Forræðið er Íslendinga

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður:

Umræðan um þriðja orkupakkann tekur á sig hinar ýmsu myndir. Sem dæmi hafa sumir stjórnmálamenn dregið upp þá mynd að innleiðingin feli í sér að ákvörðun um lagningu sæstrengs verði ekki lengur á forræði Íslands. Staðhæfing þessara stjórnmálamanna er einfaldlega röng og gefur tilefni til leiðréttingar.

Ekkert í þriðja orkupakkanum skuldbindur Ísland til að leggja sæstreng til meginlands Evrópu en slík ákvörðun verður á forræði Íslands.

Íslensk stjórnvöld hafa nú lagt fram þingsályktunartillögu vegna þriðja orkupakkans sem tekur af öll tvímæli um að lagning sæstrengs verður ávallt háð samþykki Alþingis. Áður en til slíks samþykkis kæmi þyrfti Alþingi þá jafnframt að endurskoða lagagrundvöll þriðja orkupakkans. Þannig er búið um hnútana að ákvæði þriðja orkupakkans varðandi tengingu yfir landamæri, s.s. með sæstreng, koma ekki til framkvæmda fyrr en að slíkri endurskoðun lokinni.

Loks hefur ráðherra orkumála lagt fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum annars vegar og þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku hins vegar.

Í breyttri þingsályktun er sérstaklega kveðið á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Þess er sérstaklega getið að samþykki verði að liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða sæstreng geti farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.

Þessum aðgerðum er ætlað að draga ramma í kringum flutning raforku frá Íslandi til meginlands Evrópu og tryggja að undir engum kringumstæðum verði lagður hingað sæstrengur án aðkomu íslenskra stjórnvalda. Það er engum vafa undirorpið að lagning sæstrengs verður ávallt á forræði íslenskra stjórnvalda og þannig þjóðarinnar. Allt tal um annað er staðleysa.

Það er skiljanlegt að fólk hafi áhyggjur af ýmsu sem tengist þriðja orkupakkanum – enda stórt mál. Hins vegar er mikilvægt að umræðan byggist á staðreyndum. Það á bæði við um í vinnu þingsins og í samfélaginu öllu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. apríl 2019.