Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og dómsmála-, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Gjaldþrot WOW air er áfall sem sviptir fjölda fólks lífsviðurværi og hagkerfið í heild sinni dýrmætum tekjum. Það er mikil eftirsjá að þessu fyrirtæki sem stuðlaði með margvíslegum hætti að bættum lífskjörum og auknum lífsgæðum á Íslandi.
Ferðaþjónustan mun til skemmri tíma verða fyrir töluverðu höggi. Að óbreyttu er talið að brotthvarf WOW air valdi því að erlendum ferðamönnum fækki um um það bil 300 þúsund á árinu, en önnur flugfélög munu fylla það skarð að einhverju leyti með því að auka sætaframboð.
Þessi málalok áttu sér töluvert langan aðdraganda eins og allir landsmenn fylgdust með. Sú staðreynd stuðlaði að tvennu. Annars vegar mildaði þetta höggið vegna þess að félagið byrjaði sjálft að draga verulega saman seglin. Hins vegar höfðu stjórnvöld svigrúm til undirbúnings.
Stjórnvalda að bregðast við með ábyrgum hætti
Eins og fyrirsjáanlegt var reyna sumir stjórnarandstæðingar að nýta sér þessa atburði til að pota í ríkisstjórnina með frekar ódýrum og ótrúverðugum hætti. Sumir þeirra segja að áætlanir hennar hafi aðeins gengið út á að koma strandaglópum til síns heima, sem sé ekki einu sinni hlutverk stjórnvalda. Þeir hinir sömu ættu endilega að koma því á framfæri við bresk stjórnvöld, sem stóðu frammi fyrir því að ríflega 100 þúsund manns urðu strandaglópar þegar flugfélagið Monarch fór á hausinn og eyddu gífurlegum fjármunum í að koma þeim til síns heima. Að sjálfsögðu er það hlutverk ábyrgra stjórnvalda að leggja mat á þá ringulreið og tilheyrandi álitshnekki fyrir landið sem getur orðið við verstu mögulegu aðstæður, ef áfall sem þetta verður á versta mögulega árstíma og versta mögulega tíma dags, og teikna upp mögulegar leiðir til að milda þá stöðu.
Merkilega þrautseigar eru líka raddir um að stjórnvöld hefðu átt að freista þess að bjarga félaginu. Gefið er í skyn og eiginlega fullyrt að einhver tiltekinn fjöldi milljarða hefði dugað til að gera félagið lífvænlegt. Ef sú hefði verið raunin hefðu fjárfestar gripið tækifærið á markaðslegum forsendum. Horfa má til fordæmisins um Air Berlin, sem var gríðarlega stórt og mikilvægt flugfélag. Þýsk stjórnvöld reyndu ekki að bjarga því félagi. Þau veittu því lán, en ekki til að bjarga því heldur eingöngu til að kaupa svigrúm, örfáar vikur, svo að hægt yrði að selja eignir þess. Til stóð að lánið fengist að fullu endurgreitt en þýskir fjölmiðlar hafa síðar haldið því fram að þriðjungur?/töluverður hluti þess hafi tapast.
Aukið sætaframboð mikilvægast
Miklu skiptir að reyna að milda höggið sem verður til skamms tíma, það er að segja á þessu ári. Að mínu mati skiptir þar mestu að auka sætaframboð til landsins. Ísland er án nokkurs vafa á kortinu sem vinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna. Kynningar- og markaðsátak gæti vissulega skilað árangri og kemur að sjálfsögðu til skoðunar en ef sama krónan gæti annaðhvort gert 500 manns meðvitaða um Ísland eða orðið til þess að fjölga flugsætum hingað til lands um 500 þá yrði hið síðarnefnda auðvitað fyrir valinu.
Í mínum huga leikur enginn vafi á því að ferðaþjónusta verður áfram ein af undirstöðuatvinnugreinum okkar. Það gerum við með því að huga sérstaklega að því að leggja áherslu á arðsemi framar fjölda ferðamanna.
Langtímaverkefni ferðaþjónustunnar er sjálfbærni
Öll viðleitni okkar í ráðuneyti ferðamála miðar að því að efla greinina á forsendum sjálfbærni. Sjálfbærni er bara orð þar til settir eru fram mælikvarðar. Í störfum mínum hef ég lagt áherslu á þetta og birtist hún í okkar helstu verkefnum sem eru:
- Endurskoðun á langtímastefnumótun í ferðaþjónustu í samráði við greinina og sveitarstjórnarstigið
- Viðamikið álagsmat á tugi mælikvarða samfélagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra innviða, til að stuðla að upplýstari ákvarðanatöku og forgangsröðun
- Efling rannsókna og gagnaöflunar
- Bæta stafræna tækni í ferðaþjónustu
- Uppbygging innviða á vegum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og Landsáætlunar um innviðauppbyggingu
- Nýjar áfangastaðaáætlanir landshlutanna, innleiðing þeirra og framkvæmd
- Barátta gegn ólöglegri starfsemi, svo sem með heimagistingarvakt
Það er mín bjargfasta trú – og hún byggist á trú minni á frjálst framtak – að til lengri tíma muni aðrir fylla upp í það skarð sem WOW air skilur eftir sig að því marki sem starfsemi þess var sjálfbær. Í þessum orðum felst trú á framtíð Íslands sem fyrsta flokks áfangastaðar ferðamanna og á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu sem einnar af okkar mikilvægustu undirstöðuatvinnugreinum.
Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. apríl 2019.