en hægt væri að samþykkja þriðja orkupakkann þyrfti að sýna fram á að leikreglurnar um sæstreng væru okkur hagfelldar ef til þess kæmi að selja orku um sæstreng. Þetta eru eðlilegar vangaveltur sem rétt er og sjálfsagt að bregðast við, líkt og hann kallar eftir.

Meginreglan í því regluverki sem um ræðir er frjáls samkeppni í framleiðslu og sölu og jafnræði varðandi aðgang að flutningsmannvirkjum. Þetta eru ekki óskynsamlegar meginreglur. Hægt er að fá tímabundnar undanþágur frá þeim fyrir nýjar millilandatengingar og skilyrðin fyrir því liggja fyrir.

Því er velt upp hvort leikreglurnar kunni að vera okkur óhagstæðar. Eins og réttilega er bent á hefur Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu almennings, verið í fararbroddi umræðu um mögulegan sæstreng. Landsvirkjun er líklega sá einstaki aðili sem hefur mesta hagsmuni af því að við séum ekki að gangast undir slæmar leikreglur. Og þannig háttar til að Landsvirkjun styður innleiðingu þriðja orkupakkans fullum fetum. Að sjálfsögðu myndi fyrirtækið ekki styðja orkupakkann ef í honum fælust óhagstæðar leikreglur og ekkert bendir til að sú afstaða þeirra byggist á misskilningi.

Það liggur fyrir að EES-ríki geta ekki átt milliríkjaviðskipti sín á milli með raforku nema eftir leikreglum EES-samningsins. Íslandi stendur ekki til boða að selja Evrópu rafmagn samkvæmt öðrum og hagstæðari leikreglum en EES-samningurinn kveður á um og önnur lönd á evrópska efnahagssvæðinu spila eftir. Telji Ísland að þessar leikreglur séu ekki hagstæðar leggjum við einfaldlega ekki sæstreng til annars EES-ríkis. Eftir sem áður gætum við lagt slíkan streng á okkar eigin forsendum til lands utan EES, líkt og Bretland gæti orðið innan tíðar eins og Sturla bendir á. Það skal ítrekað hér að það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.

Þótt það sé ekki aðalatriði má að lokum benda á, að síðast þegar hagkvæmni sæstrengs var könnuð reyndist hann ekki borga sig, öfugt við það sem sumir höfðu haldið fram um væntanlegan ofurgróða af slíkum streng. Frá því að sú athugun var gerð hefur framleiðslukostnaður vindorku lækkað verulega. Hún er jafnvel orðin hagkvæmari en ný vatnsorkuver. Ef eitthvað er virðist það því verða sífellt nærtækara að sinna orkuþörf Evrópu með því að virkja þar, nálægt markaðinum, frekar en með því að virkja á Íslandi með álíka miklum tilkostnaði og þurfa síðan að leggja einn dýrasta raforkustreng heims fyrir mörg hundruð milljarða króna til að koma orkunni til notenda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. maí 2019.