Borgin veitir afslátt af mannréttindum fatlaðs fólks

Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:

Innan Reykjavíkurborgar er starfandi nefnd sem fer með aðgengismál – aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks (áður ferlinefnd fatlaðs fólks). Hlutverk hennar er meðal annars að fara með eftirlit með aðgengismálum í borgarlandinu. Þá fer nefndin enn fremur með stefnumarkandi hlutverk fyrir önnur fagráð borgarinnar í tengslum við aðgengismál og málaflokk fatlaðs fólks.

Eitt af fyrstu verkefnunum mínum í nefndinni var að óska eftir tölulegum upplýsingum um aðgengismál í borginni. Fyrirspurnin sneri að fjölda undanþága fyrir aðgengi fatlaðra sem Reykjavíkurborg hefur veitt vegna atvinnuhúsnæðis í Reykjavík á síðustu árum. Svörin sem fengust gáfu til kynna að ekkert eftirlit sé með veitingu undanþága en í svarinu stóð orðrétt: „Vegna alls þessa fjölda mála yrði það mjög tímafrek vinna að fara í gegnum öll skjöl og finna út úr því sérstaklega hvar gefin hefur verið undanþága, en erindi og samþykktir þar sem þannig háttar, eru ekki skráð sérstaklega í gagnagrunn embættis byggingarfulltrúa.”

Aðgengi fatlaðra eru sjálfsögð mannréttindi

Án tölulegra upplýsinga er ekki hægt að öðlast heildarsýn á fjölda undanþága sem veittar eru. Á meðan ekki er haldið utan um fjölda undanþáguveitinga vegna aðgengismála er staðan því óljós. Aðgengi fatlaðra eru sjálfsögð mannréttindi en án eftirlits er vel hægt að spyrja sig hvort verið sé að gefa afslátt af mannréttindum fatlaðs fólks.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tók gildi á Íslandi í september 2016. Þar er kveðið á um aðgengismál og segir meðal annars í 9. grein samningsins að gera þurfi …viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi…”

Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið í landinu. Þannig eru aðgengismála – í langflestum tilvikum – á ábyrgð þeirra. Mikilvægt er að halda vel utan alla málaflokka sem tengjast réttindabaráttu fatlaðs fólks.

Það er með öllu ólíðandi að ekki sé haldið utan um þessi gögn hjá borginni. Verði haldið utan um fjölda undanþága fæst betri yfirsýn yfir þau húsakynni sem eru óaðgengileg fyrir hreyfihamlaða. Í kjölfarið er mjög áríðandi að setja fram mælanleg markmið sem færa okkur nær því að þróa Reykjavíkurborg í átt til betri vegar í aðgengismálum.

Við getum gert betur. Ég mun leggja fram tillögur til úrbóta að þessu verklagi á vettvangi fyrrnefndrar Aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar. Trúi ég því að meirihlutinn í borginni taki vel í þær, enda á aðgengi fatlaðra að vera sjálfsagt mál í nútímasamfélagi. Þá mun ég fara fram á að þessari einföldu fyrirspurn verði svarað – því nauðsynlegt er að hafa vitneskju um hvar sé verið að veita undanþágu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2019.